Gagnsleysi 5% þröskuldsins.

Eitt af fjölmörgum málum, sem athuga mætti á komandi Stjórnlagaþingi, er það óréttlæti að hægt sé að ræna allt að 7500 kjósendum þeim rétti að fá fulltrúa sinn kjörinn á þing. Þetta samsvarar því að rúmlega 7000 kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hefðu ekki fengið neinn fulltrúa kjörinn.

Þetta kemur upp í hugann þegar opinber er ágreiningur sem jaðrar við klofning í VG, því að hinum óréttláta þröskuldi er ætlað að koma í veg fyrir of mikla flokkadrætti og sundrungu á Alþingi. 

Nefna má ótal dæmi um það að ákvæði af þessu tagi virki ekki. Þannig klofnaði Borgarahreyfingin á mettíma eftir síðustu kosningar og meðal annars lýsir það sér í því að varamaður Þráins Bertelssonar myndi líkast til taka aðra afstöðu til ríkisstjórnarinnar en hann. 

Borgaraflokkurinn klofnaði á sínum tíma og sömuleiðis þingflokkur Bandalags jafnaðarmanna eftir að á þing var komið. 

Þingflokkur Alþýðuflokksins klofnaði 1938 og síðan aftur fyrir kosningarnar 1956 og enn á ný fyrir kosningarnar 1995. 

Sama gerðist hjá þingflokki Samtaka frjálslyndra og vinstri manna á kjörtimabilinu 1971-74 eftir að þeir fengu fyrst kjörna þingmenn, Framsóknarflokkurinn klofnaði fyrir kosningarnar 1934 og þingflokkur Alþýðuflokksins klofnaði 1938. 

Þingflokkur Sjálfstæðismanna klofnaði 1944 og aftur 1980 gagnvart stjórnarmyndunum þessi ár en náði síðan saman aftur. Þingflokkur Sjallanna klofnaði líka og leiddi af sér sérframboð bæði Jóns G. Sólness og Eggerts Haukdals, og Stefán Valgeirsson sagði skilið við Framsóknarflokkinn 1987 og komst af eigin rammleik á þing. 

Og ekki má gleyma stofnun Borgaraflokksins 1987 í kjölfar klofnings þingflokks Sjálfstæðismanna. 

Í flestum tilfellum voru það einn eða tveir þingmenn sem klufu sig frá þannig að til urðu "flokksbrot" sem voru oft vel neðan við 5% kjósenda á bak við þingmennina. 

Sá tilgangur 5% þröskuldsins að vinna gegn sundrungu á þingi er óþarfur, því að þingflokkar klofna og fylkingar riðlast hvað eftir annað eins og dæmin hér að ofan sýna.


mbl.is Átökin mest um ESB-stefnu VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann er enn ekki farinn alveg, sá "forni fjandi".

Mikið hefur verið rætt um það undanfarin ár að siglingarleiðir muni opnast fyrir norðan Ameríku og Asíu þegar hlýnun loftslags á jörðinni valdi því að hafís minnki á þessum leiðum.

En ævinlega verður að gæta þess að svonefndar náttúrulegar sveiflur, sem frá fornu hafa oft verið taldar vera sjö ár í senn, halda áfram að setja strik í svona reikninga. 

Afbrigði og sveiflur má ekki afskrifa, ekki heldur að afskrifa landsins forna fjanda", hafísinn. 

Þetta hafa íbúar norðanverðrar Evrópu orðið að þola að undanförnu á sama tíma og óvenjulega hlýtt hefur löngum verið á sunnanverðum Labradorskaga og suðvestanverðu Grænlandi. 


mbl.is 500 manns fastir í ís
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert smámál ef kveikt hefur verið í.

Ég heyrði í útvarpsfréttum að lögreglan á Akureyri útilokaði ekki að kveikt hefði verið í húsinu við Eiðsvallagötu sem brann um daginn.

Rannsókn benti til að mesti eldurinn hefði verið undir glugga í kjallara sem var opinn að hluta. 

Þegar maður heyrir svona og með fylgir að eldurinn kom upp á þeim eina tíma ársins þegar fólk hefur nýlega lagst í djúpan svefn eftir að hafa vakað fram eftir á gamlárskvöld og nýjársnótt liggur næst við að álykta að hugsanlegur brennuvargur hafi vísvitandi kveikt í þegar mest hætta var á því að fólk færist í eldinum. 

Hin skýringin á því ef þarna hefur verið kveikt í einmitt af þessum sökum, kann að liggja í því að brennuvargurinn hafi valið sér þennan tíma til þess að sem mestar líkur yrðu á því að enginn yrði hans var. 

Það skiptir ekki höfuðmáli heldur hitt að þetta mál verði upplýst, því að hrollur fer um mann við að heyra svona tíðindi. 


mbl.is „Við hefðum ekki vaknað sjálf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband