27.9.2010 | 23:06
Tveggja strokka bylting.
Þegar flett er vélhjólablöðum sést glögglega að tveggja strokka vélar eru lang algengastar. Þær væru það ekki ef þær skorti endingu eða kraft.
Á fyrstu tveimur áratugunum eftir stríð voru tveggja strokka bílar vinsælir. Má þar nefna Citroen 2CV, Fiat 500, NSU Prinz, Panhard, Fiat 126 o. fl.
Líkast til hafa verið framleiddir allt að 14 milljónir bíla með svona vélum.
Á árunum 1959-65 átti ég tveggja strokka bíla og ek lengstum innan bæjar hin síðari ár á einu bílunum hér á landi sem eru með tveggja strokka vélar.
Slíkar vélar geta vel verið þýðgengar ef vel hefur tekist til í smíði þeirra og festinga þeirra við bílinn.
Upp úr 1980 fóru japanskir bílar með þriggja strokka vélum að taka við hlutverki ódýrustu bílvélann a. Mér hefur alltaf þótt skrýtið að tveggja strokka vélar skyldu hverfa. Þær eru einfaldlega helmingi einfaldari en fjögurra strokka vélar og léttari, og vegna færri slitflata ættu þær líka að skila meiri nýtingu afls.
Fyrir þremur árum las ég það haft eftir yfirmanni þróunardeilda bílvéla hjá Fiat að eftir 3-4 ár myndu koma á markað bensínknúnar bílvélar sem skiluðu 30-40% meira afli en fyrirrennarar þeirra og eyddu þar að auki allt að 30% minna bensíni.
Og vegna þess að bensínknúnar vélar væru léttari og ódýrari en jafnstórar dísilvélar myndi upp renna nýtt dýrðartímabil tveggja strokka bensínknúinna bíla.
Nú er þetta að verða að veruleika með svonefndri Twin-Air vél frá Fiat.
Fiat, sem var á fallanda fæti fyrir áratug, er nú á hraðri uppleið. Það sést til dæmis á því að í nýja Ford Ka bílnum eru vél, driflína, undirvagn og megingerð yfirbyggingar hin sama og í Fiat Panda og Fiat 500.
Hinn nýja Fiat 500 má sjá hér að ofan en fyrir neðan hann set ég gamla Fiat 500, módel 1972, sem ég á.
Ford Ka er meira að segja settur saman í Fiat-verksmiðju í Póllandi eins og Fiat 500 og Fiat Panda.
Með nýju Twin-Air vélinni á Fiat 500 að eyða aðeins um fjórum lítrum af bensíni á hundrað kílómetrum eða 25% minna en fjögurra strokka vélin, sem er núna ódýrasta vélin í þeim bíl.
Aðalgaldurinn við nýju vélina er innspýting sem er raf- og vökvastýrð og nefnist MultiAir.
Hana verður hægt að fá 65, 85 og 105 hestafla, og vegna þess að vélin er 20% léttari en sambærilegar vélar skilar hún bílnum hraðar í upptaki og á meiri hámarkshraða en vélar sem eru meira en tvöfalt stærri að rúmtaki.
Á Indlandi er einn af hornsteinum langódýrasta bíls heims tveggja strokka vélin, sem knýr hann.
Í þeirri vél eru fjórum sinnum færri ventlar en eru í flestum bílvélum nútímans.
KISS, Keep It Simple, Stupid ! á vel við þegar tveggja strokka byltingin gengur í garð.
Ef ég á eftir að hafa efni á því hefði ég ekkert á móti því að eiga Fiat 500 með þessari nýju vél sem er með 30% minni útblástur af koltvísýringi en það lægsta sem þekkst hefur hingað til .
Fiat er nú sá bílaframleiðandi heims sem er með minnst mengandi bílaflotann á boðstólum.
Líka kæmi til greina, ef buddan leyfði, að fá sér Smart dísil sem eyðir aðeins 3,4 lítrum á hundraðið.
Fiatinn tekur hins vegar fjóra í sæti en Smart bíllinn aðeins tvo. Og munur á eyðslu upp á einn lítra á hundraðið getur ekki talist mikill munur.
Þar að auki fékk Fiat 500 fimm stjörnur fyrir öryggi og var valinn bíll ársins þegar hann kom fram.
Vegna tæknilegra mistaka eru tvær myndir á síðunni af gamla Fiat 500, sem er með minnstu bílvél landsins, aðeins 499cc sem skilar 18 hestöflum, en það er nóg til að komast á tæplega 100 kílómetra hraða og lenda í Blönduóslöggunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2010 | 13:35
Afturför um hundrað ár.
Fyrir tæpri öld var landlægur á Íslandi óþrifnaður í formi notkunar neftóbaks og munntóbaks.
Þegar leið á öldina fór þessu að linna en sígarettureykingar jukust í staðinn.
Ádrepa Halldórs Laxness í Alþýðubókinni og annað í þeim dúr gerði þessa tóbaksnotkun ekki eins fína og áður hafði verið heldur þvert á móti frekar hallærislega enda fylgdi þessu oft nokkur óþrifnaður.
Nú er eins og að sæki í svipað ástand og var fyrir hundarð árum og annar Laxness muni kannski spretta upp og taka málið til umfjöllunar á eftirminnilegan hátt.
Það er stundum sagt að sagan gangi í hringi. Svo virðist vera í þessu efni.
![]() |
20% stráka taka í vörina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.9.2010 | 09:10
Mikið flot í stórum hjólbörðum.
Þegar ekið er yfir á á jeppa myndast lyftikraftur vatnsins í ánni á tvennan hátt.
Í fyrsta lagi virkar lyftikrafturinn undir gólfið þegar vatnið fer hærra en það og nær upp á miðjar hurðir.
Meira að segja myndast flotkraftur þegar gírkassar og drifbúnaður fer á kaf.
Í gamla daga sáu menn við þessu með því að sitja í bússum í sætunum og opna dyrnar svo að vatn fengi að flæða inn í bílinn svo að hús hans virkaði ekki lengur eins og bátur.
En síðan er annað fyrirbæri sem er lúmskara, en það er hinn mikli flotkraftur í stórum jeppadekkjum.
44 tommu dekk er 1,12 metrar í þvermál og hálfur metri á breidd. Einfalt reiknisdæmi sýnir að fjögur slík dekk mynda lyftikraft upp á tæpt tonn samtals ef þau fara alveg á kaf.
Bílstjóri á slíkum jeppa á möguleika á að nota hið gamla ráð að hleypa vatni inn í bílinn til að minnka flotkraft gólfsins á bílnum en hann á ekkert ráð við flotkrafti dekkjanna nema að hleypa lofti úr þeim og minnka þannig rúmmál þeirra að hluta, en þá lækkar bara bíllinn sem því nemur og tekur á sig meiri straum.
Oftrú á getu jeppa á stórum dekkjum olli slysi á hálendinu fyrir tveimur áratugum sem færði mönnum dýrmætan lærdóm í þessu efni.
![]() |
125 strandaðir í Þórsmörk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)