12.9.2010 | 19:49
Samfelld hrunleið frá 2002.
Aðdraganda Hrunsins má rekja samfellt frá 2002 til 2008. Þá var mörkuð sú glæfrastefna skammtímahugsunar, oflætis og græðgi sem stigmagnaðist, allt frá Kárahnjúkum og íbúðalánakerfinu í upphafi til bankahrunsins mikla.
Nær samfellt allan þennan tíma fékk þjóðin ekki að vita um fjölmörg mikilvæg atriði málsins, aðalatriði hrikalegrar orkustefnu og bankastefnu, sem hvort tveggja byggðust á glórulausum órum.
Það er út af fyrir sig rétt hjá Sturlu Böðvarssyni að þessi glýja var slík vorið 2007 að í kosningabaráttunni tókst stjórnmálaflokkunum að beina henni á síðustu vikunum að kapphlaupi og yfirboðum varðandi það hvernig ættia að verja hinu tílbúna og að mestu leyti innistæðulausa fjármagni sem "gróðærið" skapaði.
Vegna þess að brot í ráðherrastarfi fyrnast á þremur árum er erfitt að nota gölluð lög um Landsdóm til þess að hreinsa þau mál.
Ég minnist þess hvað mér fundust ákvæðin um Landsdóm skrýtin þegar ég var við nám í lagadeild H.Í. á sjötta áratugnum, einkum hvað varðaði það að stjórmálamennirnir sjálfir ættu þar að vera ákærendur og að meginreglur í réttarfari giltu þar ekki, heldur þessi sérkennilegu og forneskjulegu ákvæði.
Við sitjum hins vegar uppi með lög um Landsdóm í stjórnarskránni og þar með að Alþingi þurfi að ákveða hvort ákært verði.
Huga þarf vel að því hvernig lögin um Landsdóm koma út gagnvart alþjóðlegum lagareglum um réttarfar og mannréttindi því að miklu varðar að þetta mál sé rekið þannig að það verði ekki viðbót við ýmislegt annað sem hefur orðið okkur til minnkunar á alþjóðavettvangi.
![]() |
Töldu stöðuna sterka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.9.2010 | 16:03
Stalín er ekki lengur þar.
Fróðlegt er að kynna sér afstöðu bandamanna í garð Þjóðverja eftir seinni heimsstyrjöldina. Sovétmenn áttu svo ógnarlegra harma að hefna að efst í huga Stalíns var að gera Þýskaland að landbúnaðarlandi sem ætti ekki möguleika á að hervæðast að nýju.
Að þessu leyti var afstaða hans svipuð afstöðu Frakka í garð Þjóðverja í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, en hún snerist um það að koma í veg fyrir að Þýskaland gæti á ný orðið hernaðarlega sterkt.
Frakkar komu sínu fram og var það að miklu leyti á skjön við afstöðu Vilsons Bandaríkjaforseta. 14 punktar hans miðuðu að því leysa vandamál varðandi kröfur þjóðernisminnihluta um að fá sjálfstæði í eigin ríkjum. Íslendingar urðu meðal nýfrjálsra þjóða sem nutu góðs af þessu.
Versalasamningarnir fóru að miklu leyti á svig við þetta með sundurlimun Þýskalands og allt of háum stríðsskaðabótum sem gáfu nasistum að lokum byr undir báða vængi til að efna til framhaldsstríðs.
Vesturveldin vildu læra af þessari reynslu auk þess sem það hentaði þeir vel hernaðarlega að Vestur-Þýskaland yrði öflugur bandamaður þeirra í Kalda stríðinu.
Sovétmenn héldu Austur-Þjóðverjum niðrir á tvennan hátt. Annars vegar með því að hafa fjölmennt herlið í landinu og anda ofan í hálsmálið á austur-þýskum leppstjórnum.
En hins vegar með því að viðhalda þar hinu lamandi alræðiskerfi sem leiddi til þess að með Berlínamúrnum alræmda var landið gert líkt lokuðum þrælabúðum.
Efti að múrinn féll höfðu margir áhyggjur af því að austurhluti Þýskaland myndi halda áframa að standa að baki vesturhlutanum vegna þess að í vesturhlutanum eru miklu meiri auðlindir og iðnaður.
En nú er að koma í ljós að austurhlutinn er að spjara sig þrátt fyrir þetta.
Í austurhlutanum var fyrir ágætt mennta- og velferðarkerfi og aðalverkefnið var að lappa upp á lélegt samgöngukerfi og mannvirki sem höfðu drabbast niður.
![]() |
Landsframleiðsla í A-Þýskalandi hefur tvöfaldast á 20 árum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)