Nú er allt í einu nógur tími til að rubba þessu af!

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í viðtali eftir dóm Hæstaréttar að ekki væri tími á Alþingi til þess að vinna í endurbótum á lögum um Stjórnlagaþing vegna þess að önnur brýnni mál þyrfti að leysa á undan.

Nú segir Bjarni Benediktsson að ekkert sé því fyrirstöðu að endurskoða stjórnarskrána snarlega á þingi, en samning nýrrar stjórnarskrár er auðvitað margfalt meira og vandasamara verk en það að lagfæra það sem lagfæra þarf vegna Stjórnlagaþingsins.

Ekki virðast þeir oddvitar aðal stjórnarandstöðuflokkanna vera samstíga í mati sínu á þessum efnum. 

Bjarni virðist ekki hræðast reynsluna af sex árangurslausum tilraunum Alþingis í 67 ár til þess að framkvæma þá heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem landsfeðurnir töldu nauðsynlega við Lýðveldisstofnun 1944.  

Hann skilur heldur ekki hugsunina að baki Stjórnlagaþingi, sem aðeins einu sinni áður hefur verið sett á stofn hér á landi í formi "Þjóðfundarins" 1851.

Á þeim tíma var starfandi Alþingi en talið var réttara og í samræmi við hugmyndir manna um að valdið kæmi beint frá þjóðinni við gerð stjórnarskrár sem sáttmála þjóðarinnar um undirstöðu ríkisins. 

Í hvert skipti sem skipuð hefur verið ný stjórnarskrárnefnd af Alþingi hefur átt að ljúka verkinu, en aldrei tekist, aðeins gerður bútasaumur í nokkur skipti. 

Það er ekki að undra að Bjarni Benediktsson telji þetta vel gerlegt. Tíminn er nefnilega alveg nægur ef menn miða við þann tíma sem þetta hefur tekið frá Lýðveldisstofnun, minnst 67 ár í viðbót, eða hvað?

"Það eina sem við þurfum er viljinn til að hefjast handa" segir Bjarni.

Þetta er ekkert nýtt. Þetta er búið að segja í hvert skipti síðastliðin 67 ár sem farið hefur verið af stað með "viljann til að hefjast handa." 

En reynslan sýnir að "viljinn til að hefjast handa" er ekki nóg. Það verður að klára verkið. En það hefur þinginu reynst um megn í öll þessi ár. 


mbl.is Vill hefja endurskoðun stjórnarskrárinnar strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin tík, þessi pólitík.

Einhvern tíma hefði maður látið segja sér það tvisvar að maður, sem vinnur fyrir meirihluta vinstra megin við miðju, mælti fyrir einkavæðingu orkufyrirtækis, en fulltrúi Sjálfstæðisflokksins mælti gegn henni.

Nú hefur borgarstjórinn að vísu sagt að einkavæðing stæði ekki til, enda væri það einkennilegt í ljósi nýjustu umræðu um eignarhald orkufyrirtækja. 

Raunar hefur komið í ljós að harðar kennisetningar í þessu efni hafa reynst varasamar því að reynslan hefur oftast verið besti dómarinn. 

Um miðja síðustu öld var mikil bylgja þess efnis að sjávarútvegsfyrirtæki væru í opinnberri eigu, og spruttu upp bæjarútgerðir víða um land.

Reynslan af þessu varð hins vegar ekki góð. Útgerðirnar urðu baggi á sveitarfélögunum og í rekstur þeirra vantaði oft þann drifkraft sem einkennir einkarekstur. 

Öðru máli hefur oft á tíðum gegnt um einkarekstur á orkufyrirtækjum erlendis, einkum þeim sem hafa haft mjög ráðandi markaðsstöðu. 

Sjávarútvegfyrirtæki og orkufyrirtæki eru fyrirtæki sem nýta auðlindir. Munurinn á þeim er hins vegar sá að auðlind sjávarútvegsfyrirtækis er ekki á afmörkuðu svæði heldur er völlurinn fræðilega öll auðlindalögsagan. 

Orkufyrirtækin eru hins vegar oft allsráðandi á afmörkuðu svæði og þá er alltaf hætta á markaðsmisnotkun. 


mbl.is Orkuveitan ekki einkavædd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrökk í gamalt far

Það hefur löngum loðað við á stórum haldboltamótum að of mikið hefur verið keyrt á sömu mönnunum þannig að þegar komið hefur verið að úrslitastundu hefur það verið ómögulegt fyrir þessa lykilmenn að halda þrekinu, einmitt þegar mest hefur þurft á því að halda í síðustu leikjunum.

Á HM núna virtist þetta í fyrstu ætla að verða skárra ástand því að notaðir voru fleiri leikmenn en oft áður í fyrst leikjunum, enda breiddin í leikmannahópnum óvenju mikil. 

En síðan sótti aftur í gamla farið og einkum hefur það verið óskiljanlegt að nota ekki Sigurberg Sveinsson, sem er mikill markaskorari en hefur nær ekkert fengið að spreyta sig. 

Þetta hefur komið liðinu í koll og ég hef áður bloggað um þetta en geri það á ný í tilefni af ummælum Viggós Sigurðssonar. 

Fyrirsögnin "Óskiljanlegt að taka Sigurberg með" óskiljanleg, vegna þess að hún gefur til kynna að þessi leikmaður hafi ekki átt skilið að vera í hópnum.

Réttara hefði verið að segja: "Óskiljanlegt að láta Sigurberg ekki leika". 


mbl.is „Óskiljanlegt að taka Sigurberg með“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í rétta átt.

Samkvæmt prófunum veita negldir hjólbarðar aðeins betra grip en góðir vetrarhjólbarðar á glæru, blautu svelli.

Á götum Reykjavíkur er mikil hálka samtals í klukkustundum talið sem svarar kannski 1-2 dögum af 180 dögum vetrarmánuðanna.

Tjaran af völdum slits á götum sest á hjólbarða og gerir þá sleipari í öllum skilyrðum. Hún sest líka á glugga og rúðuþurrkur og slitið býr til hjólför, sem fyllast af vatni og valda hættu á að bílar fljóti og skriki til.

Ef allt er talið valda afleiðingar naglanna sennilega meira tjóni í óhöppum og slysum en þeir koma í veg fyrir. Þess vegna stefnir það í rétta átt að negldum hjólbörðum hefur fækkað verulega í borginni, þar sem ekki er þörf fyrir þá. 

 

 


mbl.is Færri á nöglum í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband