15.7.2010 | 22:19
"...birkið ilmaði, allt var hljótt..."
Við hjónin ókum inn í Þórsmörk síðastliðinn sunnudag til að sjá með eigin augum áhrif öskufalls á þetta vinsæla útivistarsvæði.
Myndirnar með þessum pistli eru teknar í ferðinni á síðustu kílómetrunum inn að Básum og beftirtektar vert hvað litiirnir eru víða með blágráum blæ sem felur í sér nýja fegurð.
Skemmst er frá því að segja að með ólíkindum var hvað svæðið leit betur út nú en það leit út úr lofti eftir að mestu öskugusurnar dundu yfir það meðan á gosinu stóð.
Að okkar dómi er það aldeilis fráleitt að Íslendingar forðist að koma þarna inneftir á þeim forsendum að þar sé aska til trafala á jörðu niðri og fjúkandi í loftinu.
Þvert á móti fannst okkur það stórkostleg upplifun að sjá hvernig lífríki Goðalands og Þórsmerkur bregst við öskunni, teygir sig upp úr henni og nýtir sér efni í henni sem örvar vöxt og viðgang.
Þar að auki er miklu betra bílfæri inn eftir en var í fyrra eftir rigningaflóð sem þá komu og gerðu veginn og vöðin illfær og varasöm.
Vegna gossins fór Vegagerðin inneftir á dögunum og lagfærði veginn stórlega svo að nú er ekkert mál að fara inn eftir á jeppum af öllum stærðum.
"Ofarlega mér er í sinni
að það var fagurt í Þórsmörkinni, -
birkið ilmaði, allt var hljótt,
yfir oss hvelfdist stjörnunótt..."
orti Sigurður Þórarinsson á sínum tíma og það á svo sannarlega við í dag.
Fegurð Þórsmarkar nú er fólgin í því að litirnir eru víða öðruvísi en áður, mismunandi mótaðir af öskufallinu en á hraðri leið til að verða hinir sömu og var.
Ef notað er leitarorð í sérstökum dálki á bloggsíðunni má finna pistil um ástand Þórsmerkur frá því snemmsumars, sem er orðinn úreltur að mestu, sem betur fer.
Auðvitað er mikilsvert að hreinsa öskuna þar sem hún getur orðið hvimleið og ber að fagna framlagi Pokasjóðs til þess verkefnis, sem tilkynnt var í dag.
En það er líka ástæða til að hjálpa til við þetta með því að fara inneftir og njóta þjónustu þeirra aðila sem annast hana á þessu svæði svo að þeir missi ekki tekjur, sem mikil þörf er á að minnki ekki.
![]() |
Iðjagrænt í Þórsmörk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.7.2010 | 19:49
"Blönduóslöggan æði oft..."
Ef bíla snögga ber við loft
brátt má glögga sjá,
því Blönduóslöggan æði oft
er að "bögga" þá.
![]() |
Fylgst með umferð í Húnavatnssýslum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.7.2010 | 14:31
"Á flandri!"
Sumarið er svo stutt á Íslandi að það er mikils virði fyrir alla að njóta eins mikillar útiveru og kostur er.
Ferðamöguleikarnir eru óteljandi, jafnvel þótt tími og fjárráð séu að skornum skammti, allt frá gönguferðum í næsta nágrenni til hjólaferða, hestaferða, vélhjólaferða, bílferða, bátsferða eða flugferða.
Í svona ferðum á lífsgleðin að fá að blómstra með þökk fyrir hvern einasta dag sem við fáum að lifa á þessari jörð.
Og kynslóðirnar geta tengst og átt góðar stundir saman.
Í þessum anda skruppum við Andri Freyr Viðarsson í hjóðver í gær og sungum lagið "Á flandri", íslenskan texta við lag sem Ian Durie flutti á sínum tíma og hét þá "Hit me with your rythmstick."
Á milli okkar Andra eru tvær kynslóðir svo að það er líkt og afinn og strákurinn hafi náð saman í stuðinu.
Það er búið að setja lagið efst á tónlistarspilarann til vinstri á bloggsíðunni minni og hægt að spila það með því að smella á örina.
Þess má geta að spjall okkar og spuni á milli erinda var gersamlega óundirbúið og fyrsta taka látin standa.
Þess vegna verður fólk bara að reyna að ráða í það hvað við erum að muldra ef það er forvitið, - það er hvergi til skrifað.
Ég er búinn að vera í svonefndum "sessionum" eða upptökum í hálfa öld en hef aldrei hitt fyrir eins gersamlega eldkláran spunakarl og Andra Frey í upptökunni í gær.
Vilhjálmur Guðjónsson sá um tónlistarflutninginn og upptökuna og hljóðfæraleikurinn nýtur sín best ef menn geta hækkað hljóðið duglega við spilun.
Á morgun verðum við Andri líklega á flandri fyrir norðan í sveitinni þar sem ég var fimm sumur í sveit, enda Húnavakan á fullu.
![]() |
Útlit fyrir gott helgarveður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)