20.8.2010 | 11:22
Hvernig væri að líta á meginlínurnar?
Halldór Laxness benti eitt sinn á það eðli Íslendinga að gera smáatriði að aðalatriðum í stórum málum, jafnvel atriði sem engu máli skipta.
Síðan væri allri orkunni eytt í "steingelt þras" um þessi aukaatriði en stóra málinu drepið á dreif.
Hvernig væri nú að líta á aðalatriði Hrunsins:
1. Eðlilegar og þarfar umbætur í frjálsræðisátt á tíunda áratugnum snúast upp í stórfellda sjálftöku og oftöku spilltra afla með tilheyrandi einkavinavæðingu þar sem ofríki tveggja stjórnmálamanna fær að leika lausum hala fram á miðjan fyrsta áratug þessarar aldar.
2. Búin er til þensla, að fyrstu með grunn í skammtímahugsun stórfelldra virkjana- og stóriðjuframkvæmda á kostnað komandi kynslóða og með sprengingu í húsnæðislánakerfinu, fyrst hinu opinbera og síðar hinu einkavinavæddda. Þenslan, að mestu innistæðulaus stigmagnast stjórnlaust og verður að stærstu gróðærisbólu miðað við stærð þjóðarinnar, sem um getur. Hún byggist á því að hleypa öllu lausu, skrá gengi krónunnar 30-40% of hátt og halda uppi hávöxtum sem laðar að hættulegt erlent fjármagn (t. d. Jöklabréfin).
3. Í banka- og fjármálakerfinu nýta gróðafíknir menn sér þetta og nota margir hverjir til þess öll tiltæk ráð. Fólk og fyrirtæki eru leynt og ljóst hvött til stærstu lántöku Íslandssögunnar í erlendum myntum. Skuldir heimilanna og fyrirtækjanna fjórfaldast á örfáum árum og vegna þess að mikill meirihluti þjóðarinnar lætur sér þetta vel líka verður til þöggun á meginatriðum sem öllu skipta. Svo sem því að bankakerfið sé orðið margfalt stærra en þjóðarbúið og hin tilbúna og siðlausa gróðærisbóla hljóti að fara úr böndum og springa með hvelli. Tapið er ekki aðeins Íslendinga heldur reiknast tap útlendinga 7000 milljarðar eða fjórföld árleg þjóðarframleiðsla landsins og finnast engin dæmis slíks í veraldarsögunni.
Í stað þess að fara djúpt ofan í grunn þess hvernig þetta allt gat gerst á svonefndri öld fjölmiðlunar eru deilurnar nú komnir niður í það hvort einhver hafi hringt í einhvern á einvhverjum tímapunkti þegar menn menn tókust á um það í örvæntingu hvernig ætti að reyna að bjarga því sem bjargað yrði.
![]() |
Hringdi ekki til Björgólfs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.8.2010 | 05:21
Skeytingarleysi um náttúruundur.
Vatnskerfi Þingvallasvæðisins, allt frá Langjökli um gjárnar og vatnið sjálft til Hengils og Hellisheiðar er einstakt undur.
Þrátt fyrir sérstök lög um verndun þessa vatnasvæðis hefur ríkt og ríkir magnað skeytingarleysi um það.
Þegar ég leitaði frétta af því að arsenik hefði fundist í sunnanverðu vatninu fyrir fimm árum mætti mér ísköld þögn og ég fékk engan til að koma í viðtal um það mál.
Eitt og annað smælki var þó nefnt, svo sem að hvað varðaði affallsvatn frá Nesjavallavirkjun væri reiknað með því að það rynni til suðurs.
Fannst mér það sérkennilegt því að landinu hallar upp á við í þá átt.
Þetta skar í augun þegar ég fór austur og tók myndir af tjðrninni sem þetta vatn rá virkjuninni rennur í á milli virkjunarinnar og vatnsins.
Þær myndir voru aldrei birtar og enga frétt gat ég gert um þetta mál vegna skorts á upplýsingum um það.
Menn virðast alveg reiðubúnir til að auka við mannvirki og umferð við vatnið, jafnvel umferð sem ekki tengist Þjóðgarðinum heldur sjálfsagðri vegabót á leiðinni milli uppsveita Árnessýslu og Reykjavíkur og hefði átt að leysa með vegi um Grafningsskarð og Grímsnes.
Þá leið hefði átt að fara og malbika Konungsveginn án umtalsverðra breytinga á honum.
![]() |
Saurmengað vatn á Þingvöllum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)