Hve mikið vískí?

Í sögunni af hinum 98 ára gömlu tvíburasystrum í París, sem segjast þakka langlífi sitt því að neyta áfengra drykkja eins og viskís og pastís, er ekki greint frá því hve mikil víndrykkja þeirra hafi verið.

Vitað er að læknar hafi ráðlagt ellibelgjum að drekka rauðvínsglas daglega sér til heilsubótar og gæti hófleg dreyping systranna á vískíi því hafa reynst þeim gagnleg.

Sé þessum fræðum síðan beint að mér, þegar og áttræðisaldurinn er duninn yfir, segi ég nú bara: Þarf ég nú að byrja að drekka með þessu?

Hef það reyndar ekki í hyggju, minnugur þess að einn af bestu stjórnmálamönnum landsins fyrir margt löngu ku hafa tekið fyrsta vínglasið í fimmtugsafmæli sínu og sá ekki til sólar fyrir áfengisfíkn eftir það heldur glutraði niður þeim frama sem hann annars hefði fengið.

Ég hygg að það sem systurnar segja um holla hreyfingu og góða lífshætti sé helsta skýringin auk þess sem það er afar erfðabundið hvernig fólk eldist. 

Hver manneskja hefur vísast innbyggða lífsklukku sem stillt er á mismunandi langa ævi eftir því hver í hlut á. 

Tóta, afasystir mín, reykti eins og strompur alla sína ævi og varð 93ja ára gömul. Er það þó ekki sönnun fyrir skaðleysi reykinga því að systir hennar, Ragnhildur, sem ekki reykti, varð 103ja ára !

Bræður þeirra létust hins vegar báðir úr krabbameini mun yngri en systur þeirra og kannski hefur arfgengi þess sjúkdóms haft fylgni við kyn þeirra. 


mbl.is Galdurinn bak við langlífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Galdurinn að hlaða rafhlöðurnar.

Eitt af boðorðunum tíu tilgreinir það sérstaklega að einn dagur í hverri viku skuli vera hvíldardagur.

Greinilegt er að Dagur Sigurðsson nýtir sér svipað í þjálfun sinni á Fuchse Berlín þegar hann sér til þess að leikmenn fái hæfilegt næði til þess að hlaða rafhlöðurnar og gera sér dagamun. 

Ólafur Jóhannesson, sem var forsætisráðherra 1971-74 fékk sér yfirleitt hádegislúr þótt hann gegndi hinu erilsama embætti. 

Konrad Adenauer kanslari Þýskalands, gerði svipað og þekkt er Siesta Spánverja.

Lífið hjá flestum er langhlaup þar sem ekki verður hjá því komist að hlaupa á hámarkshraða af og til og taka langar og erfiðar vinnutarnir þegar þörf krefur. 

Boðorðin tíu urðu til hjá þjóð sem þurfti á öllu sínu að halda til að hafa í sig og á. Engu að síður var nauðsynlegt að afmarka tíma til þess að slaka á til þess að hafa hámarks afl og úthald þegar á þurftia að halda án þess að keyra sig endanlega út. 

Það er "galdurinn við að hlaða rafhlöðurnar". 


mbl.is Uppskrift Dags er frí og fótbolti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf verið að pæla í plottum.

Athyglisvert er að lesa leiðara Morgunblaðsins í dag og um hugleiðingar Atla Gíslasonar í Fréttablaðinu þegar menn leita skýringa á því af hverju Geir einn verður dreginn fyrir Landsdóm en ekki aðrir.

Á báðum stöðum er það hugleitt í alvöru að það þekkist meðal þingmanna að taka ekki afstöðu til ákæru algerlega samkvæmt sannfæringu sinni varðandi hvern og einn fjórmenninganna, heldur er ýjað að því að þingmenn hafi margir hverjir allan tímann verið að reyna að ráða í stöðuna og hafa heildarúrslitin í huga frekar en mat, algerlega óháð öðru en málavöxtunum sjálfum. 

Í Morgunblaðinu er það sagt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni til hnjóðs að hann hafi ekki stjórn á eigin flokki.  Samkvæmt þeirri hugsun hafa Bjarni Benediktsson og Steingrímur J. Sigfússon hins vegar stjórn á eigin flokkum og að þar marséri allir í takt eins og strengjabrúður.

Út úr þessu skín sú hugsun að betra sé að hinir gömlu tímar Davíðs og Halldórs renni aftur upp þar sem "sterkir" formenn stjórni með harðri hendi. 

Síðan er hinu bætt við að ákveðnir þingmenn Samfylkingar og Framsóknar hafi komið í veg fyrir að meint plott hafi gengið upp.

Með þessu er gefið í skyn að á bak við tjöldin hafi verið stefnt að því meðan málið var til meðferðar á þingi að búa svo um hnúta að enginn yrði ákærður og að lhugsanlegt og leynilegt heiðursmannasamkomulag hafi verið brotið af þeim þingmönnum sem hlupu út undan sér. 

Á bak við það liggur að ákveðnir þingmenn, jafnvel flestir,  hafi legið yfir stöðu refskákar allan tímann.

Bent er á að allir þeir sem áður voru ráðherrar í Hrunstjórninni og nú sitja á þingi hafi einróma hafnað því að ákæra fyrrum félaga sína í ríkisstjórn.

Þessar lýsingar á atburaðrásinni, sem nú koma upp, um "sterka" og "veika" formenn og svik á leynilegu ráðabruggi, sem nú koma upp,  eru dapurlegur vitnisburður um það hve rík sú hugsun er enn, þrátt fyrir Hrunið, að mestu skipti pælingar í leynilegum ráðagerðum, "plottum" sem ýmist ganga upp eða ganga ekki upp. 

Það gefur ekki góða mynd af stjórnmálalífinu, hvorki utan þings né innan. 


mbl.is Ískalt viðmót á þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband