24.1.2011 | 18:35
Breiddin ekki notuð nógu vel.
Í upphafi HM var ég bjartsýnni en oft áður í upphafi stórmóts vegna þess að meiri breidd væri í íslenska landsliðinu en oftast áður. Í fyrstu leikjunum lofaði þessi breidd nokkuð góðu, því að enda þótt Guðmundur notaði ekki alla leikmennina keyrðu andstæðingar okkar sumir hverjir á enn minni hópi.
En í síðustu leikjum virðist þetta enn hafa færst í gamalkunnugt far og enda þótt lykilmenn í íslenska liðinu segist ekki vera farnir að þreytast.
Þannig hefur Sigurbergur ekkert verið notaður, skytta, sem skorar iðulega 6-10 mörk í leik.
Minna má á, að á HM 1964 var einhver besta íslenska skyttan þá, Ingólfur Óskarsson, hvíldur þar til leikið var við silfurlið Svía frá síðustu keppni.
Er skemmst frá því að segja að Svíarnir réðu ekkert við þetta "leynivopn" og fundu ekkert ráð við stórleik hans.
Íslendingar unnu Svía og var það lang fræknasti sigur, sem við höfðu unnið í handknattleik fram að því.
Fyrir bragðið náðum við sjötta sæti á mótinu þótt við töpuðum í næsta leik fyrir Ungverjum.
![]() |
Lélegasti hálfleikur okkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2011 | 14:20
Aukin framleiðsla = styttri endingartími.
"Eyðist sem af er tekið" segir máltækið. Olían er takmörkuð auðlind og því er það skammgóður vermir að auka framleiðslu á henni til að anna vaxandi eftirspurn.
Þetta er engin lausn, heldur er verið að velta vandanum yfir á næstu kynslóðir og það meira að segja fleiri kynslóðir en ella, sem þurfa að taka afleiðingunum af orkufíkn núlifandi jarðarbúa.
Því hraðar sem gengið verður á olíuforða jarðar, því fyrr mun skella á kreppa vegna þess að dýrara verður að vinna olíuna og hún mun ganga fyrr til þurrðar.
Þegar litið er á línurit yfir orkunotkun jarðarbúa sést að "olíuöldin" lítur út eins og spjótsoddur, línan liggur næstu lóðbeint upp á við og á eftir að falla jafn bratt niður.
Kynslóðir framtíðarinnar eiga eftir að dæma okkar kynslóð hart fyrir skammsýnina og skammgróðafíknina og afleiðingar hennar, sem við veltum yfir á ófædda jarðarbúa.
![]() |
Olíuframleiðsla hugsanlega aukin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2011 | 14:10
Breyttar aðstæður.
Áður en framkvæmdir hófust við Kárahnjúka og Hjalladal var síðan sökkt var eitt besta og stærsta kjörlendi hreindýranna á Austurlandi í grónum hlíðum dalsins.
Austurhlíð hans bar nafnið Háls, og nafnið Hálslón er dregið af því.
Hálsinn var 15 kílómetra löng þéttgróin og bogadregin hlíð með 2-3ja metra þykkum jarðvegi, sannkölluð Fljótshlíð íslenska hálendisins.
Einnig var mikið af hreindýrum í Kringilsárrana, vestan við Jöklu.
Gróðurinn var þó ekki aðalatriðið heldur veðurfarið, en þetta var langdýpsti dalurinn á austurhálendinu og skjólgott þar, en vegna stærðar og dýptar var dalurinn líka langbesta stæðið fyrir miðlunarlón.
Flesta vetur var þarna snjóléttara en nokkurs staðar annars staðar á austurhálendinu enda minnsta ársúrkoma á Íslandi í "úrkomuskugganum" norðan Vatnajökuls.
Um 40 ferkílómetrar af grónu landi fóru undir miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar og hin styggu hreindýr fóru reyndar strax að hrekjast af virkjanasvæðinu þegar þar varð mikil umferð og skarkali.
Þótt graslendinu á Vestur-Öræfum , milli Hjalladals og Snæfells, væri ekki sökkt, fækkaði þeim mikið þar. Þau virtust þá leita út á Fljótsdalsheiði.
Stærsti hluti hreindýranna fór því utar á hálendið og fyrir þremur árum náði ég á Fljótsdalsheiði kvikmynd af stærstu hreindýrahjörð, sem sést hefur á mynd, alls 800 dýrum í einni þéttri hjörð.
Dýrunum hefur ekki aðeins fjölgað á Fljótsdalsheiði, heldur virðist þeim líka hafa fjölgað austan við Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljót.
Á þessum nýju svæðum snjóar meira en vestar á hálendinu, og þess vegna leita dýrin niður af því og valda hættu við vegi ef snjóalög verða mikil.
Missir 40 ferkílómetra af gróðurlendi undir miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar hlaut að skapa breyttar aðstæður fyrir hreindýrin og því lítið við því að gera þótt þau skapi hættu við vegi og valdi þar tjóni.
Kannski er þó hægt að bregðast við því með því að fækka í stofninum með auknum veiðikvóta.
Kosturinn við aukna umferð þeirra við vegi getur verið sá að heilla með því ferðamenn.
![]() |
Varað við mikilli umferð hreindýra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)