Óendanlega margar tvíburajarðir.

Tíminn, eilífðin og alheimurinn eru óendanleg og af því leiðir að til eru óendanlega margar reikistjörnur svipaðar jörðinni.

Það skaðar síðan ekki að finna eina og eina í rólegheitum næstu aldirnar ef mannkyninu tekst að viðhalda sér og lífinu á þessari jörð í stað þess að eyða því í kjarnorkustyrjöld.


mbl.is Lífvænleg reikistjarna fundin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í raun ein heimsstyrjöld.

Heimsstyrjaldirnar tvær voru í raun ein heimsstyrjöld sem háð var í tvennu lagi með rúmlega 20 ára hléi.

Síðari styrjöldin var nefnilega rökrétt framhald af þeirri fyrri vegna óraunhæfra kvaða sem sigurvegararnir í fyrri styrjöldinni lögðu á Þjóðverja. 

Vesturveldin lærðu af þessu eftir seinni heimsstyrjöldina hvað stríðsskaðabætur varðaði, enda var Þýskaland margfalt verr leikið eftir hernaðinn en Bretland og Frakkland. 

Rússar áttu hins vegar meiri og stórbrotnari harma að hefna en nokkur önnur Evrópuþjóð og gerðu hvað þeir gátu til að koma í veg fyrir að Þjóðverjar iðnaðarþjóð á ný.


mbl.is Heimstyrjöldinni fyrri formlega lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Páll hefði getað orðið heimsmeistari.

Jóhannes Jósepsson  á þriðja áratug aldar og Gunnar Huseby á þeim fjórða sýndu fram á að Íslendingar gætu eignast menn í fremstu röð í bardagaíþróttum og aflraunaíþróttum.

Nú sýnir Gunnar Nelson dæmi um þetta.

Allsherjar bann á hnefaleikum síðari hluta aldarinnar hér á landi olli því að stórkostleg efni í heimsklassa menn á því sviði leituðu í aðrar íþróttagreinar.

Miklu hefði munað ef að síðasta aldarfjórðunginn hefðu verið leyfðir ólympískir hnefaleikar en atvinnuhnefaleikar bannaðir hér því að þá hefðu áhugamannahnefaleikarnir getað orðið stökkpallur fyrir efnilega afreksmenn á því sviði. 

Ég hef sérstaklega í huga einn mann, Jón Pál Sigmarsson.

Þegar maður horfði á einstæða yfirburði hans þegar hann var upp á sitt besta í keppninni um titilinn Sterkasti maður heims, sést glögglega að maður með slíka blöndu af stærð, þunga, afli, úthaldi og snerpu kemur varla fram nema á nokkurra áratuga fresti í heiminum. 

Jón Páll hafði það fram yfir Mike Tyson að vera stærri og þyngri auk þess sem hann hafði meira úthald. 

Á bestu árum sínum, 1986-89, bjó Tyson yfir fágætri blöndu af afli og hraða en Jón Páll hefði áreiðanlega ekki orðið síðri, nokkurs konar blanda af George Foreman, Tyson og Ali. 


mbl.is Gunnar Nelson á heimslistann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formaður í nokkrar mínútur.

Fegurðardrottningar falla gjarna tár þegar lýst er yfir því að þær hafi hreppt hnossið og víst er grátlegt að missa titilinn eftir aðeins eina mínútu eins og fréttin, sem þetta blogg er tengt við, greinir frá.

Höskuldur Þórhallsson var yfirlýstur réttkjörinn formaður Framsóknarflokksins í nokkrar mínútur á landsþingi flokksins á sínum tíma með tilheyrandi lófaklappi, fagnaðarhrópum og faðmlögum, svo að atvik af þessu tagi eru ekki ný af nálinni. 

Enginn felldi þó tár, hvorki vegna gleði né vonbrigða þegar í ljós kom að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði verið réttkjörinn. 

Sagan greinir frá mörgum tilvikum þegar menn hafa talið sig hreppa hin stærstu hnoss en orðið af láta þau af hendi.  Einkum hafa lyfjapróf síðustu áratuga orðið skeinuhætt íþróttastjörnum og er eftirminnilegasta dæmið líklega sigur Kanadamannsins Ben Johnson í Seoul 1988 þegar hann skaut Carl Lewis ref fyrir rass en þurfti síðan að láta gullið af hendi eftir að niðurstöður lyfjaprófs lágu fyrir. 

Frægt er einnig atvikið á Ólympíuleikum fyrir öld þegar örmagna hlaupari, sem kom langfyrstur að marki, riðaði og var, að því kominn að falla þegar nærstaddir hlupu til og studdu hann yfir marklínuna.

Hann var sviptur verðlaununum en fékk síðar, ef ég man rétt,  afhent gull, þar eð ljóst þótti að það var ekki hans sök að hann fékk stuðning og að miklar líkur hefðu verið á að hann hefði getað staulast yfir línuna þótt það hefði gerst hægar en með því að fá hinn ólöglega stuðning.

Ég held að miklar líkur séu á því að þetta hefði hann getað gert, því að eitt sinn varð ég vitni að því þegar Þórarinn Ragnarsson, millivegalengdahlaupari, fór að riða á fótum og missa stjórn á sér af örmögnun þegar hann var að koma út úr síðustu beygjunni í hlaupi, en byrjaði síðan á einhvern óskiljanlega hátt að fá máttinn aftur og þaut áfram sem elding í mark. 

Hann hefur líkast til fengið þarna nokkuð sem kallast á íþróttamáli "adreanalin-spark" eða "second wind".

 

 


mbl.is Fegurðardrottning í mínútu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf meiri rannsóknir.

Ég og fleiri, sem höfum umgengist eldfjallaösku úr mörgum gosum, höfðum tilfinningu fyrir því að askan úr gosinu í Eyjafjallajökli hefði innihaldið meira af fíngerðum ögnum en önnur gos.

Það er að sjálfsögðu gott og blessað og bráðnauðsynlegt að rannsaka öskuna úr gosinu í Eyjafjallajökli en því miður skortir samanburðarmælingar úr öðrum eldgosum. 

Rannsóknirnar eru á byrjunarstigi og líklega þarf nokkuð mörg gos til þess að hægt verði að komast að niðurstöðum sem hægt er að byggja óyggjandi á. 

Mun víðtækari rannsóknir þarf til þess að hægt verði í eldgosum í framtíðinni að komast hjá því að gera þau mistök, sem gerð voru banni á flugi í gosinnu í Eyjafjallajökli og kostuðu gríðarlegar fjárhæðir. 

Ég hef áður lýst skoðunum mínum á því hér í bloggi mínu og með því að nota leitarorð í sérstökum reit hér við hliðina má fletta því upp. 

 


mbl.is Takmörkuð hætta af öskunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband