Horfum til framtíðar.

Þegar Íslendingar gerðu Sambandslagasamninginn við Dani 1918 voru margir áhyggjufullir vegna þeirra réttinda Dana á Íslandi sem samningurinn gerði ráð fyrir. Þær áhyggur reyndust sem betur fór óþarfar, því að hið vanþróaða og harðbýla Ísland lengst norður í hafi sá um það að Danir höfðu ekki eftir miklu að slægjast hér. 

Þegar EES-samningurinn var gerður á sínum tíma var inni í honum að allir innan EES-svæðisins mættu kaupa jarðir á Íslandi. Margir höfðu réttilega áhyggjur af þessu, en enn sem komið er hefur þetta ekki komið sér illa enda Ísland enn langt frá öðrum löndum. 

En þetta kann að breytast með bráðnun hafíss og opnun Norður-Íshafsins og hugsanlega stórauknu vægi og verðmæti landsins og auðlinda þess, og ég held að við verðum að fara að taka þetta alvarlega fyrir og horfa til framtíðar.

Danir fengu fram við inngöngu í ESB þá undantekningu frá reglum ESB að útlendingar mættu ekki kaupa sumarhús að vild í Danmörku.

Við Íslendingar höfum það í lögum að útlendingar megi ekki eiga meira en 49% í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og mér sýnist í fljótu bragði að sama ætti að gilda um eignarhald á jörðum og að stefnt skuli að því að ná þessu fram, hvort sem við verðum áfram aðeins í EES eða gerum samning við ESB.

Nú held ég að sé rétta tækifærið úr því að verið er að vinna að samningi hvort eð er að taka þetta mál rækilega upp. 

Sagt er að jafnræði sé í gildi hvað þetta varðar því að við getum keypt jarðir í öðrum EES-löndum til jafns við kauprétt EES-fólks á íslenskum jörðum.

En stærðarmunur þjóðanna skekkir myndina, því að augljóst er að við, svo fá og smá, eigum enga möguleika á að kaupa upp heilu löndin í Evrópu, en á hinn bóginn geti meira en þúsund sinnum fjölmennari þjóðir keypt upp allar jarðir hér.

Mál Nubos gerir það aðkallandi að fara rækilega ofan í þessi mál öll með framtíðina í huga. 

Rétt verður hins vegar að vera rétt. Grímsstaðir á Fjöllum eru ekki inni í óbyggðum miðhálendisins heldur stór bújörð við hringveginn með byggða bæi á báða bóga, þótt byggðin sé dreifð og liggi nokkuð hátt yfir sjó. 

Grímsstaðir eru ekki stærsta jörð á Íslandi heldur Reykjahlíð í Mývatnssveit sem býr auk þess yfir margfalt meiri auðlindum auk náttúruverðmæta sem vart er hægt að meta til fjár. 

Lágreist lúxushótel á Grímsstöðum í stíl við Hótel Rangá og rétt við hringveginn og aðra byggð, þarf ekki að valda stórfelldri sjónrænni röskun. 

En aðalatriðið er þetta: Við eigum ekki að haga málum þannig að einn góðan veðurdag vakni Íslendingar upp við það að fjársterkir útlendingar, eða stofnanir og fyrirtæki, innlend og erlend, hafi eignast mestallt jarðnæði á Íslandi, heilu dalina og sveitirnar. 

Engin þörf er fyrir þá sem vilja fjárfesta í uppbyggingu á Íslandi að eignast stærstu bújarðir landsins. 

Huang Nubo hlýtur að geta byggt upp sína fyrirhuguðu starfsemi á Grímsstöðum á Fjöllum án þess að eignast alla jörðina eða meirihluta í henni.

Tryggja þarf að góður meirihluti jarðarinnar, sem gæti þess vegna verið sameign Nubos og íslenska ríkisins, sé í íslenskri eigu.

Tryggja þarf ennfremur í lögum að sveitarfélög eigi forkaupsrétt í svona tilfellum og að mat á verðmæti jarða sé ekki spennt upp með sýndargerningum, heldur virði þeirra metið á sanngjarnan og óvilhallan hátt. 

Jafnframt ætti ekkert að vera á móti því að semja um það, hvernig Nubo geti fjárfest í nýrri starfsemi sem heyrir undir íslensk lög, svo sem skipulagslög, sem tryggja að skynsamlega sé staðið að málum í samræmi við hag íslensku þjóðarinnar.  

Það er að mörgu að hyggja og þarf að drífa í því að gera það nú, því nú er rétti tíminn til þess.  

 


mbl.is Olnbogar sig ekki áfram á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framfarir byggðar á reynslunni.

Athyglisvert er að heyra vettvangsstjóra Landsbjargar segja frá því hvernig björgunarsveitarmenn hafa lært af fyrri slysum á borð við hvarf sænska ferðamannsins á Sólheimajökli.

Hið liðna verður aldrei aftur tekið en hægt að nota reynsluna til að auka árangur í framtíðinni.

Mörgum spurningum varðandi hvarf Svíans verður aldrei svarað. Allir hafa villst oftar en einu sinni á ævinni en afleiðingarnar orðið misjafnar. 

Ef Svíinn ætlaði að fara að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi var hann á kolrangri leið því að aðstæður og búnaður hans voru fjarri því að leyfa það. 

Eitt af því sem má athuga í því efni er að eftir að gosstöðvarnar urðu vinsæll ferðamannastaður sé það athugandi að setja upp vegaskilti á leiðinni frá hringveginum upp á hálsinn, sem vísi fólki leið. 

Auðvitað er hægt að segja að allir sem þangað vilja fara eigi að kynna sér leiðina vel á korti eða úr bæklingum en ítarleg vegamerking getur þó aldrei orðið til annars en bóta og er æskileg þjónusta við vegfarendur. 

Ég hef áður fjallað um það fyrirbæri að á löngum köflum á hringveginum frá Norðurárdal til Blönduóss eru vegaskilti sem tilgreina hve langt sé til Hvammstanga en greina ekki frá neinu öðru. 

Staðarskáli er eðlilegt og þekkt viðmið fyrir alla vegfarendur á 150 kílómetra kafla frá Baulunni í Borgarfirði til Blönduóss og það myndi skipta meira en 90% vegfarenda meira máli að vita hve langt er þangað heldur en að vita hve langt er til Hvammstanga. 

Ég er ekki að segja að það eigi að taka Hvammstangaskiltin niður heldur að bæta fleirum við. 

Einhver kann að segja að með því að koma upp Staðarskálaskilti sé verið að mismuna þeim áningarstað og Víðigerði, sem er nær miðri leið milli Reykjavíkur og Akureyrar en Staðarskáli er. 

En það er ekki aðeins stærðarmunur á þessum áningarstöðum, sem skiptir máli, heldur eru vegamót á milli landsfjórðunga rétt við Staðarskála sem veita honum sérstöðu. 

Því fé sem veitt er til vegamerkinga og upplýsinga er vel varið, öllum til hagsbóta og eykur öryggi. 


mbl.is Eitt stærsta verkefni síðari ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðnætti: Vel á þriðja hundrað umsagnir.

Undanfarnar vikur hefur áhugafólk á vegum 13 náttúrverndarsamtaka unnið griðarlegt verk víða um land í frístundum sínum við að veita viðnám gegn því flóði umsagna í ætt við umsögn Orkuveitu Reykjavíkur og miðuðu að því að koma þeim svæðum úr verndarflokki, sem eru í drögum að þingsályktun.

Þegar þessi orð eru rituð var fresturinn að renna út og það eru margir sem mun dæsa af miklum feginleik eftir harða vinnu.

Notuð var ný tölvutækni við þetta umsagnarferli og er hvort tveggja, samskipta-og tölvutæknin og umsagnarferlið um margt tímamótaverk. .

Ég hvet alla sem það geta til að kynna sér sem flestar umsagnirnar því að í þeim er að finna margar mikilvægar og oft nýjar upplýsingar og gagnleg skoðanaskipti.

Kannski hafa einhverjir tekið eftir því að umsögn, sem ég vann fyrir Framtíðarlandið um Kröflusvæðið og Gjástykki sem eru ein landslagsheild, og er númer 191, var áður búin að koma tvisvar inn með númerunum 70 og 113 í gærkvöldi og í dag, en ég varð að biðja um að fjarlægja þær vegna þess að tæknin réði ekki við myndirnar sem voru sem fylgiskjöl en skipta öllu máli þegar um er að ræða svæði, sem enginn hefur séð bitastæðar myndir af í fjölmiðlum.

Að lokum tókst með aðstoð tölvufróðs manns að koma þessu inn nú á tólfta tímanum en ég var búinn að eiga í tímafreku basli við þetta í gær og í dag, enda afar lélegur í tölvutækni.

Auk þessarar umsagnar tókst mér að senda inn númer 149, um Eldvörp, og 208, um Hrafnabjargavirkjun, en í ljósi erfiðleikanna vegna fjölda ljósmynda, brá ég á það ráð þar að birta link á blog.is frá 8. ágúst í fyrra þar sem var myndasyrpa af svæðinu, sem undir er.

Önnur tímamót urðu í þessu ferli, því að ekki hafa áður hafa svona mörg samtök starfað saman við verk af þessu tagi svo að ég viti til, veitt hvert öðru aðstoð og nýtt kraftana vel.

Umsögnin, sem mikil vinna var lögð í, er númer 210 á listanum um innsendar umsagnir og er þar saman kominn mikill fróðleikur í umsögn og tilvísunum í gögn. 

 Stóri afraksturinn af þessari samvinnu er ein stór og viðamikil sameiginleg umsögn allra samtakanna sem birt er í órofa samstöðu þeirra. 

Þar lögðu allir sitt af mörkum og margt í útkomunni verður vafalaust fréttaefni svo sem hugmyndir um hryggjarstykki í friðun miðhálendisins þar sem jöklarnir frá Hofsjökli um Vatnajökul til Suðurjökla tengist saman í friðlandaperlu.

Þetta var afar gefandi starf sem ástæða er að óska til hamingju með.

Þegar ný tækni er reynd í fyrsta skipti má alltaf búast við erfiðleikum þegar óvænt viðfangsefni blasa við á borð við það að taka við jafn mörgum myndum og ég sendi sem fylgiskjal, eða alls 26,  en eftir alla þá margra ára vinnu sem að baki þessari einu umsögn lá, var það höfuðatriði að koma þeim loks á framfæri á heildstæðan hátt með viðeigandi útskýringum, sem þessi umsögn inniheldur.

Með því að lesa þessa umsögn og skoða myndirnar fær fólk kannski einhverja smá nasasjón af því viðfangsefni, sem tekist er á við í gerð heimildamyndarinnar "Sköpun jarðarinnar og ferðir til mars."

Til að koma ljósmyndunum yfir í tæka tíð varð að minnka gæði þeirra (upplausn) og það tókst.

Kannski get ég birt þær síðar í fullri upplausn. Ljósmyndabók?  Hver veit ?

Iðnaðarráðuneytið og starfsfólk þess og umhverfisráðuneytisins eiga þakkir skildar fyrir það að gerast brautryðjendur í samskiptatækni á borð við þá sem hér var farið af stað með. 

Reynslan nú mun koma sér vel síðar við að þróa þá undirstöðu lýðræðisins að veittar séu mikilvægar upplýsingar og gefinn aðgangur að mismunandi skoðunum.

 


mbl.is Frestur rann út á miðnætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. nóvember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband