7.1.2011 | 19:25
Brennan dauð og Subaruinn horfinn?
Akureyringar kalla ekki allt ömmu sína þegar snjór er annars vegar og þeir gera það heldur ekki nú.
Ég var þar á Þorláksmessu og það var afar jólalegt og drjúgur snjór í bænum.
Snjórinn núna bætist ofan á hann og því er það kannski rétt sem haft var eftir einum snjóruðningsmanni í útvarpi áðan að þetta væri mesta ófærð þar í fimmtán ár.
Ég á 30 ára gamlan Subaru nyrðra sem ég hef til taks þegar ég er á ferðinni á Norðausturlandi og kannski er hann nú kominn alveg á kaf og horfinn í hinn hvíta jólasnjó.
Á myndinni er hann við hliðina á litla pallbílnum, sem dró Örkina, og á pallinum er lítil gúmmítuðra sem ég notaði til þess að róa út í eyjarnar í Folavatni á meðan að þeim var drekkt.
Þórsarar andar kannski léttara úr því að þeir voru hvort eð er búnir að slá hina árlegu brennu sína af.
Sú var tíðin að maður fór norður til þess að sjá um að Gáttaþefur kæmi þar fram en nú er öldin önnur.
Brennan var fyrst haldin 1934 en þá stóð kreppan sem hæst hér, svo skæð, að kreppann núna er alger barnaleikur. Þjóðin var svo miklu fátækari þá en nú en samt voru brennurnar haldnar.
En þá var við svo miklu minna að vera og brennan mun stærri hluti af jólahaldinu en hefur verið síðustu árin. Engu að síður en mikil eftirsjá af henni, að minnsta kosti eins og hún var þegar ég sótti hana heim hér áður fyrr.
![]() |
Nánast ófært á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.1.2011 | 10:50
Hvað um fiskflutninga?
Samkeppni er driffjöður betri hagkvæmni og þar af leiðandi betri lífskjara. Hún á að tryggja að vörur séu ávallt framleiddar á þeim stað þar sem það kemur best út fyrir heildina.
Heilbrigð samkeppni á jafnréttisgrundvelli er til bóta en einokun og fákeppni til ills.
En stundum snýst þetta lögmál upp í andhverfu sína þegar óprúttnir aðilar nýta sér veikleika þess.
Stundum er um að ræða heilu heimsálfurnar og má þar nefna það stórkostlega ranglæti að vestrænar þjóðir knýja fram sem minnstar skorður við frjálsu flæði fjármagns og verslunar en halda á hinn bóginn uppi miklum höftum varðandi landbúnaðarvörur sem skaðar svo mikið landbúnað í suðrænum löndum, að nemur margfaldri þróunaraðstoð við þau ríki.
Þau fá ekki að njóta hagstæðara lofslags og aðstæðna til landbúnaðar.
Íslendingar gengu fyrir 15 árum með betlistaf fyrir erlend stóriðjufyrirtæki með því að senda þeim bækling þar sem þeim var lofað "lægsta orkuverði" og "sveigjanleika við mat á umhverfisáhrifum" ef þau reistu álver hér á landi.
Með þessu ákváðum við að bjóða niður orkuverð á heimsvísu svo mjög að meira að segja fátækustu þjóðir heims, sem ætti orkulindir, gætu ekki keppt við okkur.
Þegar seljandinn er búinn að gefa upp þessa hugsun sína þarf engan að undra þótt kaupandinn gangi á lagið og noti bláfátæka útlendinga til þess að bjóða niður hráefnisflutninga og vinnu við virkjanaframkvæmdir.
Þegar framkvæmdir hófust við Kárahnjúka var sagt að 80% vinnuaflsins yrðu Íslendingar en 20% útlendingar. Þetta varð auðvitað öfugt, 80% útlendingar og 20% Íslendingar.
Til þess að útvega erlent hráefni flytja álrisarnir það yfir þveran hnöttinn hingað og í fróðlegri grein í Fréttablaðinu nýlega var því lýst hverning staðið er að stórfelldri eyðileggingu lands og arðráni í þeim löndum þar sem hráefnið fæst.
Samanburðurinn við íslenskan sjávarútveg er sláandi. Eða hvað myndi vera sagt ef erlendir auðmenn ættu öll fiskvinnslufyrirtæki landins og notuðu sér bág kjör útlendinga til þess að láta þá vera á fiskiskipum okkar og sjá um flutninga á fiski til viðskiptalanda okkar?
![]() |
Semji við íslensk félög um álflutninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)