Úlfar var magnaðri.

Sagan af norska lækninum sem stakk af frá læknavakt til að fara á rokktónleika minnir á söguna af Úlfari Þórðarsyni augnlækni sem var vinsæll og eftirsóttur sem augnlæknir á sinni tíð. 

Afar fjörugur, lífsglaður og skemmtilegur maður Úlfar.

Hann hafði gaman af því að spila badminton en eitt sinn vildi svo illa til að mikilvæg viðureign var á sama tíma og viðtalstíminn á biðstofunni hjá honum.

Úlfar dó ekki ráðalaus en hafði með sér íþróttatöskuna á biðstofuna.

Þegar tíminn var kominn tók hann einn viðskiptavininn inn á stofuna, læsti henni og bauð manninum samkomulag sem hann gæti ekki hafnað um að vera inni í herberginu þangað til hann kæmi aftur eftir að hafa skroppið frá smástund.

Skyldi maðurinn gæta þess að opna ekki fyrir neinum en fengi í staðinn vildarmeðferð ókeypis.

Smeygði Úlfar sér síðan samkvæmt sögunni eldsnöggt út um gluggann, þeysti til íþróttasalarins þar sem hann tók spilaði leikinn og kom síðan til baka sömu leið og hann hafði farið.

Þá kláraði hann að skoða undrandi manninn, sem spurði hvernig honum hefði dottið í hug að komast upp með þetta.

Svar Úlfars var víst svipað og hins norska starfsbróður hans. "Þetta er nú einu sinni biðstofa og fólk er því vant því að bíða." 


mbl.is Hvort eð er alltaf biðröð á læknavaktinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að láta sem ekkert C.

"Látum sem ekkert C" var heiti á plötu Halla og Ladda á sinni tíð. Þetta er ein af mörgum merkingm ensku sagnarinnar ignore og nafnorðsins ignorance en á íslensku vantar orð sem hefur svipaða merkingu.

Þrátt fyrir allt tal um upplýsingaöld og tíma gegnsæis virðist lítið breytast. Ignorance er og verður ávallt dýrmætt haldreipi ráðamanna og ráðandi afla, sem kjósa fáfræði,  að þykjast ekki vita, vilja ekki vita, þagga niður, fela, láta sem ekkert sé, vikja til hliðar, stinga undir stól o. s. frv.

Á því sviði sem ég hef mest kynnt mér á fréttamannsferli mínum, virkjanamálunum,  hefur ignorance, þöggun og upplýsingaleynd verið drýgsti þátturinn fyrir ráðandi öfl til að koma málum sínum fram. 

Höfuðatriðið hefur verið að leyna náttúruverðmætum sem fórna þarf vegna virkjana.

P1012677

Nú síðast í gær fór ég í ferð með tveimur af landeigendum Reykjahlíðar við Mývatn til að sýna þeim helstu náttúruundur Gjástykkis, sem þeir höfðu aldrei litið augum, hvað þá venjulegir ferðamenn við Kröflu sem bægt er frá aðgengi með læstu keðjuhliði.

Sjálfur uppgötvaði ég ekki staðinn sem myndin er af fyrr en fyrir þremur árum.

Þarna kom upp nýtt land í september 1984 þegar Ameríka, til vinstri á myndinn, og Evrópa, til hægri, færðust hvort frá öðru og var færslan nokkrir metrar. 

Við það óx land Reykjahlíðar um ca 60.000 fermetra eða sex hektara ! 

 Ignorance virðist vera smitandi og þeir sem þeir sem hagnast á fáfræði vita að flestum finnst best að vísa frá sér óþægilegri vitneskju og skáka í skjóli fáfræðinnar.

Kristur sagði: "Fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gera."  

Á timum upplýsinga myndi hann segja: "Fyrirgef þeim þótt þeir vilji ekki vita hvað þeir gjöra." 

 


mbl.is Upplýsti yfirmenn sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband