Eftirminnilegar samkomur í Mývatnssveit.

Í gær voru haldnar tvær glæsilegar samkomur í Mývatnssveit sem komu mér á óvart fyrir þær sakir hve margir sóttu þær. Hefur fjöldastemning náttúruverndarfólks ekki komið mér meira á óvart í fjögur ár.

Hátt í 300 manns komu saman við Miðkvísl þar sem afhjúpað var minnismerki um það þegar stíflan í kvíslinni var sprengd og rofin fyrir réttum 40 árum.

Sú aðgerð markaði tímamót í Laxárdeilunni svonefndu og vakti athygli víða um lönd.

Erik Solheim, einhver reyndasti og virtasti náttúruverndarfrömuður á Norðurlöndum, sagði mér frá því þegar Kárahnjukadeilan stóð sem hæst að Miðkvíslarsprengingin hefði fyllt náttúruverndarfólk miklum móði sem kom vel fram í deilunni um Altavirkjun þótt hún tapaðist að vísu.

Baráttann í Noregi hefði síðan skilað sér í því að komið var naumlega í veg fyrir virkjun norðaustan við Jóstadalsjökul og nú væri staðan þannig í Noregi, að enda þótt þar sé enn óvirkjuð álíka mikill vatnsorka og á Íslandi og mun hreinni og endurnýjanlegri þar en hér og með minni umhverfisspjöllum, sé það yfirlýst stefna þar og í nágrannalöndunum að tími stórra vatnsaflsvirkjana sé á enda.

Solheim kom tvívegis til Íslands til að skoða Kárahnjúkavirkjun og hikaði ekki við að segja að umhverfisspjöllin af Altavirkjun væru smámunir einir miðað við hin hrikalegu umhverfisspjöll Kárahnjúkavirkjunar.

Í endurminningum sínum kvaðst Gro Harlem Brundtland ekki iðrast neins frá ferli sínum sem stjórnmálamanns nema þess að hafa sem umhverfisráðherra Noregs leyft Altavirkjun.

Í gærkvöldi var troðið hús af fólki í Skjólbrekku og þar var Laxárdeilan rakin á eftirminnilegan hátt.

40 árum eftir að flestir af helstu ráðamönnum þjóðarinnar þótti Gljúfurversvirkjun sjálfsagt mál vekur það undrun að þessi hrikalegu áform skyldu hafa verið uppi en þau fólust í því að taka Skjálfandafljót við Hrafnabjörg og veita því í sameiginlegri veitu Suðurár og Svartár í nýtt lón, Krákárlón, sem átti að verða stærra en Mývatn og fara með þetta allt niður í Laxárdal, sem yrði sökkt.

Króksdal, 25 km löngum og að miklu leyti grónum dal innan við Hrafnabjörg, átti að sökkva.

Í leitardálki vinstra megin á síðunni er hægt að leita að umfjöllun minni fyrr í sumar um þá framkvæmd með myndum af dalnum og fossunum, þ. á. m. Aldeyjarfossi, sem til stóð að þurrka upp 1970 og stendur enn til.

Í gagnum Kráká áttu Skjálfandafljót, Suðurá og Svartá síðan að renna í Laxá og síðan átti að reisa háa stíflu þar sem nú er Laxárvirkjun og sökkva gervöllum Laxárdal.

40 árum síðar finnst áreiðanlega flestum að það séu firn að menn skyldu í alvöru vilja umturna þessu svæði á þennan veg.

Spurningin er hvað mönnum muni finnast eftir 40 ár þegar farið verður yfir það sem til stendur nú til þess að seðja orkusvelginn álverið á Bakka og litið verður á hvað gert var til að seðja orkusvelginn álverið í Reyðarfirði.

Því miður þurfti dínamit til að koma vitinu fyrir menn 1970 og það virðist vera svo að ekkert minna dugi heldur nú ef koma á vitinu fyrir stóriðjufíklana, því að rökræður og andóf nú hafa enn ekki borið meiri árangur en svo, að það er eins og að klappa í stein.

Ég tók myndir í gær en er á ferðalagi á Norðurlandi og get ekki sett þær inn nú. Mun gera það síðar en minni á leitarorð eins og Skjálfandafljót og Gjástykki.


Svipað og eftir Eyjagos.

Eftir gosið í Heimaey fannst flestum útlendingum þeir ekki hafa nýtt sér Íslandsferð sína vel nema fara þangað og skoða vettvang hamfaranna í "Pompei norðursins."

Enn í dag og um alla framtíð er þessi vettvangur eitt helsta aðdráttarafl Eyjanna og með batnandi samöngum þangað á að vera hægt að efla ferðaþjónustuna í Eyjum mjög.

Þær hafa reyndar eignast keppinaut uppi á landi þar sem er Eyjafjallajökull og svæðið umhverfis hann eins og ferð Svíakonungs og margra annarra merkra útlending er gott dæmi um.

Þessi tvö svæði er best að skoða sem heild og þá geta þau styrkt hvort annað þannig að enn meiri ástæða verður en nokkru sinni fyrr að skipuleggja ferð sína þannig að farið sé um bæði á landi og úti í Eyjum.


Bloggfærslur 26. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband