16.10.2011 | 14:55
Allur pakkinn!
Líkamsþjálfun og rétt þyngd skipta máli á miklu fleiri sviðum en virðist í fljótu bragði. Nefnum nokkur dæmi:
Meiri vellíðan líkamlega. Auðveldara að framkvæma flest það sem daglegt líf og vinna krefst.
Meiri andleg vellíðan: Á meðan maður er í líkamsrækt eða hollri hreyfingu örvar það skapandi hugsun og veitir andlega ró.
Krefjandi áskorun sem nautn er að takast á við og ná árangri í.
Gott meðal við ýmsum sjúkdómum. Flestir áhrif á hjarta- og æðakerifi en tengsl offitu við áunna sykursýki eru þekkt og til dæmis slæm áhrif á þindarslit og bakflæði og sömuleiðis slæm áhrif á hrygginn. Sama er að segja um hné og önnur liðamót.
Mín reynsla er sú að besti tíminn fyrir góða líkamsrækt sé á kvöldin. Það getur verið bæði sálarlega og líkamlega eins og vinda skítugan svamp og láta hann soga í sig hreint vatn á eftir.
Eftir slíkt sofnar maður eins og barn.
![]() |
Sjálfstraustið hefur aukist til muna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.10.2011 | 14:36
Sígandi lukka er best.
Lengan tíma ætlar það að taka fyrir þjóðina að átta sig á því, að sala á orku frá jarðvarmavirkjunum og þær sjálfar hlíta allt öðrum lögmálum en vatnsaflsvirkjanir.
Þegar fyrsta stóriðjan kom í Straumsvík var vitað fyrirfram hvað orkan yrði mikil í Búrfellsvirkjun og hve mörg tonn af áli væri hægt að framleiða með henni.
Nú er hálf öld liðin og aðstæður gjörbreyttar. Í stað þess að virkja þurfi til að fullnægja innanlandsþörf, snýst nú allt um það hvort hægt sé hér og nú að virkja tíu sinnum meira.
Og engin leið virðist að koma því til skila að eðli jarðvarmaorku er allt önnur en vatnsorku. Þótt hægt sé að áætla gróft um hve mikla orku sé að ræða á hverjum stað, kemur það ekki endanlega í ljós fyrr en nokkrir áratugir hafa liðið.
Þess vegna er galið að selja fyrirfram alla jarðvarmaorku heils landshluta þar sem eina fyrirfram gefna forsendan er að líklega endist hún í 50 ár.
Þar að auki getur slík orka hvorki flokkast undir endurnýjanlega orku né sjálfbæra þróun þótt því sé stanslaust logið að öllum.
Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson upplýstu í Morgunblaðsgrein að það sé hægt að nýta jarvarmaorku þannig að til langframa geti hún talist endurnýjanleg.
En þá þurfi að fara að með gát og vera viðbúinn því að þegar í ljós kemur að orkan muni fara að dvína verði hægt að draga úr orkuöfluninni til að finna jafnvægi.
Rökrétt afleiðing þessa er sú að eina rétta orkusölustefnan sé sú að selja orkuna frekar mörgum smærri fyrirtækjum af varkárni og ábyrgð heldur en að selja hana alla á einu bretti einum stórum kaupanda og eiga enga möguleika á að bregðast við orkuþurrð.
Nú stendur til að virkja í eldvörpum og eyðileggja einu "Lakagíga"-gígaröðina á öllu Suðvesturlandi.
Jarðfræðingar, sem ég hef haft samband við, segja að með því sé verið að sækja í sama orkuhólfið og er í Svartsengi sem þýðir á mannamáli að það á að pumpa hraðar upp takmarkaðri orku til þess eins að hún endist skemur.
Eldvarpavirkjun er því glapræði í tvöföldum skilningi og síðan má bæta því við að hún er hrópandi mótsögn við síbyljunni um endurnýjanlega hreina orku, sem er orðin að trúaratriði áltrúarmanna.
![]() |
Uppskipun á gagnaveri í Helguvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2011 | 07:09
Með því lúmskasta sem gerist.
Ég var að koma akandi frá Sauðárflugvelli á Brúaröræfum í gærkvöldi og í nótt og hef sjaldan lent í eins lúmskri hálku og víða var á leiðinni ofan úr Norðurárdal til Reykjavíkur.
Ferðalagið fór ég vegna þess að veturinn er að bresta á af fullum þunga annað kvöld og aðra nótt, og þurfti ég því að sækja gamla Súkku upp á flugvöllinn, sem ég hef haft þar til taks í sumar, og koma honum til byggða.
Spáð er arfaslæmu veðri þarna á Brúaröræfum aðra nótt og þá mun hugsanlega snjóa það mikið að völlurinn opnist ekki aftur fyrr en næsta vor.
Vonandi fer enginn flatt á þessari mjög svo lúmsku hálku og ljóst er að héðan af þurfa ökumenn að fara að taka komu Vetrar konungs með í reikninginn.
Blogga kannski nánar um þetta ferðalag á morgun með myndum og tilheyrandi.
![]() |
Hætta á ísingu á vegum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2011 | 07:02
Mesta þolraunin framundan?
Kornungur þurfti Eiður Smári Guðjonsen að ganga í gegnum langan meiðslatíma og voru sumir svo svartsýnir að þeir efuðust um að hann gæti náð sér aftur.
En Eiður stóðst þessa raun með mikilli prýði og í hönd fór glæsilegur ferill þeirra ára sem hver afreksmaður er venjulega upp á sitt besta.
Meiðslin núna þurfa kannski ekki að verða eins langdregin og forðum, en nú er Eiður ekki ungur lengur heldur kominn á þann aldur að mun erfiðara er að koma sér í form eftir áföll en þegar líkaminn var enn á uppleið.
Eiður stóðst þolraunina á sínum tíma og naut þar kannski æsku sinnar, sem ekki er fyrir hendi nú.
Þess vegna kann þessi nýja þolraun að reynast sú mesta á ferlinum. Á móti kemur að hann hefur reynslu af því að fást við viðfangsefni af þessu tagi og því er honum óskað alls hins besta við að glíma við þessa erfiðleika og vinna bug á þeim.
![]() |
Eiður fótbrotinn og í aðgerð á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)