27.7.2010 | 11:03
Tilvalið hús fyrir flugstöð og neyðarskýli ?
Ég skilgreini mig sem flugvallarbónda á Sauðáflugvelli eftir að sá flugvöllur fékk starfsleyfi 21. júní síðastliðinn og ég er skráður ábyrgðarmaður hans. Efsta myndin hér var tekin þar að næturlagi í síðustu viku.
Til að gegna hlutverki flugstöðvar og neyðarskýlis á vellinum stendur þar 32ja ára gamall húsbíll, fastur við niðrgrafna stöng með vindpoka.
Flugvallarbúskapurinn er erfiður svona langt í burtu og uppi á hálendinu en gefandi þegar um er tilgangurinn og umhverfið er haft í huga, flugvöll sem getur nýst öllum flugvélum íslenska flugflotans að Fokker F50 meðtöldum.
Einnig gerð myndarinnar sem snýst um flugvöllinn, "Brúarjökull og innrásirnar í Ísland."
Næturkyrrðin var óviðjafnanleg meðan ég staldraði þar við.
Flugvöllurinn er vel staðsettur nokkra kílómetra vestur af Hálslóni og Kárahnjúkastíflunum og stutt að fara til Kverkfjalla, Öskju og Herðubreiðarlinda.
Fyrir helgina fór ég langa ferð á gömlum fornbíl, frambyggðum Rússajeppa, alla leið frá Veiðafæraþjónustunni í Grindavík og upp á flugvöllinn norðan við Brúarjökul.
Þetta er 750 kílómetra löng leið og Rússinn ekki hraðskreiður en þeim mun meiri tími gafst til að skoða landslagið á leiðinni og taka kvikmyndir og ljósmyndir.
Bíllinn var fullur af ýmsum varningi, lóðabelgjum og öðrum merkingum sem þarf að koma fyrir við flugbrautirnar fjórar til þess að þær séu merktar á löglegan hátt.
Á myndunum úr ferðinni sést hið stórmerkilega Eldgjárhraun alveg við veginn yfir Mýrdalssand í Álftaveri, en Eldgjárgosið 930 var stærsta gos á sögulegum tíma, stærra en Skaftáreldar.
Katla hefur kaffært í sandi allan þann hluta hraunsins sem lægst stendur í Kötluhlaupum, en upp úr standa grónir hraunhólar.
Og alltaf er nú Búlandstindur við Djúpavog jafn tignarlegur.
Þegar ég sé nú frétt af húsum Landsvirkjunar á Kárahnjúkasvæðinu, sem séu á lausu, er ekki laust við að manni detti í hug að einhver lítil eining þeirra gæti orðið að flugstöð og neyðarskýli á Sauðárflugvelli.
Þetta er jú við jaðar virkjanasvæðisins mikla.
Hægt væri að setja það niður án rasks svo að hægt væri að fjarlægja það án umhverfisröskunar, ef svo bæri við.
Ég segi nú bara si svona. Djók.
![]() |
Landsvirkjun óskar eftir tilboðum í vinnubúðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 28.7.2010 kl. 00:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.7.2010 | 09:42
Ekki "þröngur hópur" í Magma-málinu.
Það er einföldun að "þröngur hópur" þingmanna VG ógni ríkisstjórnarsamstarfinu hvað Magma-málið snertir eins og stjórnmálasérfræðingur talar um.
Óánægjan með Magma-samninginn nær langt inn í raðir annarra flokka, enda er samningurinn sjálfur á alla lund með þvílíkum fyrir-Hruns-blæ ef svo má að orði komast, að með ólíkindum er.
Til dæmis hefur Íslandshreyfingin, aðildarfélag að Samfylkingunni, ályktað eindregið frá upphafi gegn því ferli sem hafið var 2007.
Það er ekki aðeins að samningstíminn sé svo langur að jafngildi afhendingu auðlindarinnar heldur er hún færð fyrirtækinu á einhverju magnaðasta silfurfati sem um getur, félaginu lánað fyrir kaupunum með kúluláni á gjafvöxtum og með veði í bréfunum sjálfum.
Öll einkenni spilaborgar og hókus-pókus gerninganna sem skópu Hrunið lýsa í gegn, að ekki sé talað um hugsunarháttinn.
Það er augljós mótsögn í því að útlendingar megi ekki eignast nýtingarrétt sjávarauðlindarinnar en hins vegar eignast sams konar rétt í orkuauðlindinni.
Undir yfirskini raunsæis, realpólitíkur, er nú sagt að í gegnum eignarhald útlendinga á bankanum, sem í raun eigi HS Orku, eigi útlendingar fyrirtækið hvort eð er þegar og að skárra sé að færa hið erlenda eignarhald yfir á erlent orkufyrirtæki en að hafa það áfram í núverandi gjörgæslu raunverulegra eigenda.
Ef þetta á að vera hin gildandi rökfærsla fyrir afhendingu auðlinda til útlendinga á áreiðanlega svipað við um mörg sjávarútvegsfyrirtæki.
Vel kann að vera að það sé erfitt að brjótast um í því neti erlendra kröfuhafa sem Hrunið leiddi þjóðina í.
Hitt er verra ef uppgjöfin er slík að blygðunarlaus færsla eignarhaldsins á silfurfati til útlendinga sé orðin að stefnu stjórnvalda og stjórnmálaflokka, sé réttlætt sem "realpólitík".
Ef uppgjafarhugsun fyrir ofurefli dansks valds hefði ríkt á Þjóðfundinum 1851 hefði enginn staðið þar upp og sagt: "Vér mótmælum allir!"
![]() |
Þröngur hópur þingmanna VG ógnar stjórninni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)