Skiptir nær engu á heimsvísu.

Smáþjóðir eins og Norðurlandaþjóðirnar falla oft í þá gryfju að mæla hluti á sinn mælikvarða og draga síðan af því þá ályktun að það skipti miklu málið fyrir heimsbyggðina.

Það skiptir að vísu miklu máli fyrir Norðmenn að hafa fundið nýjar olíulindir, en nánast engu máli fyrir heimsbyggðina því að Norðmenn komast ekki á lista yfir 17 mestu olíuþjóðir heims og "olíuauður" þeirra er aðeins örlítið brot af vinnanlegri olíu á jörðinni.

Við Íslendingar höfum margir hverjir fengið það inn í höfuðið að Norðmenn séu meðal helstu olíuþjóða heimsins en það sem ruglar okkur er það að Norðmenn eru í hópi smáþjóða með aðeins 0,08% af mannfjölda heimsins og þess vegna munar þá sjálfa mikið um þessar olíulindir á meðan þær munu endast þótt þær teljist vart fréttnæmar á heimsvísu.

Stórfréttir um nýja olíufundi kveikja alltaf í þeim sem telja það vera svartsýnisraus að olíuöldin hafi nú náð hámarki og héðan af geti leiðin ekki lengur legið upp á við heldur niður á við.

Þó er það viðurkennd staðreynd að fásinna er að halda áfram á sömu braut og gert hefur verið, enda verður vinnslan á nýjum olíulindasvæðum alltaf dýrari og dýrari og erfiðara að ná olíunni.


mbl.is Tvöfalt meiri olía en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á síðustu ár Sovétríkjanna.

Á síðustu árum Sovétríkjanna upp úr 1980 var svo komið að einungis aldraðir og heilsuveilir menn voru valdir til að veita þeim forystu.

Leoníd Breznef ríkti til dauðadags og sama gilti um Juri Andropov og Victor Chernenko, sem báðir létust eftir skamman valdatíma.

Þetta þótti mörgum sem merki um að dauðans hönd væri að leggjast yfir sovéska heimsveldið, sem stóð þá á brauðfótum, einkum vegna aðgerða Sádi-Araba sem juku olíuframleiðslu sína að beiðni Ronalds Reagans með þeim afleiðingum að heimsmarkaðsverð á olíu féll og það stórskaðaði olíuútflutningslandið Sovétríkin.

Það að auki gátu Sovétríkin, sem áður gátu státað sig af því að vera "kornforðabúr Evrópu" ekki lengu brauðfætt sig og voru, eins og Norður-Kórea er nú, háð innflutningi á korni.

Þegar Michael Gorbatsjev tók við völdum var það orðið of seint, - ekkert gat lengur bjargað Sovétríkjunum frá falli.

Sádi-Arabía er hyrningarsteinn í utanríkisstefnu Bandaríkjanna vegna hins mikla olíuauðs landsins.

Engir vita eins vel og Sádarnir hvað líður olíuforða heimsins og valdastaða þeirra er miklu sterkari en í fljótu bragði er hægt að koma auga á.

En einveldið þar ber mörg merki þess að vera komið að endalokum, þrátt fyrir gríðarlegan hernaðarlegan stuðning og aðgerðir Bandaríkjamanna til þess að fresta hinu óhjákvæmilega, að einveldi valdaættarinnar í landinu líði undir lok.

Vegna mikils hernaðarmáttar Sádi-Arabíu er þar falin púðurtunna ef upp úr sýður og allt valdajafnvægið og þar með heimsfriðurinn í hættu ef illa tekst til.

Það er að vísu úr nokkru mannvali að moða í konungsættinni þegar hinir elstu fara að tína tölunni en alls óvíst hvaða menn þeir hafa að geyma sem gætu komist þar til valda.

Eitt eiga þeir þó allir sameiginlegt, að þekkja ekkert annað en það bílífi og firringu sem ótakmörkuð völd gefa.  Vald spillir og mikið vald gerspillir.  Dæmi um það blasti við á ferð minni um Klettafjöllin fyrir nokkrum árum þar sem krónprins Sádi-Arabíu hafði í fyrsta sinn verið í skíðaferðalagi þar í stað þess að fara til Alpafjalla.

Hann fékk hundrað herbergi á aðal hótelinu og var með þyrlur og limmúsínur í röðum.

Um dómskerfið og margt annað í þjóðskipulagi Sádi-Arabíu þarf ekki að fjölyrða, - þar ríkir einræðisleg forneskja sem ekkert virðist geta haggað.

Valdhafarnir nota hluta olíuauðsins til þess að standa fyrir framkvæmdum og þjónustu sem sefar lýðinn, en það gerðu þeir Gaddafi og Saddam Hussein líka þótt í minna mæli væri, enda olíuauðurinn margfalt minni en í Sádi-Arabíu.

Líkast til mun saga Sádi-Arabíu á næstu árum og áratugum verða samofnari sögu mannkynsins en flestra annarra landa, - slíkt lykilhlutverk í orkubúskap heimsins leikur landið.

Þess vegna er það svo athyglisvert að reyna að rýna í það sem er að gerast þar.

Sovétríkin hrundu með þverrandi olíutekjum og það mun einveldið í Sádi-Arabíu líka gera þegar þar að kemur.  

 


mbl.is Krónprins Sádi-Arabíu látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spádómar lagsins "Árið 2012" að rætast.

Fyrir 45 árum var gerð tilraun til að skyggnast fram til ársins 2012, sem mönnum þótti ógnarlangt frammi í framtíðinni í textanum "Árið 2012" sem Vilhjálmur Vilhjálmsson söng með frábærum undirleik og útsetningu Magnúsar Ingimarssonar.

Magnús var ekki aðeins frábær hljómlistarmaður heldur einnig ágætur textasmiður samanber textinn "Marína" sem hann gerði og er afar lipurlega og vel gerður.

Við settumst saman niður nótt eina á þáverandi heimili mínu að Rauðalæk 12 til að hespa af texta, sem ég var byrjaður á og þoldi enga bið, því að komið var að því að fara í hljóðver og syngja hann inn á plötu.

Skoðum nokkrar hendingar í þessu spádómakvæði frá 1967:

"....Og ekki hafði neitt að gera útvarpsstjóri vor

því yfirmaður hans var lítill vasatransistor

og þingmennirnir okkar voru ei með fulle fem

því forsætisráðherrann var gamall IBM."

Á þessum tíma þurfti heilan sal til að koma fyrir tölvu, sem gæti leyst hluta af þeim verkefnjum sem örsmáar lófatölvur og farsímar leysa nú en okkur grunaði að rafeindatækni framtíðarinnar myndi gerbylta öllu og létum því gamminn geysa í textanum og gáfum í skyn að þessi tækni myndi í raun taka flest verkefn, störf, úrlausnarefni og völd af ráðamönnum heimsins.

Við þekktum auðvitað ekki framtíðarheiti eins og Microsoft, Macintosh eða snjallsíma svo að nærtækast var að nota orðið transistor og IBM úr því ekki var annað að hafa.

Netið, Facebook og YouTube voru lika hugtök sem við að sjálfsögðu gátum ekki nefnt en látið okkur gruna að eitthvað í þá áttina yrði til.

Ýmislegt fleira úr þessum texta hefur ræst og jafnvel farið fram úr mestu órum okkar.

Við sáum fyrir okkur að fólki þyrfti ekki að fjölga með hefðbundnum aðferðum samanber þessar hendingar:

 

*....Mig dreymdi ég væri giftur þeirri sömu sem ég er.

Hún sagði: "Ó, mér leiðist þetta barnaleysi hér."

Ég gerðist nokkuð bráður og vildi bæta úr því strax.

"Nei, bíddu," sagði hún, "góði. Við notum pillur nú til dags."...."

Okkur datt ekkert annað í hug en pillur sem aðferð í þessum efnum til að gera hefðbundnar aðferðir óþarfar en óraði ekki fyrir tilvist klónunar, tæknifrjóvgunar og staðgöngumæðrum.

Ég er að velta fyrir mér hvort hægt sé að gera sams konar texta 45 ár fram í tímann fyrir árið 2057 eða jafnvel fyrir árið 2112 en býður í grun að rétt sé að láta það ógert.


mbl.is Samfélagsmiðlar mikilvægari en ríkisstjórnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. október 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband