Gullöld Laugarnesskólans. Minnisstæð hjón.

Því miður voru engin menntaverðlaun veitt um miðja síðustu öld. Á þeirri tíð voru kennarar mun betur launaðir miðað við aðra en nú er og það skilaði sér í frábæru starfi afburðafólks, sem valdist til kennslustarfa.

Dæmi um það var Laugarnesskólinn fyrstu áratugina eftir að hann var orðinn fullstór. Nöfn frumkvöðla og framúrskarandi kennara á borð við Skeggja Ásbjarnarson, Ingólf Guðbrandsson, Ingólf Jónsson frá Prestbakka, Þórarin Hallgrímsson og Dagmar Bjarnason koma upp í hugann. 

Gegnt skólanum, við Hofteig, risu íbúðarhús sem kennararnir reistu. Meðal þeirra sem þar bjuggu sér heimili voru Ingólfur Guðbrandsson og Inga Þorgeirsdóttir sem í hárri elli hafa nú kvatt þessa jarðvist að afloknu frábæru ævistarfi. 

Ég var svo heppinn að Ingólfarnir, Guðbrandsson og Jónsson, voru frændur mínir og systkinasynir foreldra minna, hvor í sína ættina. 

Meðal þess sem þeir gerðu var að Ingólfur Guðbrandsson gaukaði ljúfu jólalagi að nafna sínum og bað hann um að líta á það. Ingólfur Jónsson gerði ljóðið "Bjart er yfir Betlehem" og það varð brátt að einhverju besta jólalagi sem þjóðin á. 

Ég kom oft í heimsókn til þeirra ngólfs og Ingu, sem áttu glæsilega fjölskyldu, dætur, sem síðan hafa auðgað íslenskt tónlistarlíf svo um munar. 

Ég kynntist elstu dætrunum, Þorgerði og Rut einna best, einkum Þorgerði bæði fyrr og síðar. 

Hún erfði alla bestu eiglnleika foreldra sinna, tónlistargáfu og áhuga föður síns og ljúfmennsku og göfgi móður sinnar auk dugnaðar og kappsemi beggja. 

Það er erfitt að hugsa sér glæsilegra og göfugra ævistarf en starf Þorgerðar í Menntaskólanum við Hamrahlíð og frumherjastarf föður hennar í tónlist og ferðamennsku var einstakt. 

Inga skipar sérstakan sess í huga mínum sem einhver mætasta og besta manneskja sem ég hef kynnst. 

Annar eins grunnskólabekkur og frægasti bekkurinn sem Skeggi Ásbjarnarson kenndi, verður líkast til ekki uppi aftur á Íslandi. Ótrúlega margir af bekkjarfélögunum varð þjóðfrægt fólk. 

Ég man ekki öll nöfnin en þessi koma upp í hugann: Jón Baldvin Hannibalsson, Bryndís Schram, Halldór Blöndal, Styrmir Gunnarsson, Brynja Benediktsdóttir, Magnús Jónsson...

Það voru forréttindi að fá að vera nemandi í þessum frábæra grunnskóla. 


mbl.is Verðlaunuð fyrir gott starf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þegiðu, Egill! Þetta er Valur!"

Óforbetranlegur Framari eins og ég getur átt það til að halda með öðru liði en Fram, eins og það væri hans eigið félag. 

Þannig er það með mig og marga aðra þegar KR er annars vegar. Hvernig stendur á þessuf? 

Þetta er orðin mjög gömul hefð, allt frá miðri síðustu öld þegar KR var öflugasta íþróttafélag landsins, einkum í vinsælustu íþróttunum, knattspyrnu og frjálsum íþróttum. 

Það er nefnilega kalt á toppnum og það fengu KR-ingar að reyna þegar Framarar, Valsarar og Víkingar héldu ákaft með Akurnesingum þegar þeir léku við KR. 

Það gátu allir aðrir en KR-ingar sameinast um að vera á móti KR og halda til dæmis ákaft með Akurnesingum. 

Ekki spillti fyrir að leikaðferð Akurnesinga, stuttar, hraðar sendingar, svonefnd meginlandsknattspyrna, gladdi augað meira en stórkarlalegur leikur KR sem byggðist á löngum spyrnum eins og oft voru notaðar í ensku knattspyrnunni. 

Háar spyrnur og langar voru kallaðar "KR-spörk". Á móti hafa KR-ingar löngum kallað leikaðferð Fram "dúkkuspil" og "miðjumoð." 

Gullaldarlið KR í kringum 1960 með Þórólf Beck, Ellert B. Schram, Garðar Árnason, Örn Steinsen og fleiri var að vísu svo glæsilegt og frábært að það var erfitt fyrir áhangendur annarra félaga að halda fast við að vera á móti KR. 

Á sjötta áratugnum átti Fram að vísu líka gott lið og á síðari hluta þess áratugar voru Fram, Valur og ÍBA með bestu liðin. 

Ég hef einu sinni hrópað "áfram KR" en það var þegar Jón með nefið (Jón Sigurðsson) og félagar hans í B-liði KR sló A-liðið út úr bikarkeppni á sjötta áratugnum.

Í laginu um Jóa útherja er Egill rakari látinn hrópa: "KR-ingar, þið eigið leikinn!" og honum er svarað: "Þegiðu, Egill, þetta er landsliðið!" 

Í gær hefði verið hægt að hrópa "KR-ingar, þið eigið leikinn!" og svarið hefði verið: "Þegiðu, Egill (Bjarni), þetta er Valur! 

Og í anda gamallar hefðar segi ég bara, þótt Framari sé: "Til hamingju, Valsmenn". 

 


mbl.is Sigurganga Vals heldur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þó yfir núllinu.

Það er varla hægt að tala um aukningu þegar talan 0,6% er nefnd. Ef um er að ræða þjóðfélag þar sem talið er nauðsynlegt að fólki fjölgi, þurfa framleiðslan og tekjurnar að vera hærri tala en nemur fjölguninni. 

Þess vegna ætti alltaf að nefna hve mikið framleiðslan hafi aukist á hvern íbúa. 

Stundum mælist aukning þótt engin sé í raun þegar að er gáð. Ég hef áður nefnt dæmið um þensluna sem varð frá júlí 2002 til vors 2003. 

Rannsókn ágæts manns í Seðlabankanum sýndi að meira en 80% þenslunnar varð til við það að jafnskjótt og undirritaðir voru samningar við Alcoa um álver í Reyðarfirði 19. júlí 2002 ólk rauk til og tók lán eða fór í topp í yfirdrætti á greiðslukortum vegna þess að það veðjaði á þenslu ári síðar þegar framkvæmdir væru byrjaðar við Kárahnjúka. 

Framkvæmdirnar byrjuðu ekki fyrr en sumarið 2003 þannig að í raun var engin innistæða fyrir þessari þenslu fremur en að innistæða væri fyri megninu af ofurþenslunni í gróðærisbólunni sem stóð fram til 2008. 


mbl.is Aukning landsframleiðslu 0,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband