6.9.2010 | 09:02
Drulla hér og drulla þar.
Aurframburður íslenskra jökulfljóta er það sem greinir þennan þátt íslenskrar náttúru einna helst frá vatns- og hafbúskap annarra landa.
Þótt tugþúsundir ferkíómetra á suðurströndinni og inni á landi beri þessa sérkennis merki er eins og Íslendingar hafi enn ekki gert sér fulla grein fyrir þessu.
Þannig höldum við áfram að ræða um orku íslenskra fallvatna eins og hún sé alveg sambærileg við orku fallvatna í Noregi eða öðrum fjallalöndum, þar sem þessi orka er fullkomlega endurnýjanleg og framkvæmdirnar afturkræfar.
Nú sést munur á innsta hluta Sultartangalóns ár frá ári, enda mun það fyllast upp á nokkrum áratugum og vatnsmiðlunin þar því að mestu verða ónýt.
Aurburður Kringilsár og Jöklu í Hálslón var áætlaður um tíu milljón tonn á ári, hinn 25 kílómetra langi og 180 metra djúpi Hjalladalur myndi fyllast upp á 3-400 árum og Töfrafoss kaffærast í auri á einni öld.
Efri myndin er af hluta af því gráa og brúna 35 ferkílómetra nýja aurflæmis sem blasir við snemmsumars innan við Kárahnjúka þar sem áður var hin grængróna 15 kílómetra Fljótshlíð íslenska hálendisins, Hálsinn, sem lónið er kennt við.
Eftir að hafa fylgst með aurburðinum á hverju voru er það morgunljóst að aurburðurinn er miklu meiri í hlýnandi loftslagi vegna bráðnunar jöklanna en menn gerðu ráð fyrir, enda hálffylltist gljúfrið neðan við Töfrafoss upp að hálfu á aðeins tveimur árum.
Neðri myndin er tekin inn gljúfrinu á öðru vori eftir myndun lónsins og eru nú flatar jökulleirur þar sem áður var gljúfur með flúðum og fossum.
Þrátt fyrir þessa sérstöðu íslenskra jökulfljóta göpum við það upp í útlendinga að orkan sé endurnýjanleg og sjálfbær.
Reisa varð aukastíflu fyrir neðan Kárahnjúkastíflu til að koma í veg fyrir fossinn á yfirfalli stíflunnar græfi ekki gljúfrið í sundur fyrir neðan hana.
Áin er talin hafa grafið hið magnaða 150 metra djúpa og 14 kílómetra langa gljúfur með sverfandi aur sínum á aðeins 700 árum.
Gosið í Eyjafjallajökli átt að vera fyrirsjáanlegt eftir allar þær vísbendingar um það sem komið hafa frá í meira en tíu ár um að það væri yfirvofandi eftir 170 ára goshlé.
Og við bíðum eftir Kötlugosi með margfalt meiri aurburði út í sjó.
Askan úr Eyjafjallajökli var miklu fíngerðari en dæmi eru um áður og þar af leiðandi getur Herjólfur sullað í drullunni áður en hann festist alveg.
Fyrir austan Vík er stór og viðfeðm sandalda sem nefnist Höfðabrekkujökull. Hún varð til í Kötlugosinu 1918. Allt sandflæmið norðan Vatnajökuls ber merki hamfarahlaupa úr jöklinum.
Líkast til eru ekki nema 2-3000 ár síðan sjór náði langleiðina upp að Síðufjöllum við Kirkjubæjarklaustur.
Landeyjahöfn er aðeins örskammt vestan við útfall Markarfljóts og eftir mikið blíðviðrissumar er nú að hefjast sá árstími þar sem hafalda og straumar bera fíngerðan aurinn ofan af Markarfljótsaurum og undan skriðjöklum Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls.
Ef menn kjósa að líta á það viðfangsefni sem við blasir í höfninni sem nokkurs konar keppni manna við náttúruöflin má búast við spennandi viðureign.
![]() |
Herjólfur hægði á sér í drullunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.9.2010 | 00:02
Mikið af fugli á vegunum.
Við Helga vorum að koma úr þriggja daga hringferð um landið og það vakti athygli okkar að óvenju mikið var af dauðum fugli á vegunum, einkum fýl og skúmi frá leiðinni frá Hornafirði að Skógum.
Einnig sátu þeir margir inni á veginum. Hvort þetta tengist þeirri sögn að fýllinn geti ekki flogið ef hann sér ekki sjó, skal ósagt látið, en þeir höfðu greinilega margir orðið fyrir bílum.
Í þessari ferð okkar var stansað á ýmsum stöðum og kippt inn myndum, sem ég þarf að nota í ýmsar þær kvikmyndir sem ég er með í smíðum.
Við fórum á minnsta Toyota jöklajeppi landsins, sem ég keypti fyrir slikk 2006 til þess að geta dregið bátinn Örkina.
Leiðin lá upp á Sauðárflugvöll norðan Brúarjökuls til þess að setja framhjól undir "flugstöðina", 32ja ára gamlan Ford Econoline, sem vindpokastöngin er fest við.
Ég hafði nefnilega í blankheitunum í fyrrahaust tekið framhjólin undan honum til að selja dekkin, sem voru nær óslitin.
Fyrr í sumar fór ég á gömlum frambyggðum Rússa með tvö slitin dekk á felgum innbyrðis ásamt lóðabelgjum og merkingum, sem ætlunin er að merkja brautirnar fjórar með.
En þá kom í ljós að felgurnar voru sex gata en ekki fimm, og pössuðu því ekki undir "flugstöðina".
Við Andri Freyr Viðarsson vorum síðan á Rússanum á flandri fyrir austan en ég féll á tíma að aka honum til baka suður og skildi hann því eftir.
Við Helga heimsóttum að sjálfsögðu næsta nágrannann, Völund Jóhannesson, sem hefur aðsetur stóran hluta hvers sumars í Grágæsadal, 15 kílómetra vestan við Sauðárflugvöll.
Síðan fórum við út á Egilsstaði og náðum í Rússann og höfðum samflot til baka til Reykjavíkur.
![]() |
Slökkva ljósin fyrir fuglana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)