11.1.2011 | 21:47
"Það er engin leið að hætta..."
Ég hef verið fyrir austan fjall í dag við að fara með FRÚna inn í hús en tíminn hefur líka farið í að koma á framfæri mótmælum Íslandshreyfingarinnar gegn því að vaðið sé inn í Gjástykki með bora og stórvirkar vélar með tilheyrandi óafturkræfum umhverfisspjöllum.
Síðan hefur málið skýrst með yfirlýsingum Landsvirkjunar um að ekki verði "að svo stöddu" nýtt rannsóknarleyfið sem Orkustofnun hefur veitt.
Í yfirlýsingu stjórnar Íslandshreyfingarinnar í dag er minnt á það að vorið 2007 lýstu tveir þáverandi ráðherrar, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra, yfir því sem stefnu sinni, að ekki yrði hróflað við svæðinu Leirhnjúkur-Gjástykki nema eftir alveg sérstaklega vandaða og ítarlega umfjöllun um það og að því aðeins yrði virkjað þar að Alþingi fjallaði um það beint og sérstaklega.
Þessi yfirlýsing ráðherranna var birt með miklum lúðrablæstri, en þremur dögum fyrir kosningar laumaðist iðnaðarráðherrann til þess að veita Landsvirkjun leyfi til rannsóknaborana í Gjástykki.
Ekki var hægt að varast þeirri hugsun þá að þessi þriggja daga frestur fyrir kosningar væri svona stuttur til þess að tryggt væri að það vitnaðist ekki fyrr en atkvæðin væru komin í kjörkassana.
Ekki leið á löngu þar til frekari leyfa var leitað en eftir að ég fyrir heppni hitti þáverandi iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, að máli, gekkst hann í því að vinda ofan af því.
Samt hélt virkjanavélin áfram að malla og í dag varð leyfi Orkustofnunar opinbert.
Þar á undan hafði nefnd um skipulag miðhálendisins samþykkt einróma að Leirhnjúkur-Gjástykki færi inn á skipulagið sem virkjana / iðnaðarsvæði.
Stuðmenn sungu á sínum tíma: "Það er engin leið að hætta" og þótt stóriðjuhraðlestin hægi á sér eða stöðvist einstaka sinnum, virðist engin leið að stöðva hana.
Nú síðast í hádeginu var frétt um það að á næstu fjórum árum myndi orkusala til stóriðjunnar næstum því tvöfaldast. Og í setningin "að svo stöddu" í orðalaginu hjá Landsvirkjun er hliðstætt því sem sagt var fyrir nokkrum árum um Norðlingaölduveitu, að hún væri "sett á ís", þ. e. frestað í bili.
![]() |
Rannsóknarleyfi ekki nýtt að svo stöddu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
11.1.2011 | 09:39
Eðlileg spurning fréttamanns.
Það var rétt hjá Ögmundi Jónassyni í snubbóttu sjónvarpsviðtali í gærkvöldi, að blaða- og fréttamenn eiga að leita eftir því að kafa ofan í málefnin sem rædd eru fundum hjá stjórnmálaflokkunum.
Hins vegar ætti hinn gamalreyndi fyrrum fréttamaður að vita hvaða orð notuð eru á erlendum málum um íslenska hugtakið frétt.
Orðin eru t. d. "news" og "nyheder", þ. e. eitthvað sem er nýtt í málum, sérstakt eða óvenjulegt.
Í því tilfelli, sem um ræddi í gærkvöldi, var það nýtt í þessu máli, að fyrir lá yfirlýsing þriggja þingmanna VG um það að þeir vildu að formaður þingflokks VG bæðist afsökunar á ummælum hans í þeirra garð.
Slíkt er fátítt í íslenskum stjórnmálum og því fullkomlega eðlilegt hjá fréttakonu RUV að spyrja um þetta efni.
Ögmundur atyrti hins vegar fréttamanninn fyrir að spyrja þessarar eðlilegu spurningar og taldi fréttamatið óeðlilegt.
Það er mjög skiljanlegt að deilur, eins og þær sem nú eiga sér stað í VG og hafa kostað erfið fundahöld sem senn má fara að telja í tugum klukkustunda, taki á taugar þeirra sem þurfa að standa í slíku.
Þetta er alveg sérstaklega lýjandi og tekur mikla orku frá þeim sem í því standa. Raunar sýnist mér ágreiningurinn innan VG vera þess eðlis, að jafnvel þótt einhver bráðabirgðaniðurstaða fáist endrum og sinnum blossi hann alltaf upp að nýju og verði illvígur, vegna þess að þá finnst viðkomandi eins og að þetta komi í bakið á þeim.
En það breytir ekki því sem mér finnst blasa við, að eðlilegt sé að fréttamenn spyrji um þau atriði sem hljóta að uppfylla kröfur um fréttir, það er, að hér beri eitthvað nýtt eða óvenjulegt við.
Það er ekki á hverjum degi sem þrír þingmenn í þingflokki krefjast þess svo skjalfest sé að þingflokksformaðurinn biðjist opinberlega afsökunar.
Raunar man ég ekki eftir að slíkt hafi gerst fyrr.
![]() |
Enn tekist á hjá VG |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)