Neitaði að skemma ekki bíl minn.

Ég var að aka síðasta spottann á leið minni frá Neskaupstað að Hvolsvelli nú upp úr miðnætti þegar ég varð að nauðhemla tvisvar með innan við mínútu millibili.

Í fyrra skiptið var það vegna þess að kindahópur hljóp skyndilega upp á veginn og þvert yfir hann. Það var skuggsýnt og engin leið að sjá kindurnar fyrr en þær hlupu inn á veginn. Aðeins munaði hársbreidd (lagðbreidd) að ég lenti á einni þeirra. 

Ég hélt áfram ferðinni en kom strax að kafla rétt sunnan Hvolsvallar þar sem lögð hefur verið möl ofan á veginn og því sett upp skilti um 50 kílómetra hámarkshraða. Í baksýnisspeglinum sá ég stóran pallbíl koma æðandi og fyrr en varði var hann kominn að mér á minnsta kosti tvöföldum leyfilegum hraða. 

Ég reyndi að gefa stefnuljós til vinstri og blikka ljósum til að koma bílsjóranum í skilning um að hann stofnaði mér og bíl mínum í hættu með því að æða svona fram hjá mér og ausa yfir mig grjóti. 

Fyrir nokkrum dögum varð ég fyrir því að stór jeppi fór fram úr mér á vegi með leifum af möl og steinn braut framrúðuna hjá mér og mig langaði ekki aftur í að upplifa slíkt svona strax á eftir.

En þessi eigandi stóra ameríska jeppatröllsins neitaði að hlífa mér og jós yfir mig grjótinu, en ég nauðhemlaði í annað sinn til að forðast nýtt framrúðubrot um leið og hann óð fram hjá mér með allt í botni. 

Mér tókst að komast hjá framrúðubroti en hann braut annað stöðuljósið að framan og ekki slapp lakkið heldur. 

Ég sá hann hverfa á öskrandi hraða í gegnum þorpið á Hvolsvelli aðeins nokkur hundruð metra frá lögreglustöðinni. 

Atvik þetta er ekkert einsdæmi. Fyrir nokkrum árum reyndi ökumaður að leika þennan leik á malarkafla í Norðurárdal þar sem var 30 kílómetra hámarkshraði á aðeins eins til tveggja kílómetra kafla. 

Ég reyndi að hindra hann í þeirri ætlan að grýta bíl minn en hann þrengdi sér samt fram hjá mér, jós grjótinu yfir mig og farþegi við hlið hans kastaði ölflösku út um gluggann í átt að mér þegar hann fór fram úr og munaði minnstu að hann hitti. 

Við Hvalfjarðargöngin fórum við nær samhliða í gegn og mér gafst færi á að tala við hann við lúguna.

Hann hélt því fram fullum fetum að það væri hans einkamál sem kæmi mér ekki við ef hann bryti hraðatakmarkanir þegar honum dytti það í hug en taldi akstur minn hins vegar hafa verið vítaverðan. 

Ég taldi mig hins vegar aðeins hafa verið að verjast því að vera grýttur. 

Við ókum með 50 metra millibili inn í Reykjavík og ég velti því enn fyrir mér hvað svona ökumönnum gangi til í akstri sínum. 

Einnig velti ég því fyrir mér hvílík býsn af sauðfé var á ferli á hringveginum á leið minni austur og til baka og hver hefði borið ábyrgð á því blóðbaði, sem orðið hefði ef stóri pallbíllinn við Hvolsvöll hefði verið ca 10 sekúndum fyrr á ferðinni og lent á ofsahraða á kindahópnum, sem ég rét slapp hjá að lemstra. 

Hefði það orðið eigandi sauðfjárins, ökumaðurinn eða báðir sem báru ábyrgð á því?  Ég smellti einni mynd af fé við vegarbrún fyrr á leiðinni en þar sem ég er núna á ég ekki tæknilega möguleika á að setja hana inn. 


mbl.is Neitaði að færa sig yfir götu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband