1.9.2010 | 23:33
Hvenær á fólk að verða "fullorðið"?
Það er vafalaust rétt og skynsamlegt hjá formanni þingflokks að biðjast afsökunar á glannalegu tali, þótt það gerist utan viðtals, sem átti að vera lokið. En mér finnst þetta nú ekki stórvægilegt og satt að segja bara tilbreyting í því að tala tæpitungulaust þótt það kunni að þykja ungæðislegt.
Hins vegar leiðir þetta hugann að því hvenær og hvernig fólk verði það sem kallað er "fullorðið".
Dóttirdóttir mín, hún Lilja Sóley Hauksdóttir, á tvítugs afmæli í dag og það, sem gerði daginn svo merkilegan var það, að með því var næstsíðustu hindruninni velt úr vegi fyrir því að hún væri algerlega fullgildur þjóðfélagsþegn með fullum réttindum.
Þessi tímamót finnst mér reyndar koma á vitlausum tíma og asnalegt að fólk, sem er orðið átján ára, fjárráða, má ganga í hjónaband og kjósa eða bjóða sig fram í kosningum, megi ekki fara í ríkið og kaupa sér áfengi fyrr en það verður tvítugt.
Er ég þó enginn aðdándi áfengis og bindindismaður á það.
En dóttirdóttir mín verður nú að bíða í 15 ár eftir því að komast yfir síðasta hjallann í því að verða með full þegnréttindi. Hún má sem sé ekki bjóða sig fram í embætti forseta Íslands fyrr en hún verður orðin 35 ára.
Mér finnst þetta fráleitt skilyrði og skrýtið að þjóðinni skuli ekki vera treyst fyrir því sjálfri að ákveða, hvort frambjóðandi sé nógu reyndur og traustverðugur.
Kristur minntist oft á það hve mikilvægt væri að varðveita barnið í sjálfum sér. Ég hygg að það gildi að sumu leyti líka um það að varðveita unglinginn í sér og leyfa honum að komast að einstaka sinnum, jafnvel þótt það kosti að þurfa að biðjast afsökunar af því að maður er virðulegur þingflokksformaður.
![]() |
Ég biðst innilega afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 2.9.2010 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.9.2010 | 15:49
Hlýjasta sumarið og hlýjasta öldin?
Ég minnist þess hvað allir sem upplifðu sumarið 1939 töluðu um það sem dýrðarsumarið mikla. Það sumar var nokkuð sér á parti hvað þetta varðaði þótt það kæmi á þeim tíma þegar hlýindaskeiðið 1920-65 stóð hæst.
Ég minnist daga í sumar þar sem ég var að fljúga yfir landinu í 2700 metra hæð og það var fimm stiga hiti þar uppi vegna þess að allur loftmassinn var svo heitur alveg upp úr öllu, að það gátu ekki myndast ský við uppgufun og kólnun rakans í jörðinni eins og algengt er hér á landi.
Sauðárflugvöllur norðan Brúarjökuls opnaðist mánuði fyrr en venjulega og hálendið var orðið að mestu snjólaust eða snjólítið í apríl.
21. öldin er að byrja og verður hún kannski hlýjasta öldin í þúsund ár eða meira?
Jöklarnir hopa og laxinn er í blóma jafnvel á þurrka- og vatnsleysistíma ársins.
Fróðlegt er að sjá að hlýindin virðast hafa slegið á þær raddir á blogginu sem neita því að loftslagið sé að hlýna og telja að um ímyndun eða falsanir talna sé að ræða.
Kannski lifna þessar raddir við á sama tíma sem vetur gengur í garð og það fer að kólna.
![]() |
Mikil hlýindi voru í ágúst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)