8.10.2011 | 12:22
Ekki hægt án einhverrar ástæðu.
Háð getur stundum verið eitt beittasta vopnið, sem beitt er í í ádeilu í umræðum og fjölmiðlum. Háðið virkar þó yfirleitt ekki sem ádeila nema einhver fótur sé fyrir henni.
Þýska grínblaðið Titanic þarf að hafa eitthvað í höndunum til þess að efna til ósmekklegrar og illkvittinnar ádeilu hjá stórþjóð á hendur fjarlægri örþjóð.
Því miður hefur tímaritið fundið áþreifanlegan eldsmat, þá staðreynd að íslensk fjármálafyrirtæki skildu eftir sig sviðna slóð upp á 8-9 þúsund milljarða króna, sem þýskir sparifjáreigendur töpuðu á falli hinna íslensku banka.
Evrópska regluverkið, sem gerði þetta mögulegt, var að vísu á ábyrgð Þjóðverja eins og annarra aðila að EES-samningnum. En háðið spyr oft ekki um nákvæmar útlistanir.
Það sem upp úr stendur var að þetta voru íslensk fyrirtæki, sem nutu velvilja íslensku þjóðarinnar að því er séð varð. Örfáir gagnrýnendur þessa voru taldir vera úrtölumenn og kverúantar.
Íslensk stjórnvöld og eftirlitsaðilar sváfu á verðinum, og þótt segja megi að þýskir eftirlitsaðilar hefðu átt að halda sinni vöku, er það alltaf nafn Íslands, sem kemur upp í sambandi við þessi ósköp.
Íslendingar hafa ávallt notið og njóta enn almennt sérstakrar velvildar Þjóðverja og fáar þjóðir bera jafn mikla virðingu fyrir landinu, sem okkur hefur verið falin umsjá yfir og afreka okkar við varðveislu norræns menningararfs.
Þess vegna er sárt ef illskeytt háðsádeila þýsks grínblaðs varpar skugga á samband þjóðanna.
En við verðum að skilja, að við getum ekki í ljós þess ófarnaðar, sem varð í Þýskalandi af völdum íslenskra fyrirtækja, krafist þöggunar um það sem gert hefur verið í nafni Íslands á erlendri grund.
Eða man einhver eftir auglýsingaherferðinni hér um árið þegar rándýr breskur leikari lék hlutverk á móti Randveri Þorlákssyni þar sem hin íslenska útrás og fjármálasnilld var mærð í hástert af leiftrandi húmor? Stundum getur slíkt orðið að bjúgfleyg (boomerang) í höndunum á mönnum.
![]() |
Úthúða Íslandi á bókamessu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)