"Those other countries".

Það voru fleiri en sonur Ronalds Reagans sem fannst einkennilegt hvernig hann "datt út" oft á tíðum í orðræðu sinni en það var yfirleitt skrifað á háan aldur hans og það að forseti Bandaríkjanna á við að glíma ofgnótt staðreynda og upplýsinga og getur ekki munað það allt.

Allir þekkja það fyrirbæri þegar nafn eða orð virðist gersamlega týnt þegar á þarf að halda og þetta ágerist oft með árunum án þess að um Alzheimer sé að ræða. 

Ég hef líkt heilabúi okkar gamlingjanna við harðan disk, sem er orðinn fullur af ofgnótt atriða og forrit hans byrjar að henda út orðum og atriðum eins og sjálfvirkt án þess að ráðfæra sig við okkur. 

Þetta komi sjaldnar fyrir ungt fólk þar sem ekki væri ekki eins mikið inni á harða diskinum. 

Gagnvart okkur Íslendingum kom þetta einu sinni fram við athöfn í Washington, þar sem Reagan ætlaði að nefna Ísland og Norðurlandaþjóðirnar en mundi greinilega ekki eftir orðunum "Skandinavía" eða "Nordic Countries heldur sagði "...Iceland and...eh, ..those other countries." 

Íslendingar minnast líka þess, þegar forsetinn var að vandræðast með minnismiða í vasa sínum í boði sem hann var í í tengslum við leiðtogafundinn, og var að fálma eftir honum til að muna eftir loftferðasamningnum við Bandaríkin sem honum hafði verið sagt að væri mikilvægt málefni fyrir Íslendinga. 

Ég held að ekki verði með nokkru móti sagt að Alzheimer-sjúkdómurinn hafi á nokkurn hátt valdið því að Reagan hafi orðið á sérstök mistök hans vegna, og raunar er leitun að ráðamanni sem gengur 100% heill til skógar á öllum sviðum. 

Kostir Reagans vógu það upp og vel það, þótt vandræði fjármálakerfisins 2008 hafi varpað skugga á og leitt í ljós veikleika þeirrar efnahagsstefnu sem margir kenna við Reagan og Thatcher.

Raunar finnst mér upplýsingarnar um sjúkdóm Reagans frekar stækka hann en minnka líkt og mér finnst áfengisböl og annar krankleiki Jónasar Hallgrímssonar stækka hann frekar en minnka. 

Verk og afrek manna, sem eiga við slíka bölvalda að eiga, verða einmitt merkilegri þegar þess er gætt við hvaða aðstæður þau urðu til.  

Of enginn getur tekið í burtu þá staðreynd að Reagan var forseti þau ár þegar straumhvörf urðu í samskiptum risaveldanna og í Kalda stríðinu, þótt múrinn hafi falllið einu ári eftir að Reagan fór frá völdum. 

 


mbl.is Með Alzheimer í forsetastóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einleikur til að hræða Bandaríkjamenn?

Nú er svo að sjá samkvæmt nýbirtum skjölum fyrir tilverknað Wikileaks að Davíð Oddsson, þáverandi Seðlabankastjóri, hafi hugsað sér að taka upp gamalt Kaldastríðsbragð í október 2008 og hræða Bandaríkjamenn til að lána Íslendingum peninga með því að hóta þeim að annars myndu Rússar gera það með þeim afleiðingum að þeir kæmust í svipaða aðstöðu hér og Bandaríkjamenn höfðu haft í Kalda stríðinu. 

Sé það rétt sem þessi nýbirtu skjöl sýna, vakna fjölmargar spurningar: 

Gerði Davíð þetta allt upp á sitt eindæmi eða hafði hann Geir Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu, Árna Mathiesen og Björgvin Sigurðsson með í ráðum? 

Mjög ólíklegt verður að telja að Björgvin hafi vitað nokkuð um þetta enda skipulega unnið að því af hálfu Davíðs að halda honum sem mest frá allri vitneskju og ákvörðunum. 

Árni Mathiesen minnist ekki á þetta í bók sinni sem átti þó að upplýsa um allt sem hann vissi. 

Davíð var pólitískt og jafnvel persónulega í nöp við Ingibjörgu Sólrúnu og andvígur stjórnarsamstarfinu sem tókst 2007. 

Og þá er aðeins Geir eftir, en ekkert hefur hann minnst á þetta. 

Davíð lék einleik þegar hann tilkynnti öllum á óvörum um stórt lán sem Rússar hefðu boðist til að reiða fram en flýtirinn hjá honum var full mikill því að daginn eftir var það dregið til baka að málin væru svona vaxin. 

Það skyldi þó ekki vera að Davíð hafi leikið einleik í þessu máli án tillits til eðliegs samráðs, hvað þá gagnsæis gagnvart umbjóðendum stjórnmálamannana, þjóðinni sjálfri? 

íslendingar leituðu á náðir Rússa um vöruskiptaviðskipti 1953 vegna Þorskastríðs við Breta. Íslenskir ráðamenn spiluðu þá ekki neitt áhættuspil gagnvart varnarsamstarfinu við Bandaríkjamenn heldur voru þeir fullvissaðir um það fyrirfram að ekkert yrði að óttast gagnvart áhrifum Rússa hér á landi.

Það virðist vera svo að 2008 hafi Davíð alls ekki haft í frammi neinar slíkar yfirlýsingar, heldur þvert á móti, úr því að fram kemur að Bandaríkjamenn hafi verið hræddir um að Íslendingar myndu gefa Rússum færi á herstöðvarafnot og gaslindum. 

Var þetta eitthvað sem okkur finnst að hafi verið viðeigandi?  Aldrei vorum við spurð. 

Ég læt nægja að ein spurning í viðbót fylgi með: Ef ekki hefði komið til atbeini Wikileaks, er líklegast að þjóðin hefði aldrei fengið að vita um það hvernig einn maður spilaði sinn Kaldastríðsleik í leyni fyrir hennar hönd? 

 


mbl.is Báðu um milljarð dala í lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband