9.1.2011 | 17:48
Braut The Washington Post lög?
Á sínum tíma var upplýsingum um innbrotið í Watergate "lekið" til blaðamanna The Washington Post.
"Lekinn" var vafalaust brot á reglum í embættismannakerfinu þar vestra og á þeim forsendum verið í lagi samkvæmt skilningi Bjarna Benediktssonar að Nixon léti gera húsleit hjá blaðamönnum Washington Post, bæði heima hjá þeim og hjá blaðinu sjálfu, og taka til sín öllu gögn sem gætu upplýst um "glæp" þeirra.
Setjum sem svo að íslenskum þingmaður hefði verið í vinfengi og átt símtöl og bréfaskipti við hina bandarísku blaðamenn.
Þá er hægt að álykta, samkvæmt skilningi Bjarna Benediktssonar, að í góðu lagi hefði verið að Bandaríkjamenn hefðu heimtað á fá til sín persónuleg gögn þessa íslenska þingmanns og handtaka hann og færa til yfirheyrslu ef hann væri í Bandaríkjunum.
Sá "leki" sem fyrstur kom á vegum Wikileaks fyrir sjónir almennings nú var kvikmynd af hrottalegri og tilefnislausri skotárás bandaríkjahers á almenna borgara í Bagdad sem kostaði saklaust fólk lífið eða særði það illa.
Bandaríkjamenn eru á höttunum eftir þeim sem "lak" á forkastanlega hátt að þeirra dómi gögnum um þennan glæp.
Svo er að heyra á Bjarna Benediktssyni að hann telji að Bandaríkjamenn eigi ekki að láta sér nægja að finna út hver "lak" og yfirheyra hann, heldur eigi þeir að fá skotleyfi á hverja þá erlenda borgara og jafnvel þingmenn sem þeim sýnist.
Þar að auki, ef marka má orð Kristins Hrafnssonar í útvarpi, muni bandarísk stjórnvöld þá fá aðgang að tölvupóstum hundruðum þúsunda manna.
Hugsanleg mistök eða vafasamar aðgerðir hér heima varðandi málarekstur á hendur fyrrverandi forsætisráðherra eru sérstakt mál, sem koma þessu máli í raun ekkert við heldur ber að rökræða það sérstaklega án þess að blanda því inn í algerlega óskylt mál.
![]() |
Bandaríkjamenn beita lögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
9.1.2011 | 16:26
Að fara á taugum.
Það er vafalaut rétt hjá Alex Ferguson að allt of oft verða þjálfarar liða blórabögglar vegna slaks gengis þeirra og mjög oft hafa þeir alls ekki fengið þann tíma eða efnivið til að þróa.
Ég held að oftast sé þetta svona en hitt kemur líka fyrir að í því flókna sálfræðilega samspili, sem er á milli þjálfara liðs og liðsmanna sjálfra og síðan samspilinu við stjórnir íþróttafélaganna getur eina lausnin stundum verið að skipta um mannskap.
Um þetta gildir hið sama og í öllum mannlegum samskiptum, allt frá hjónaböndum og við stjórn fyrirtækja og félagasamtaka upp í ríkisstjórnir.
Ferlar margra þekktra þjálfara sýna, að þeim sjálfum gengur misvel. Sumir af þeim þjálfurum, sem hafa náð lengst, hafa fyrr á ferlinum orðið að taka pokann sinn eða gengið misvel.
Stundum geta þjálfarar spilað ótrúlega vel úr efniviði sínum, samanber það þegar Guðjóni Þórðarsyni tókst að laða fram frábæra liðsheild hjá KA sem hampaði loks Íslandsmeistaratitli.
Og síðan eru dæmi um hið gagnstæða, að jafnvel sami þjálfari og talinn var kraftaverkamaður hjá einu liði, mistekst alveg við að ná því besta fram úr liði, sem er skipað miklu betri einstaklingum.
Mig grunar að það sé rétt hjá Ferguson að ekki hefði átt að reka Roy Hodgson núna úr því sem komið var heldur að gefa honum tækifæri út leiktíðina til að spila úr spilum sínum.
Liverpool verður héðan af varla meðal efstu liða núna og varla í fallsæti heldur. Mig grunar að nú hafi stjórnendur félagsins einfaldlega farið á taugum.
![]() |
Ferguson: Sorgleg niðurstaða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.1.2011 | 01:57
Laddi gerði betur!
Því miður var ekki kvikmyndatökuvél í gangi fyrir aldarfjórðungi þegar Laddi skoraði ótrúlegustu körfu allra tíma í lok sýningarleiks Stjörnuliðsins sem var í leikhléi körfuboltaleiks í Ljónagryfjunni í Njarðvík.
Ég held ég hafi sagt áður frá þessu atviki en góð vísa er aldrei of oft kveðin.
Við spiluðu knattspyrnu í hléinu og þegar honum var lokið vorum við á leið út úr salnum en Laddi hljóp til baka í gagnstætt horn til þess að ná í treyjuna sína.
Hann hljóp síðan af stað til baka en kallaði á Jón bróður minn: "Gefðu´hann á mig!" Jón spyrnti boltanum í langri sendingu í átt til Ladda, sem kom hlaupandi á móti boltanum og stökk hátt upp í miðjum salnum í "splitt"stellingu eins og ballettdansmær.
Boltinn lenti á hnénu á láréttum fæti Ladda og fór þaðan í löngum sveig í áttina að körfunni.
Áður en boltinn hafði komist alla leið lenti Laddi úr splittstökkinu og "kvittaði fyrir" með hendinni fyrirfram rétt áður en boltinn fór ofan í körfuna!
Laddi er mesti "grísari" og tilviljanameistari sem ég hef þekkt og þetta var engu lagi líkt.
Þótt ekki næðist mynd af þessu eru áreiðanlega enn margir sem muna eftir þessu einstaka atviki.
![]() |
Ótrúleg flautukarfa tánings frá miðju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)