Ekkert nema virðing og frægð.

Frá því að gosið á Fimmvörðuhálsi hófst fyrir hálfu ári hef ég verið í samvinnu við og umgengist tugi fjölmiðlamanna, vísindamanna, ljósmyndara og rithöfunda frá löndum í öllum heimsálfum vegna eldgosanna sem kennd eru við Eyjafjallajökul.

Vettvangurinn hefur teygt sig langt út fyrir jökulinn því að þetta fólk hefur meðtekið af aðdáun fróðleik um hinn eldvirka hluta Íslands sem telst vera eitt af 40 mestu náttúruundrum heims þar sem eldstöðin Grímsvötn telst vera ein af sjö merkustu eldfjöllum á yfirborði jarðar.

Yellowstone kemst ekki á listann yfir 40 mestu náttúruundrin og Hekla, Fujijama, Kilimanjaro, Vesuvíus og Etna komast ekki á listann með Grímsvötnum.

Af hálfu þessa fólks hefur ekkert annað verið látið í ljósi en áhugi og hrifning á undralandinu sem við byggjum og það hefur styrkt mig í þeirri trú, sem ég lét strax í ljósi, að þetta eldgos sé eitt það besta sem gerst hefur hér á landi þótt það hafi að vísu bitnað illilega um stund á Eyfellingum og Fljótshlíðingum. 

Þremur dögum áður en forsetinn minntist á Kötlu og ræddi um Eyjafjallagosið í samhengi ræddum við Ari Trausti Guðmundsson um það sama í Kastljósi og ég gerði það einnig í beinni sjónvarpsútsendingu til útlanda sama dag.

Það eru svo mörg atriði sem eru stærst og mest á þessu sviði á Íslandi. Hér hafa orðið tvö stærstu hraungos á jörðinni á sögulegum tíma og á síðustu 700 árum hefur helmingurinn af öllum gosefnum, sem komið hafa upp í eldgosum á jörðinn, komið upp á þessari litlu eyju, Íslandi. 

Ég fór með ljóðið "Kóróna landsins" á tveimur stöðum á menningarnótt í gær og var á báðum stöðum inntur eftir því hvort það væri einhvers staðar til á prenti. 

Ef einhver vill sjá það er það til á einum stað, í bloggi frá 2007. Hægt er að slá því upp með því að slá inn orðin "Kóróna landsins" í leitarreitinn hér vinstra megin á síðunni.

 

 


mbl.is Gosráðstefna fær heimsathygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétti baráttuandinn.

Ég var að velta því fyrir mér í dag hvað geti blásið svonefndum botnliðum baráttuanda í brjóst þegar ljóst virðist að efri hluti deildarinnar sé fjarri, jafnvel svo fjarri að fall sé óhjákvæmilegt.

Var ég þá einkum að hugsa til liðs Hauka sem byrjaði Íslandsmótið ekkert verr en sum önnur lið. 

Þar ber eitt hæst í huga mínum:  "Botnlið" má aldrei fara að hugsa á þeim nótum að barátta þess sé einskisverð ef það á eftir að leika einhverja leiki. 

Ef "botnlið" á eftir að leika við eitthvað af efstu liðunum getur það haft áhrif á stöðu efstu liða ef það nær stigi af einhverju þeirra.

"Botnlið" getur jafnvel ráðið því hver verður Íslandsmeistari og sýnt fram á að það verði taka getu þess alvarlega.

Ef Grindvíkingar halda siglingu sinni áfram,  lyfta þeir sér ekki aðeins ofar í röðina, heldur eiga þeir möguleika á að sagt verði í mótslok: Ef þeir hefðu spilað svona allt mótið væru þeir Íslandsmeistarar ! 

Þetta á ekki aðeins við í keppni hinna efstu í hverri íþrótt. 

Ég minnist þess einu sinni úr svokallaðri deildakeppni RUV í innanhússfótbolta hér á árum áður,  að fyrir úrslitaleikinn hafði Fréttadeildin misst af möguleikanum á að lenda í efsta sæti. 

Staðan var þannig fyrir síðasta leikinn í mótinu að Smíðadeildin, sem hafði fram að því sýnt langbesta frammistöðu, þurfti ekki annað en að innbyrða auðveldan sigur yfir Fréttadeildinni til að fá einu stigi meira en deildin í öðru sætinu, sem ég man ekki lengur hver var. 

En við í Fréttadeildarliðinu keyrðum á það að við gætum í þessum síðasta leik ráðið því hver yrði deildameistari, þótt það yrðu ekki við og öllum á óvart unnum við Smíðadeildina og sönnuðum að við vorum með lið sem bera þyrfti fulla virðingu fyrir og að við gætum unnið hvern sem væri.

Íþróttakeppni byggist nefnilega ekki aðeins á því hver vinnur og hver tapar heldur á hugarfarinu, sem ríkir og því að gera sitt besta frá upphafi til enda. 

Þetta er hugarfarið sem ég óska að ríki hjá mínum mönnum, Frömurum, það sem eftir lifir móts. 

 

 

 


mbl.is Grindvíkingar unnu toppliðið í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðrið hætt "að vera svo mikið erlendis."

Jafnvel þótt síðustu dagar ágústmánaðar verði frekar svalir stefnir í að sumarið í heild verði það hlýjasta síðan mælingar hófust."

Svo ég vitni enn einu sinni í skemmtilegt orðfæri Björgvins Halldórssonar hefur veðrið "verið svo mikið erlendis" í sumar, hvað eftir annað 15 til 20 stiga hiti um nær allt land í norðanátt. 

En nú er veðrið aftur orðið eðlilegt og íslenskt, og viðbrigðin eru mikil. En þrátt fyrir það eigum við að vera þakklát fyrir það mikla góðviðrissumar sem þegar er að baki. 

Það er bara ósköp venjulegt og hefðbundið sumarveður sem nú er komið og við getum eftir sem áður verið í sumarskapi. 


mbl.is Varað við hvössum vindstrengjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrð í Hallgrímskirkju.

Menningarnóttin geymir mörg ólík fyrirbæri, allt frá "ölvun og ryskingum" sem greint er frá nú í morgunsárið til tónanautnarinnar sem þeir Gunnar Gunnarsson og Sigðurður Flosason buðu upp á í Hallgrímskirkju í gærkvöldi.

Hvílík nautn er það að heyra í þessum snillingum fara höndum um saxófóninn og hið volduga orgel, sem Gunnar laðaði hvers kyns tónaflóð úr, allt frá undirveiku suði tll þess volduga ofurhljóms sem þetta magnaða hljóðfæri getur skilað frá sér. 

Já, menningarnóttin stóð fyrir sínu og mikið óskaplega er það gaman að geta búið til svona mikla upplyftingu í þess orðs fyllstu merkingu. 


mbl.is Annasöm nótt hjá lögreglunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband