21.1.2011 | 10:03
Stærsta vandamálið.
Fækkun nemenda í framhaldsskólum er hið versta mál. Hún þýðir einfaldlega að fólkið, sem hefur flutt úr landi er allt of margt á besta aldri, fjölskyldufólk með börn, sem mörg eru á framhaldsskólaaldri.
Þetta er birtingarmynd þess að atvinnuleysistölur hér heima sýna ekki allt, - heldur er brottflutningur fólks ein birtingarmynd þess. Atvinnulaust fólk flutti einfaldlega til útlanda til að fá vinnu.
Á sama tíma horfum við fram á að vaxandi hlutfall þjóðarinnar eru ellilífeyrisþegar og tölur Elíasar Péturssonar í Silfri Egils voru sláandi. Núna eru það 4-5 launþegar á vinnualdri sem standa undir því að afla tekna fyrir hvern ellibelg, en ef svo heldur fram sem horfir, verða það aðeins að meðaltali 2,5-3,0 árið 2040.
Virkjanaframkvæmdir eru ekki lausnin. Hver þeirra veitir að vísu tímabundna vinnu, en síðan verða allir atvinnulausir þegar framkvæmdum lýkur. Ef menn ætla að halda áfram á þeirri braut með sama hraða og verið hefur verður þeim öllum lokið löngu fyrir 2040 með ómældu tjóni á mesta verðmæti Íslands, sem er hin einstæða náttúra landsins.
Þótt hér yrðu reistar álverksmiðjur sem nýttu alla fáanlega orku landsins og framleiddu alls tvöfalt meira en nú, eða 2,5-3,o milljónir tonna árlega, myndi aðeins 2% af vinnuafli landsins fá atvinnu í þeim.
Nú verður að hætta "skómigustefnunni" og taka upp ný vinnubrögð. Sú staðreynd að einungis Norðausturland er með fjölgu fólks á landsbyggðinni er athyglisverð.
Fyrir 20 árum var eina ráðið til að "bjarga Eyjafirði" að reisa álver utan við Akureyri. Það kom aldrei og þá fóru menn að huga að því eina sem getur "bjargað", fjölbreyttu atvinnulífi fyrir fjölmenntað fólk.
Fyrir þessu er reynsla í jaðarbyggðum á norðlægum slóðum í öðrum löndum, svo sem í Tromsö í Noregi og í Rjukan, þar sem einhæft atvinnulíf stóriðju fældi unga fólkið í burtu þar til menn fundu ráð til þess að útvega því fjölbreytt störf við uppbyggingu ferðaþjónustu í nærliggjandi byggðum.
![]() |
Fækkar í framhaldsskólum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)