29.1.2011 | 20:54
Veittu okkur góða skemmtun.
Íslenska landsliðið í handbolta þarf ekki að skammast sín fyrir frammistöðu sína í síðasta leik sínum á HM, þótt þeir töpuðu honum með aðeins eins marks mun. Að því leyti bættu þeir að hluta til upp þrjá tapleiki í röð, þar sem þeir áttu slæma daga.
En hvílíka skemmtun hafa þeir ekki veitt okkur þessa daga! Þar er af mörgu að taka en kannski var það Alexander Petterson sem hreif okkur oftast og þakkaði með því fyrir það að hafa verið valinn íþróttamaður ársins á Íslandi 2010, svona rétt eins og hann væri að sanna það að hann hefði átt þann heiður skilinn.
Næstbesti árangur á HM frá upphafi er ekkert til að skammast sín fyrir og ég þakka strákunum fyrir það gera sitt besta, þótt það dygði ekki alltaf og það gengi á ýmsu eins og gengur.
![]() |
Tókst ekki að leggja upp síðustu sóknina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.1.2011 | 20:30
Fjarskiptabylting.
Heimurinn hefur ekki aðeins minnkað með tilkomu fjarskiptabyltingar farsíma og internets, heldur hefur stjórnmálalegt umhverfi landanna tekið stakkaskiptum.
Hvað eftir annað verða til hreyfingar og bylgjur sem byggjast á fjarskiptabyltingunni og þeim nýju möguleikum sem jafnvel fátækasta fólk hefur til þess að hafa samskipti og skipuleggja athafnir sínar.
Egyptaland er mikilsverður hlekkur í valdakerfi Bandaríkjanna og sá sér hag í því að hverfa frá því hlutverki að vera aðalóvinur Ísraels yfir í það að friðmælast við Gyðinga.
Bandaríkjamenn brenndu sig illa á því að styðja Íranskeisara á sínum tíma, og voru of seinir að átta sig á því að hann var orðinn gerspilltur, veruleikafirrtur valdabrjálæðingur.
Í öllum ríkjunum í norðaverðri Afríku austur um til Indlands eru við völd spilltar ríkisstjórnir þar sem lýðræði er fótum troðið og nú er það orðið enn meira spennandi en fyrr hvort fjarskiptabyltingin breiðist meira út.
Miðpunktur olíuveldisöxulsins Bandaríkin-Sádi Arabía er þar langmikilvægastur.
Það var efnahagstrix þessara tveggja fóstbræðra sem felldi á sínum tíma heimsveldi Sovétríkjanna og enginn bandamaður Bandaríkjanna er nálægt því eins mikilvægur og hin spilltu stjórnvöldl í Sádi Arabíu.
Ef fjarskiptabyltingin kemst þangað austur mun hrikta í allri heimbyggðinni.
Á olíuríkjunum flæðir að vísu olíuauður sem dregur úr því skelfilega fjárhagslega misrétti sem er ríkir í löndunum í kringum olíuríkin.
En annað misrétti og kúgun ríkja þarna alls staðar og óánægjan kraumar undir.
![]() |
Hvetur Múbarak til að fara úr landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)