Græn stefna er þverpólitísk.

Engin leið er til þess að skilgreina græna umhverfisstefnu sem hægri eða vinstri heldur er slík stefna þverpólitísk.

Dæmi: Í skoðankönnun um Kárahnjúkavirkjun í aðdraganda virkjunarinnar kom í ljós að fjölmennasti hópurinn sem var andvígur henni var helmingur þeirra, sem sögðust fylgja Sjálfstæðisflokknum en var þó á móti virkjuninni. 

Í sömu könnun kom í ljós að þriðjungur þeirra, sem sögðust fylgja Vinstri grænum var meðmæltur virkjuninni. p1012171.jpg

Ægivald Davíðs Oddssonar og virkjanasinnanna í Sjálfstæðisflokknum réði því hins vegar að Ólafur F. Magnússon var hrakinn úr ræðustóli á landsfundi flokksins. p1012163_1004851.jpg

Á þessum tíma var góður meirihluti fylgjenda Samfylkingarinnar andvígur virkjuninni en Verkalýðsforystan og þingmenn Samfylkingarinnar á þeim tíma í Norðausturkjördæmi sveigðu þingflokkinn til fylgis við virkjunina og aðeins tveir þingmenn hennar greiddu atkvæði á móti. 

Einn þingmanna hennar sagði í atkvæðagreiðslunni að hann væri umhverfissinni en greiddi samt atkvæði með mestu mögulegum óafturkræfu umhverfisspjöllum, sem möguleg eru á Íslandi! 

Helstu baráttumenn fyrir umhverfis- og náttúruvernd víða um lönd koma úr öllu hægri-vinstri litrófinu. 

Ef ekki hefði verið fáránlega hár atkvæðaþröskuldur í kosningunum 2007 eða ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi, hefði fyrsti græni flokkurinn, sem hvorki kennir sig við hægri eða vinstri, komið mönnum á þing. 

Hrikalegustu umhverfisspjöll okkar tíma voru framkvæmd í kommúnistaríkjunum annars vegar og hins vegar þar sem hið óhefta stórkapital fékk að leika lausum hala. 

Hvorki vinstri menn né hægri menn geta eignað sér góða græna stefnu og þess vegna er þverpólitískur umhverfisflokkur það sem vantar sárlega hér á landi. 

Myndin, er í haus bloggsíðu minnar, er tekin sumarið 2006 á botni Hjalladals, sem sökkt var þá um haustið. Þar var stórkostlegt og litskrúðugt landslag undir grænni Fljótshlíð íslenska hálendisins, og gljúfur, Stapar, stuðlabergshamar og Rauðaflúðin voru snilldarverk Jöklu, sem hún hafði búið til á innan við öld.  

Myndirnar tvær á síðunni eru hins vegar teknar nú um daginn af þeim risavöxna drullupolli og rjúkandi leirum upp á tugi ferkílómetra, sem þarna eru nú og ganga undir nafnin Hálslón .

Á þeirri efri sést grilla í Sandfell og Fremri-Kárahnjúk.

Á þeirri neðri er komið nær og tvær stærstu stíflur á Íslandi, önnur langstærsta mannvirki landsins, eru inni í sand- og leirkófinu og engum manni þar vært þótt Landsvirkjun hafi með glansmyndum auglýst á sínum tíma hvílík dýrðarveröld fyrir ferðamanna byðist þarna í veðurfari eins og verið hefur að undanförnu sem 12-15 stiga hita dögum og vikum saman.

Öll þessi dýrð myndi opnast þegar þangað lægi eini malbikaði hálendisvegurinn sem er fær fyrstu vikur sumarsins. 

Stórkapitalið og verkalýðsforystan lögðust á eitt við að framkvæma þetta hervirki, - sú stefna var þverpólitísk rétt eins og baráttan gegn þessu. 

Umturnun náttúruverðmæta byggist á því að viðhalda vanþekkingu með þöggun og einhliða upplýsingum. Forsenda grænnar stefnu er að rjúfa þennan þöggunar- og vanþekkingarmúr og það verkefni er þverpólitiskt. 

 


mbl.is Hægri-grænir stofna flokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband