24.10.2011 | 22:25
Nýtt: Hvað eftir annað hlý norðaustanátt.
Sú var tíðin að spá um norðaustanátt vakti hjá manni hroll, enda var þessi vindátt yfirleitt mjög köld og alger undantekning ef svo var ekki.
Síðustu ár hefur orðið breyting á þessu. Hvað eftir annað gerist það að það hlýnar jafnvel þegar norðaustanáttin ryður sér braut.
Ástæðan sýnist vera sú að sjórinn sé hlýrri fyrir norðan átt en áður var og því eiga hlýir loftmassara sem þenja sig út til norðvesturs frá Evrópu, auðveldara en áður með að komast svona langt norðvestur um Atlantshas.
Niðurstöður hinnar óháðu rannsóknar hvað það varðar að það hafi hlýnað yfir Norður-Atlantshafi ættu ekki að koma Íslendingum á óvart á meðan jöklarnir hérna minnka stanslaust ár frá ári.
![]() |
Óháð rannsókn staðfestir hlýnun jarðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2011 | 20:26
Athyglisverð atvik fyrir 15 og 20 árum.
Fyrir um tuttugu árum var ég í fréttaöflunarferð fyrir Stöð 2 í þörpi einu á Snæfellsnesi og komst þá að því, að þar hafði orðið árekstur á götu, sem var merkt með einstefnuakstursmerki.
Tryggingarfélagið, sem bæta þurfti tjónið, úrskurðaði að báðir bílstjórarnir bæru ábyrgð á árekstrinum, líka sá sem ók inn í götuna í þeirri trú að þar væri einstefna.
Rökin á bak við þennan úrskurð voru þau að almennt væri einstefnumerkið ekki virt þarna og að það væri á almanna vitorði í plássinu.
Bílstjórinn sem ók í einstefnuáttina hefði ekki sýnt næga aðgæslu gagnvart því að umferð gæti komið á móti einstefnumerkinu eins og iðulega gerðist þarna.
Sá bílstjóri andmælti þessu á þeim forsendum að hann væri aðkomumaður sem hefði ekki vitað það sem væri á almanna vitorði hjá heimamönnum og hugðist hann fara með málið lengra og sagði mér málavöxtu. Hann stæði í stappi við tryggingafélagið og kannski væri þetta ekki einsdæmi.
Mér fannst málið athyglisvert, tók myndir af vettvangi og byrjaði síðan að tala við málsaðila í því skyni að gera um þetta sjónvarpsfrétt.
Þá brá svo við að tryggingafélagið breytti úrskurði sínum þannig að bílstjórinn sem ekki virti einstefnuakstursmerkið, var gert að bera allt tjónið. Líklega hefur félaginu borist pati af því að málið gæti rataði í fjölmiðla og ekki litist á blikuna að standa í frekara stappi.
Fyrir 15 árum lenti ég í árekstri fyrir utan þáverandi Sjónvarpshús við Laugaveg.
Sendibíll ók lafhægt í austurátt meðfram húsinu og gaf með stefnuljósi til kynna að hann ætlaði að beygja til hægri upp sund við húsið.
Ég hugðist þá renna bíl mínum meðfram sendibílnum, en lenti þá í afar hávaðamiklum árekstri, því að við það að beygja til hægri, sveiflaði sendibíllinn opnum afturdyrahlera til vinstri sem skar upp alla hægri hlið bíls míns eins og beittur hnífur.
Ég hefði kannski séð þennan opna afturdyrahlera ef ég hefði verið á lægri bíl, en hlerinn var örþunnur þannig og vísaði á ská upp í átt til mín þanig að frá mér að sjá var jafnerfitt að sjá hann og örþunnt rakvélarblað, enda skein morgunsól á móti.
Sendibílstjóri, sem er með svona afturhurðarhlera niðri svo að hann stenndur aftur úr bílnum og sveiflar honum til og frá í þéttri föstudagsumferð eins og var í þessu tilviki, þverbrýtur að sjálfsögðu lög og skapar stórhættu í umferðinni.
Svona hleri er eins og risastórt beitt sverð og ég hef séð þetta gerast síðan hjá fleirum.
Samt úrskurðuðu tryggingarfélögin tvö, sem tryggðu bílana, að ég skyldi bera helming tjónsins hvað varðaði sjálfsáhættu, þannig að báðir bílstjórarnir misstu bónusinn, sem þá var inni í tryggingarskilmálum.
Með því að skipta tjóninu og sökinni á milli beggja bílstjóra minnkuðu félögin heildarútgjöld sín vegna árekstsurins.
Ég andmælti þessu kröftuglega á þeim forsendum að engin leið hefði verið fyrir mig við þessar aðstæður að sjá hinn lárétta opna hlera en það var ekki tekið til greina.
Ég benti á að sendibílstjórinn hefði með því að beygja sveiflað hleranum í veg fyrir mig yfir miðlínu vegar en það var heldur ekki tekið til greina.
Ég fór að kynna mér ástand þessara mála og kom í ljós að þetta væri ekki eina dæmi þess að sendibílstjórar þverbrytu lög með því að aka með hlerana niðri.
Aðrir ökumenn, sem höfðu lent í því að verða fyrir hlerunum, höfðu verið úrskurðaðir orsakendur árekstranna að hálfu. Þetta var orðið að hefð eins og að það var orðið að hefð að skipta tjóni fyrir vestan þegar bílar óku á móti einstefnuakstursskilti og lentu í árekstrum.
Ég spurðist fyrir um það hvort ég mætti eiga von á því að vera úrskurðaður valdur að eigin örkumlum ef einn vegfarenda gengi um gangstétt og tæki upp á því að sveifla beittu sverði í allar áttir, sem ekki væri hægt að sjá, og það lenti á mér.
Svarið var að þegar sendibílar ættu í hlut ættu aðrir bílstjórar að vera viðbúnir því að hlerarnir á sendibílunum kynnu að vera opnir. Svipuð röksemdafærsla og vestur á Snæfellsnesi.
Mér sýndist þetta mál geta orðið ágætis umfjöllunarefni í sjónvarpi, en í þetta sinn gat ég ekki gert neitt á þeim vettvangi nema vera sakaður um að misnota aðstöðu mína, jafnvel þótt ég greindi öðrum fjölmiðlamönnum frá þessu. Þeir voru jú kollegar mínir.
Svo fór að ég hafði hvorki tíma né fjármuni til að fara í mál með þetta og lét mig hafa það að borga helming sjálfsáhættunnar í tryggingunni, sem var í kringum 200 þúsund krónur á núvirði.
Fróðlegt væri að heyra álit fóks á atvikum sem þessum.
![]() |
Harma slys við Dalveg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.10.2011 | 14:00
Kerfið sér um sig.
Bandarísk stjórnvöld misstu tökin á fréttaflutningi og myndbirtingum í Vietnamstríðinu og það var ein meginástæðan fyrir því að bandarískur almenningur snerist smám saman gegn því þegar honum var ljóst hvers eðlis stríðið var.
En valdakerfið lærði af þessu og síðan hefur ekki aftur verið háð stríð í fjölmiðlum nema að mjög takmörkuðu leyti, því miður.
Wikileaks hefur gegnt afar mikilvægu hlutverki og lyft Grettistökum í bráðnauðsynlegri upplýsingamiðlun sem er ómetanlegur hluti af því hlutverki fjölmiðla heimsins að miðla lífsnauðsynlegum upplýsingum um staðreyndir og mismunandi sjónarmið og skoðanir.
Það er því harmsefni og aðför gegn lýðræðinu ef valdakerfi auðræðisins hefur tekist að stöðva starfsemi Wikileaks. Því að lýðræði er markleysa ef fólkið fær ekki réttar og nauðsynlegar upplýsingar og aðgang að mismunandi sjónarmiðum.
Þótt ekki sé nefnt annað en myndskeiðið fræga af árás herþyrlu á saklausan almenning á götu í Bagdad nægir það til að sýna í hnotskurn hvaða hlutverki Wikileaks hefur gegnt.
Þessi uppljóstrun minnti um margt á það þegar Dreyfus-málið var afhjúpað fyrir rúmri öld. Munurinn er hins vegar sá að réttlætið sigraði að lokum í Dreyfus-málinu en þeir sem drápu varnarlausa og saklausa borgara í Bagdad þurftu ekki að axla ábyrgð á gerðum sínum.
Framundan á næstu árum og áratugum er hrun auðlinda heimsins og fjármálakerfis sem lífsnauðsynlegt er fyrir mannkynið að bregðast strax við og milda eins og hægt er til þess að bjarga því sem bjargað verður.
En valdakerfi auðræðisins munu streitast við að stjórna þessu sjálft, og því hatrammlegar mun það berjast sem nauðsynlegra verður að opna upplýsingastreymið í stað þess að loka því.
Valdakerfinu virðist hafa tekist að svínbeygja kortasamsteypurnar með hótunum og fjárkúgun og beita öllum þeim löglegu og ólöglegu og siðlausu ráðum, sem það hefur fundið til að loka sér.
Kerfið sér um sig, - það sannast hér enn og aftur.
![]() |
Wikileaks hættir að birta skjöl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)