5.7.2010 | 09:07
Milljónatuga kostnaður vegna reglugerða.
Íslandsmótið í svifflugi er ekki það eina í fluginu sem hefur orðið fyrir barðinu á nýjum evrópskum reglum um loftför. Allt flug á litlum flugvélum á Íslandi hefur verið sett í uppnám vegna þessa allt frá síðastliðnu hausti þegar þetta dundi yfir.
Kostnaður vegna reglubundinna skoðana margfaldaðist við að innleiða nýjar Evrópureglur og hefur valdið mér og öðrum ómældum vandræðum og kostnaði. Þannig varð siðasta ársskoðun á FRÚ-nni sjöfalt dýrari en ég hafði búið mig undir.
Enginn fjölmiðill virðist hafa áhuga á þessu máli því að öllum er skítsama um smáfuglana. Flugfélagið Ernir, Flugfélag Vestmannaeyja og Mýflug eru þó dæmi um flugrekstur sem hefur tekjur af ferðamönnum en hefur nú verið settur í uppnám og gerður mun dýrari en áður af þessum sökum.
Mér skilst að hið nýja reglugerðarfargan miðist við flug yfir þéttbýlum svæðum Mið-Evrópu og að þess vegna séu sömu kröfur settar um litlu flugvélarnar og breiðþotur stóru flugfélaganna !
Hins vegar hafi Svíar nýtt sér það að þeir búa í dreifbýlu landi á jaðri álfunnar og fengið undanþágu frá því að innleiða reglurnar ! En ekki Íslendingar !
Ég hef ekki gefið mér tíma til að kynna mér þetta út í hörgul því að reynslan kennir mér að það er tilgangslaus fyrirhöfn.
Reglurnar sjálfar eru um margt fáránlegar. Þannig gilda þær ekki um sumar eins hreyfils flugvélar í flotanum, sem innleiddar voru fyrir 1955.
Dæmi: Cessna 170 er undanþegin reglunum af því að hún var hönnuð og byrjað að framleiða hana árið 1948.
Cessna 172, sem er sama flugvélin en með nefhjól í stað stélhjóls fellur hins vegar undir reglugerðina af því að byrjað var að framleiða hana árið 1956 !
Piper Super Cub fellur ekki undir reglurnar af því að sú tegund Piper Cub kom fram um 1950.
Af því leiðir að vélar, sem síðar voru framleiddar, sleppa við farganið, jafnvel þótt framleiðsluárið sé 1990 á sama tíma og vélar eins og mín, framleiddar 30 árum fyrr, lenda í klóm hins gríðarlega skrifræðis.
Þessi ósköp ásamt því að flugbensín er nú orðið allt að 100 krónum dýrara hver lítri en bílabensin hefur gerbreytt aðstæðum til reksturs lítilla flugvéla á Íslandi til hins verra og þess sér þegar stað.
Vilmundur heitinn Gylfason fann upp hið frábæra nýyrði möppudýr og skilgreindi snilldarlega á hverju tilvera þeirra og endalaus fjölgun byggist.
Svipað hafði Parkinson gert aldarfjórðungi fyrr með útgáfu bókar sinnar um Parkinsonlögmálið.
Eitt dæmið sem hann tók var Nýlendumálaráðuneytið breska. Þegar breska heimsveldið var stærst og náði í kringum jarðarkringluna þannig að sólin settist þar aldrei, unnu þar nokkrir tugir manna.
Þegar lönd heimsveldisins voru orðin sjálfstæð og það nánast alveg úr sögunni unnu hins vegar 4000 möppudýr í ráðuneytinu !
Það væri hollt fyrir okkur á krepputimum að huga að kenningum þessara manna.
![]() |
Flugmóti aflýst vegna reglugerðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.7.2010 | 08:43
Það var þoka og það var útkall.
Ég sé á blogginu að menn efast um hvort þoka hafi verið á Fimmvörðuhálsi í gærkvöldi og hvort nokkur ástæða hafi verið til að senda út fréttatilkynningu um að björgunarsveitir hafi verið kallaðar út.
Hvað þokuna snertir þá fylgdist ég grannt með Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi í gærkvöldi, bæði með því að horfa beint á jökulinn frá Hvolsvelli og nágrenni og líka með því að skoða vefmynd ítrekað á mila.is
Þarna skall yfir þoka í gærkvöldi að því er ég fæ best séð.
Sú skoðun er viðruð á bloggi að Landsbjörg eigi ekki að senda út fréttatilkynningar um leitir að fólki fyrr en þeim sé lokið.
Þetta hefði verið gott og gilt sjónarmið fyrir 40 árum en er löngu orðið úrelt á tímum farsíma og fullkominna og mikilla fjarskipta. Svona lagað fréttist út samstundis, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.
Að fenginn reynslu vegna dauðaslyss í vor er skiljanlegt að viðbúnaður sé hafinn þegar í stað og miðaður við að það versta geti gerst, jafnvel þótt vant fólk eigi í hlut, sem leitað er að, og jafnvel þótt það sé í farsímasambandi og telji sig vera á réttri leið.
![]() |
Tveir týndir á Fimmvörðuhálsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)