13.9.2010 | 20:52
Ömurlegt tómlæti.
Þær þjóðir, sem lögðu sitt af mörkum í seinni heimsstyrjöldinni til að þess að berjast við stórfelldustu villimennsku allra tíma, nasismann, hafa átt um það nokkrar minjar á Íslandi sem hafa í áranna rás ýmist verið eyðilagðar ein af annarri eða vanræktar vegna tómlætis okkar Íslendinga um þær.
Hér í Reykjavík hafa að vísu verið látnar í friði stríðsminjar í Öskjuhlíð, hlaðin vígi og braggar, en á sama tíma hefur gamli flugturninn sem er stórmerk bygging, sú fyrsta sinnar gerðar hér á landi og einhver merkasta bygging Reykjavíkur, verið látinn drabbast niður.
Ýmsir aðilar hafa ýmist haft horn í síðu hans eða sýnt undarlegt tómlæti gegn mannvirki, sem var hluti af búnaði og mannvirkjum bandamanna í orrustunni um Atlantshafið sem er í öllum sagnfræðibókum nefnd í sömu andrá og Stalingrad, El Alamain, Midway, Normandy o. s. frv.
Í nágrannalöndum okkar má sjá merki um það hve mikils virði þær þjóðir telja svona minjar.
Ég hef áður bloggað um gamla flugturninn og tel að það þurfi að gera heildstæða rannsókn á sögu þeirrar "viðbyggingar" sem nú hefur verið rifin sem og öðrum mannvirkjum frá stríðsárunum sem enn standa á flugvellinum.
Í fyrirsögn fréttar mbl.is um þetta er þriggja hæða hús sem reist var við hliðina á flugturninum og er nú verið að rífa nefnt "skúr".
Gerast "skúrar" nú býsna stórir en nafngiftin sýnir hvaða augum með gamlar byggingar eru oft litnar.
Á grundvelli rannsóknar á þessum byggingum öllum þurfi síðan að standa myndarlega að því að varðveita stórmerkar sögulegar minjar sem varða sögu þjóðannar við Norður-Atlantshaf.
P. S. Þess ber að geta sem vel er gert. Reyðfirðingar gefa höfuðborgarbúum langt nef með því að varðveita af myndarskap stríðsminjar, sem þar eru, á flottu safni.
Það er þeim og Austfirðingum til mikils sóma. Á Hnjóti í Patreksfirði er varðveitt Vatnagarðaflugskýlið sem var á sínum tíma stærsta bygging á Íslandi. Þar er einnig að finna minjar frá veru Breta á Reykjavíkurflugvelli.
Sitthvað má líka finna frá þessum tímum á Flugminjasafninu á Akureyri.
![]() |
Skúr við gamla flugturinn rifinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
13.9.2010 | 00:43
Eins og í Suðurríkjum BNA fyrir hálfri öld.
Við Íslendingar fylgdumst í fréttum með því fyrir hálfri öld hvernig upp komu í Suðurríkjum Bandaríkjanna mál af því tagi sem við fréttum nú um í okkar eigin landi.
Ekki hefði mann órað fyrir því að slíkt gerðist hér á næstu öld en svo er að sjá sem þessi napri raunveruleiki blasi við.
Samt er það svo að þegar fyrir hálfri öld grunaði mig að þrátt fyrir það hve við gumum af frjálslyndi og umburðarlyndi myndu kynþáttafordómar geta átt greiða leið að mörgum heima ef tilefni gæfist.
Þetta byggði ég á því að þegar ég kom fyrst til Bandaríkjanna upp úr 1960 kom það mér á óvart hve stór hluti þeirra Íslendinga, sem áttu heima þar vestra, voru á bandi þeirra sem beittu sér mest gegn blökkumönnum.
Fleiri en einn sagði við mig þegar ég lýsti yfir undrun: "Þið, heima á Íslandi, vitið ekkert hvað þið eruð að tala um því að þið þekkið þetta ekki. Þið meira að segja gerið það að skilyrði að blökkumenn séu ekki í varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli en þykist síðan vera eitthvað heilagir."
Síðan kom löng upptalning sem átti að sanna hve miklu lakari hinn svarti kynþáttur væri en hinn hvíti og að full ástæða væri fyrir því að halda þeim á mottunni.
Allt þetta kváðu þeir byggja á reynslu sem okkur norður í Íshafiinu skorti.
Ég kom heim með nýjar hugmyndir um okkur, sem sé þær, að hugsanlega yrðum við ekki hótinu betri en harðsvíruðustu kynþáttahatarar Suðurrikjanna ef við lentun í svipuðum aðstæðum.
Gamall uggur hefur nú gripið mig en ég vona að ég hafi rangt fyrir mér og að ofsóknirnar gegn hinum hörundsdökka Kúbverja séu undantekning.
![]() |
Feðgar flýðu land vegna hótana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)