24.9.2010 | 21:47
Hið sígilda lögmál þöggunarinnar.
Það er nánast sama hvar borið er niður í aðdraganda Hrunsins og einnig í eftirmálum þess. Með fáum undantekningum þráir fólk að vita sem minnst um það sem óþægilegt er og víkur því frá sér.
Það er með ólíkindum að hvorki ráðamenn né fjölmiðlar létu þjóðina vita af hinum tryllta ofvexti bankanna fyrr en um mánuði áður en allt hrundi.
Og nú stendur yfir mikil barátta um það hvar draga skuli línuna á milli þeirra sem teljist hafa brugðist skyldu sinni og hinna sem ýmist geti fríað sig eða sloppið vegna fáránlega stutts tíma sem svona mál fyrnast.
Og þöggunin heldur áfram. Í kosningabaráttunni 2007 marg endurtók ég þá staðreynd að jafnvel þótt öll orka og náttúra landsins yrði lögð undir fyrir álver myndu aðeins 2% vinnuafls landsmanna fá vinnu í þeim sex risaálverum sem þá var rætt um.
Þetta fór inn um annað eyrað og út um hitt, - áfram var tönnlast á því að það yrði allsherjar lausn á atvinnuvanda landsmanna að reisa eins mörg álver og við yrði komið.
Með einfaldri samlagningu fæst út samkvæmt upplýsingum sérfræðinganna, sem Tryggvi Þór Herbertsson vitnaði sífellt í í Kastljósi nýlega, að 370-390 megavött fáist í besta falli út úr Þeystareykjum, Gjástykki-Leirhnjúki, Kröflu og Bjarnarflagi.
Samt liggur fyrir að 650 megavött þarf fyrir álver á Bakka.
Það er eins og að ekkert geti stöðvað þessa vitleysu eða fengið menn til að leysa einföld læknisdæmi.
Annað hvort hefur Tryggvi Þór ekki nennt eða talið ástæðu til að fara út í hið sáraeinfalda reiknisdæmi eða treystir því að þeir sem heyra hann tala trúi honum eða nenni ekki að leita hins sanna.
![]() |
Sagði þingmönnum frá fundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)