Eigum við ekki að leyfa þessu barni að koma?

Umfjöllunin í Kastljósi í kvöld um vandræði íslensku fjölskyldunnar á Indlandi héldu manni límdum við skjáinn.

Sá grunur læðist að manni að íslensk yfirvöld vilji af prinsipp ástæðum koma í veg fyrir að ættleiðing á borð við þá sem þarna er á ferðinni, eigi sér stað, enda standist hún ekki íslenskar lagakröfur þótt hún uppfylli öll lagaskilyrði á Indlandi.

Og að með því að draga lappirnar sem lengst og jafnvel stöðva þetta sé komið það ástand sem geti orðið til þess sem danskurinn kallar "til skræk og advarsel". 

Til þess að hræða aðra frá því að reyna þetta og gefa þeim aðvörun. 

En þá vaknar spurningin um eðli þessa máls sérstaklega. 

Svo er að sjá af gögnunum, sem greint var frá í kvöld, að hjónin hafi ekki verið átt viðskipti við einhverja skottulækna og undirheima á Indlandi heldur hafi þau staðið að þessu á eins vandaðan hátt og hægt var þar í landi. 

Með tilliti til þessa vaknar spurningin: Máttu þau vita fyrirfram í hvað stefndi? Að aðstæður og hagsmunir barnsins hefðu enga vigt og að íslenska kerfið yrði harðlokað? 

Ég sýnist það vera undirliggjandi af hálfu íslenskra yfirvalda að sporna gegn því eins og hægt sé að þessi leið til ættleiðingar sé farin (sem er það ekki að öllu leyti, faðirinn er kynfaðir barnsins) og að þess vegna þurfi hin íslenska fjölskylda á Indlandi að ganga í gegnum þær hremmingar sem raun ber vitni. 

En þá má spyrja: Er ekki farið að verða nóg komið? Er þetta mál ekki komið í það hámæli að ef þetta stenst ekki íslensk lög megi fólk í þessari stöðu vita það í framtíðinni að þessi leið sé ófær? 

Er þá ekki náð því takmarki að þetta verði "til að hræða frá og vara við"? 

Á sínum tíma risu íslensk stjórvöld upp úr flatneskjunni og sáu tll þess að Bobby Fisher fengi hér landvistarleyfi í stað þess að vera útlægur og hundeltur. Þá réði eðli máls meiru en einhverjar þurrar lagagreinar. 

Einu sinni var sagt: "Leyfið börnunum að koma til mín". 

Er fráleitt að við segjum núna: "Leyfum barninu að koma til okkar"? 


mbl.is Búa við ömurlegar aðstæður á Indlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seinheppin og ekki lukkudýr flokks síns.

Ég átti þess kost að fylgjast dálítið með Söru Palin í kosningabaráttunni vestra fyrir rúmum tveimur árum þegar ég var þar og leist satt að segja ekki á þann möguleika að hún gæti orðið forseti Bandaríkjanna ef hinn mun eldri McCaine yrði kosinn og félli frá.

Mér fannst hún koma sér í svipaða stöðu og Dan Quayle gerði hér á árum áður, en í báðum þessum tilfellum reyndust þessi varaforsetaefni ekki happafengur fyrir forsetaefni Republikana, þótt Bush eldri tækist að sigra og gera Quayle að varaforseta Bandaríkjanna í fjögur ár. 

Palin að vísu hörkuhugguleg og kraftmikil en þar með er það upp talið. 

Dan Quayle kom líka ágætlega fyrir svona við fyrstu sýn en varð síðan alvarlega á í messunni og skaut sig í fótinn í kosningabaráttunni þegar hann fór að líkja sér við Kennedy eins og frægt varð og er enn haft í minnum.

Sem betur fer kom aldrei til þess að hann yrði forseti Bandaríkjamanna og vonandi kemst Palin aldrei aftur þangað sem hún komst 2008. 

 

 


mbl.is Palin gagnrýnd fyrir þráðkross
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru sólarnir orðnir takkalausir?

Ég skal ekki taka afstöðu til þess hvort rétt hafi verið að dæma vítaspyrnuna í leik Manchester United og Liverpool.

En ég gat ekki betur séð en að tæklingin aftan frá með takkana beint í fætur leikmanns, sem er fyrir framan með boltann, hafi verið glórulítil og háskaleg. 

Kannski var það ekki ásetningsbrot í upphafi að keyra báða fæturna svona lárétt áfram í það sem varð að hreinni "sólatæklingu" heldur óhapp, en leikmaður sem er gerandi í svona háskaleik á að mínu viti samt að taka afleiðingunum af því ef hann í hita leiksins endar með því að beita svona bragði. 

Þegar Dalglish spyr: "Eru komnar nýjar reglur?", spyr ég á móti: "Eru sólarnir orðnir takkalausir?"


mbl.is Dalglish: Eru komnar nýjar reglur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Júdas er enn hér.

"Stalín er ennþá hér" eða "Stalín er ekki hér", eftir atvikum, heyrðist sagt sagt á sinni tíð eftir að sá gamli hafið kvatt og skildi eftir sig arfleifð sem erfitt var fyrir marga að fást við.

Og líka ýmist sagt "Elvis er hér" eða "Elvis has left the building" eftir atvikum.

Sagan um Júdas er sígild, um svikarann, sem leynist í innsta hring, og gagnnjósnarar eru og verða ævinlega til.

"Og þú líka, sonur minn, Brútus", sagði Sesar þegar fóstursonur hans sveik hann og veitti honum banasár ásamt samsærismönnunum sem myrtu hann. 

"...Júdasar líka lenda / lagsbróður sínum hjá..." orti Hallgrímur Pétursson.

Sígildur er sá hluti sögunnar um Júdas sem greinir frá því þegar hann gekk út og hengdi sig eftir að honum varð ljóst hvað hann hafði gert og gat ekki horfst í augu við það. 

Sagt er að lögreglumaðurinn, sem var undir fölsku flaggi í hópi mótmælenda við Kárahnjúka hafi nú séð að sér og gengið til liðs við þá sem honum var fyrr falið að svíkja. 

Já, sagan um svik og iðrun er sígild og mun halda áfram að gerast svo lengi sem breyskir menn lifa á jörðinni. 


mbl.is Lögreglumaður í röðum mótmælenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband