"...friða fokmela...", - "banna umræðu um málamiðlanir."

Ofangreind orð notar Kristinn Pétursson um stefnu mína og skoðanasystkina minna í umhverfis- og náttúruverndarmálum.  Þau eru meðal annarra stóryrða hans um "stál í stál" viðhorf "öfgafólks" sem hann telur náttúruverndarfólk vera og eru rituð sem athugasemd við blogg mitt um Norðlingaölduveitu hér næst á undan. 

Með bloggi mínu um Norðlingaölduveitu fylgja myndir af tveimur stórfossum sem þurrka á upp með veitunni og afgreiðir Kristinn þá og gróið umhverfi þeirra sem "fokmela".  

Hann hefði farið létt með að afgreiða Sigríði í Brattholti sem öfgafulla baráttukonu fyrir "fokmelum". 

Nú vill svo til að með Kárahnjúkavirkjun var sökkt 40 ferkílómetrum af einhverju best gróna landi hálendisins og tæpir tveir þriðju hlutar landsins sem fór undir Hálslón var gróið land, enda Hálsinn, sem sökkt var, sannkölluð Fljótshlíð íslenska hálendisins.

Kristinn fer létt með að afgreiða þetta beitiland sem "fokmela."p1012686.jpg

Fyrir nokkrum dögum bloggaði ég um fossana í Skjálfandafljóti og Króksdal, sem eru á aftökulista Alcoa á Norðausturlandi og eru myndirnar með þessu bloggi teknar í sömu ferð og myndirnar af Dynk og Gljúfurleitarfossi sem birtar eru í blogginu á undan.

Þessi 25 kílómetra langi dalur og fossarnir fá safnheitið "fokmelar" hjá Kristni. p1012682.jpg

Eina skýringin sem ég get fundið á að nota sífellt orð eins og "fokmelar", "eyðisandar og grjótauðn" sem heildarheiti fyrir komandi virkjanasvæði hlýtur að vera sú að sauðféð, sem bændur beita á þessi svæði og fá bætur fyrir ef þeim er sökkt, nærist á sérstakri tegund sands og grjóts sem nefnist "grasgrjót" eða "gras-sandur" og er grænt á litinn og lítur út eins og gróður þótt það sé sandur og grjót.

p1012584.jpg

Eyjabakkar, Þjórsárver, Hálsinn og Króksdalur eru allt gróðurvinjar gagnstætt því sem Kristinn heldur fram.

Og nú síðast afgreiðir hann sjónarmið mín í athugasemd við næsta blogg á undan þessu með orðunum "friðunarkjaftæði á urð, grjóti og örfoka melum" ! 

Um "málamiðlanirnar" sem náttúruverndarmenn vilji láta "banna umræðu um" er ég er nú ekki meira fylgjandi því að "banna umræðu um" þau mál en það að síðasta blogg mitt á eyjunni fjallaði einmitt um þá dásamlegu "sátt" sem Kristinn og hans menn segja að sé fundin og felst í því að hægt sé að demba 2ja ferkílómetra virkjanamannvirkjum niður hvar sem er án þess að það raski nokkurri friðun. p1012683.jpg

Helsta áherslumál virkjanasinna  hefur einmitt verið að færa allt vald um virkjanir frá Alþingi yfir til sveitarstjórnanna og mun ég taka þetta til nánari skoðunar seinna hér á mbl.- blogginu. 

 


Röng forsenda ferðamálahópsins.

Sá hópur í vinnu að Rammaáætlun sem fjallaði um ferðamál komst að alveg dæmalausum niðurstöðum varðandi mat á áhrifum Norðlingaölduveitu, Gjástykkisvirkjunar og fleiri kosta á ferðamennsku. 

Það gerði hann með því að gefa sér forsendur sem líkjast svari þeirra Eyjólfs og Magnúsar í Áramótaskaupinu 1986, bænda sem voru án allra nútíma þæginda, þegar sjónvarpsmaðurinn spurði þá af hverju það hringdi aldrei neinn í þá og hinn þögli Magnús rauf loksins langa þögn sína og rumdi: "...af því að við höfum ekki síma!"

Svipað svar núna væri: "Af því það er ekkert aðgengi." 

Ferðamálahópurinn mat áhrif þessara tveggja virkjanakosta sem léttvæga vegna þess að hingað til hefðu fáir ferðamenn komið á áhrifasvæði þeirra. Sem sagt: Áhrif virkjananna voru metin eftir því ástandi sem hingað til hefði ríkt. 

Hins vegar var gildi virkjananna metin samkvæmt því ástandi sem myndi geta ríkt eftir að virkjað yrði. 

Ef gildi virkjananna hvað hagkvæmni snertir átti að vera metið á sömu forsendum og gildi áhrifasvæðanna gagnvart ferðamennsku, þ. e. miðað við ríkjandi ástand, hefði það átt að vera metið núll, því að þarna hefðu ekki verið neinar virkjanir. 

Augljóst er hve röng slík nálgun er. 

Um bæði svæðin, Efri-Þjórsá og Gjástykki,  gildir það hvað ferðamennsku snertir að þau eru alveg einstaklega óaðgengileg og ekkert hefur verið gert til að kynna þau og möguleika þeirra hvað þetta snertir.  Um það hefur ríkt nær alger þöggun alla tíð. p1012689.jpg

Norðlingaölduveita mun þurrka upp tvo stórfossa á stærð við Gullfoss sem liggja með stuttu millibili í ánni og myndir eru af hér á síðunni, Dynk og Gljúfurleitarfoss, auk þriðja fossins, Hvanngiljafoss. 

Við Kröflu hafa landeigendur lokað leiðinni þaðan norður í Gjástykki með keðjuhliði og tilvist merkustu staða svæðisins hefur verið svo kyrfilega þögguð nður að það var fyrst fyrir rúmri viku sem ég fór þangað með tveimur af landeigendum í fyrstu ferð þeirra á þá ! p1012692_1018194.jpg

Í frétt mbl.is er að sjálfslögðu skilmerkilega rakið gildi Norðlingaölduveitu vegna virkjana en eins og alltaf í umfjöllun fjölmiðla er ekki minnst orði á hina hlið málsins. 

Þannig hefur umfjöllunin verið alla tíð hjá öllum fjölmiðlum nema í þeim fréttum  sem ég stóð fyrir á sínum tíma af þessum virkjanamöguleika þegar ég fjallaði um málið í Sjónvarpinu og sökuðu virkjanasinnar mig um hlutdrægni af þessum sökum ! 

Það var svona álíka hlutdrægni og hefði falist í því að fjalla um hugsanlegar malargryfjur í miðjum Esjuhlíðum án þess að sýna fjallið. 

Eða að fjalla um virkjun Gullfoss án þess að sýna mynd af fossinum. 

Fyrstu myndir í sjónvarpi af Dynk átti Jón Benediktsson á Velli frumkvæði að að sýna eftir ferð sem hann fór með Páli Benediktssyni fréttamanni þarna inn eftir í kringum 1990. 

Raunar er þegar búið að ræna þessa tvo stórkostlegu fossa, Dynk og Gljúfurleitarfoss, ríflega þriðjungi af afli þeirra með Kvíslaveitu og var aldrei minnst á það af nokkrum sem um veiturnar fjölluðu á sinni tíð. 

Ég fjallaði mikið og oft um Kvíslaveitu af mikilli hrifningu án þess að minnast orði á áhrif þeirra á þessa fossa. Leiddi aldrei hugann að því. 

Þegar Norðlingaölduveita var í mestu hámæli voru einu myndirnar sem fjölmiðlar birtu af komandi lónstæði myndir, sem Landsvirkjun lét í té og voru teknar svo hátt úr lofti að í raun sást ekkert hvað um var að ræða. 

Mér þótti það umhugsunarefni þá að það skyldi þurfa að vera einn einstaklingur á eigin kostnað sem nennti að fara í ferð á jörðu niðri þarna inn eftir til þess að skoða og sýna þetta svæði og fossana þrjá. 


mbl.is Vilja breyta rammaáætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband