26.7.2010 | 22:49
Vietnamstríðið tapaðist heima.
Flestum ber saman um að í raun hafi Vietnamstríðið tapast heima í Bandaríkjunum fremur en á vígvellinum sjálfum.
Þetta er að vísu of mikil einföldun því að hefði ástandið verið betra á vígvöllunum er það var hefði almenningsáltið heima fyrir ekki snúist svo mjög gegn stríðinu að Johnson forseti lagði ekki í að leita eftir endurkjöri 1968 og í kjölfarið fylgdi langdreginn ósigur.
Helsta röksemdin fyrir því að her Bandaríkjamanna kæmist upp í allt að 550 þúsund manns í Vietnam var sú, að félli Vietnam í hendur kommúnistum, myndu öll ríkin í þessum heimshluta fylgja á eftir.
Þetta var kölluð Dómínókenningin.
Þótt ósigur Bandaríkjamanna væri hinn fyrsti í sögu landsins og mjög beiskur, rættist Dómínókenningin ekki.
Ég hef áður fært að því rök hér á blogginu að stríðið í Afganistan beri í sér flest einkenni Vietnamstríðsins.
Hinir útlendu hermenn væru að berjast við framandi aðstæður í fjarlægu landi þar sem landfræðilegar aðstæður væru allar hliðhollar heimamönnum, sem væru þeim vanir og þaulkunnnugir.
Spilling ríkti meðal leppa innrásarherjanna, menningargjá væri á milli hinna erlendu hermanna og landsmanna og stríðsglæpir og mannfall meðal almennra borgara mun meira en látið væri uppi.
Stórveldunum Bretlandi og Rússlandi mistökst að sigrast á Afgönunum á sinni tíð og ef Bandaríkjamenn gefast upp á þessu stríði eins og Rússar og Bretar má segja að sætt sé sameiginlegt skipbrot.
Ekki virðíst hafa skipt máli hvort hermennirnir óku frambyggðum Rúsajeppum eða Hummerum.
Í upphafi stríðsins í Afganistan var svipuð dómínukenning í gangi og í upphafi Vietnamstríðsins og sagt að ef talibanar yrðu ekki gersigraðir myndi það þýða ósigur í stríðinu gegn hryðjuverkum um allan heim.
Vafasamt er að þessi kenning fái staðist því að eðli hryðjuverkastarfsemi er þannig að hún leynist hvort eð er í mörgum löndum og verður ekki upprætt með því einu að vinna bug á talibönum í landi, sem er mun óhagstæðara fyrir vélvæddan hernað Bandaríkjamanna en flest önnur lönd.
Vietnamstríðið tapaðist meðal annars vegna þess að sjónvarp var komið til sögunnar og sjónvarpsfréttamenn reyndust starfi sínu vaxnir að greina frá sannleikanum ekkert síður en undanbrögðum og blekkingum hernaðaryfirvalda sem ævinlega fylgir stríðsrekstri, sama hvaða þjóð á í hlut.
Þetta var fyrsta stórstríðið sem var háð í sjónvarpi.
Af hálfu hernaðaryfirvalda hefur verið reynt að setja undir þennan leka í stríðum nútímans en lekinn mikli hjá Wikileaks hefur nú dregið huliðstjaldið að hluta til frá og glyttir í nakinn veruleikann, sem Bandaríkjamenn verða að horfast í augu við.
![]() |
Stríðið gæti tapast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.7.2010 | 11:45
"Safari-tilfinningin".
Stór hluti Kjalvegar í núverandi mynd er nýlega lagður, upphleyptur og tiltölulega beinn. Ég ók Kjöl nýlega og þá kom hið ótrúlega í ljós að nýju kaflarnir yfir Bláfellsháls voru ósléttastir, grófastir og leiðilegastir en gamli troðningurinn frá Hvítárbrú norður í Seyðisá hins vegar í góðu standi.
Ég er ekki fráhverfur því að þessir upphleyptu vegir, sem þegar eru komnir, verði malbikaðir þar sem þeir eru svona vondir, en sé enga sérstaka ástæðu til þess að gera vöruflutningahraðbrautarveg um Kjöl og fæla með því frá vaxandi fjölda ferðamanna sem sækist eftir þeirri óviðjafnanlergu tilfinningu sem óbyggðirnar bjóða upp á.
Íslendingar virðast eiga erfitt með að skilja það að töfrar hálendisins felast meðal annars í því að hægt sé að fá "Safari-tilfinningu" á ferð um það. Ég var einn þeirra sem skildi þetta ekki fyrr en ég fór að skoða þjóðgarða og virkjanasvæði erlendis fyrir rúmum áratug.
Fram að því var ég í hópi þeirra sem vildi fá beina, breiða, upphleypta og malbikaða hálendisvegi enda er ég af jarðýtukynslóðinni sem lék sér sem börn við að leggja vegi fyrir leikfangabíla okkar í sveitinni.
Það var ekki fyrr en ég fór að skoða lönd og lendur utan Íslands að ég áttaði mig á því að ég hafði fram að því ekki aðeins verið heimskur í upprunalegri merkingu þess orðs, - maður sem alltaf er heima, fer aldrei að heiman, og miðar alla heimssýn sína og skoðanir við það, - heldur hafði ég með því að ganga, hljóla, ríða, aka og fljúga um fjallendi landsins en aldrei skoðað neitt hliðstætt erlendis, verið fjallheimskur.
Ég viðurkenni að hægt er að stytta leiðina milli Reykjavíkur og Norður-og Austurlands um 50 kílómetra með því að leggja sem beinastan veg um Grafningsskarð, Grímsnes, austan Bláfell og þvert yfir Eyvindarstaðaheiði yfir í Norðurárdal í Skagafirði.
En það blasir líka við að hægt er að stytta þessa sömu leið í byggð um allt að 25 kílómetra og bæta og stytta þar með leiðir á milli byggðanna innbyrðis, sem hringvegurinn liggur um og auka öryggið á þessari leið.
Hið hlálega er að sumir þeirra sem vilja jafnvel gera hraðbraut um Arnarvatnsheiði og Stórasand sem liggi upp í meira en 800 metra hæð yfir sjó á einhverjum versta illviðrakafla landsins mega ekki til þess hugsa að leiðin um byggðirnar séu styttar.
![]() |
Vilja halda í malarveginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)