16.11.2011 | 20:24
Land mitt, tunga og þjóð.
Ofangreind hugtök eru grunnforsenda fyrir sjálfstæði og sjálfsímynd íslenskrar þjóðar.
Án hinnar byggilegu eyju, Íslands, lifði hér ekkert fólk. "Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu" segir í upphafsgrein frumvarps Stjórnlagaráðs um náttúru Íslands og eru það orð að sönnu.
Án lands eða þjóðar væri hins vegar ekki ekki talað neitt sérstakt tungumál hér, og vegna smæðar þjóðarinnar væri vafasamt að hún hefði hlotið sjálfstæði og þá virðingu og álit í augum annarra þjóða sem tungan og ómetanleg menningarverðmæti tengd henni hafa fært henni.
Fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar gefur gildi tungunnar og dags hennar aukið vægi vegna þess hve mikinn þátt hann átti í því sem fyrsta og mesta nútímaljóðskáld, sem við höfum eignast, að lyfta íslenskri tungu til vegs og virðingar með afburða snilli sinni og valdi yfir málinu.
Stórkostleg og yfirgripsmikil nýyrðasmíð Jónasar átti ómetanlega þátt í að endurreisa tungumálið og efla viðgangs þess og vöxt.
Það má hins vegar ekki falla í skuggann að Jónas var líka brautryðjandi í því að gefa með löndum sínum með ljóðum sínum og nýyrðasmíð algerlega nýja sýn á verðmæti náttúru landsins sem einn af merkustu náttúrufræðingum þjóðarinnar.
Fæðingardagur Jónasa hefði þess vegna allt eins getað orðið dagur íslenskrar náttúru, svo samofin eru tungan og náttúran í verkum hans.
Þegar snillingurinn óf þetta saman, málsnilld sína, skáldahæfileika og þekkingu á einstæðri náttúru landins átti það ekki minni þátt í að lyfta hugum þjóðar hans upp frá eymd samtímans til hinnar víðu sýnar um endurheimt fyrri glæsileika íslensks þjóðfélags og íslenskrar menningar.
Gildi verka Jónasar fyrir þá sýn sem fólk hefur á land okkar og okkur sjálfum verður aldrei ofmetið.
Jónas og Fjölnismenn létu til sín taka í stjórnmálum sinnar tíðar svo um munaði, þótt ekki sæti Jónas á þingi, og þeir yrðu að lúta í lægra haldi í aðalbaráttumáli sínu, að endurreist Alþingi sæti á Þingvöllum.
En sá ósigur og ósigur Jónasar í baráttunni við Bakkus, þetta lyftir honum aðeins enn hærra upp, - maður undrast afköst og afrek hans á allt of stuttri ævi.
Fyrir tveimur árum reyndi ég að fanga anda dags íslenskrar tungu 16. nóvember 2009 með ljóði, sem setti móðurmálið í samhengi við land og þjóð, - og þá setti ég textann þá á bloggsíðu mína.
Ég hef aðeins lagfært ljóðið síðan. Það var gert við lag, sem ég hef aðeins einu sinni sungið, - án undirleiks, við leiði Jónasar Hallgrímssonar í Þjóðargrafreitnum í lok Þingvallagöngu í fyrrasumar.
Af því að hægt er að leita að þessum texta í leitarreitnum vinstra megin á bloggsíðu minni og detta þá niður á úrelta gerð þessa ljóðs, birti ég þessa nýju útgáfu hér svo að hin eldri sé út úr heiminum.
LAND MITT TUNGA OG ÞJÓÐ. (Með sínu lagi)
:,: Landið mitt! :,:
Á ysta norðurhjara með auðnir, dali´og fjöll
er eyjan bjarta´og kalda sem fóstrar okkur öll.
Í huga okkar ljómar hið fagra föðurland
með firði, hraun og elfur, græn engi´og fjörusand,
fossa, standbjörg, eldfjöll, -hveri´og fjörusand.
Málið mitt! Móðurmálið mitt!
Í þúsund ára sögu vort dýra móðurmál,
sem meitlar hugsun okkar er greypt í þjóðarsál.
Það geymir dýra arfinn á frægri sagnaslóð
:,: og samheldni og einingu veitir okkar þjóð :,:
:,: Þjóðin mín! :,:
Því landi jökla´og elda sem undur heita má
aldrei bregðist þjóðin sem varðveita það á!
Í ljóma góðra verka uns leggjumst við í mold
:: vort líf sé helgað þjóðinni, tungu´og feðrafold! :,:
Land mitt, tunga og þjóð !
Á Íslandi er líf okkar gegnum súrt og sætt.
Í sigrum jafnt sem mótbyr hefur það oss fætt og klætt.
Í þúsund ár skal syngja í þúsund radda óð
að þrenning ein og ástkær er land mitt, tunga´og þjóð,
já þrenning ein og órofa´ er land mitt, tunga´og þjóð.
Landið mitt! Móðurmálið mitt! Þjóðin mín!
![]() |
Grunnskólanemendur verðlaunaðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.11.2011 | 14:32
Skiptir litlu máli á landsfundinum.
Það hefur margoft komið í ljós hjá Sjálfstæðisflokknum, sem ber sér á brjóst á tyllidögum og kveðst vera brjóstvörn lýðræðis og frelsis á Íslandi, að skoðanakannanir meðal almennings sýna allt önnur hlutföll en eru hjá flokksapparatinu, meira að segja hjá á annað þúsund landsfundarfulltrúum.
Dæmin eru mörg. Á svipuðum tíma og skoðanakönnun Gallups sýndi, að helmingur þeirra sem spurðir voru og kváðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, kvaðst vera andvígur Kárahnjúkavirkjun, þorði landsfundurinn ekki annað en að láta sér það lynda, að Ólafur F. Magnússon væri hrakinn úr ræðustóli með hrópum og köllum undir stjórn sjálfs forseta Alþingis.
Nú sýnir Gallup-könnun að 42% þeirra sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eru fylgjandi því að komið verði á fót þjóðgarði á miðhálendi Íslands en aðeins 26% andvíg.
Ólíklegt er að þetta gefi neinar vonir um að landsfundurinn muni hverfa frá harðri virkjanastefnu sinni eða stuðningi við stóriðju.
Allt frá tímum valdabaráttu félaganna Jóhanns Hafsteins og Geirs Hallgímssonar við Gunnar Thoroddsen hefur flokksmaskínan nýtt sér landsfundi og aðra flokksstarfsemi til að höfða til þess að flokkurinn standi sameinaður eins og ein fylking gegn hvers konar viðleitni til stefnubreytingar sem stimpluð hefur verið sem sundrungarstarfsemi.
Styrmir Gunnarsson, sem er sjálfstæðismaður en einarður talsmaður beinna og almennara lýðræðis, vill að allir Sjálfstæðismenn fái seturétt á fundinum og aðstöðu til að taka þátt í atkvæðagreiðslum.
Því miður er ég hræddur um að hvorki ég né Styrmir munum lifa það að flokkurinn taki undir hugmyndir af þessuj toga.
Á meðan svo er skipta skoðanakannanir meðal fólksins litlu eða engu máli á landsfundinum eða á öðrum stöðum í flokksvélinni þar sem hinar raunverulegu ákvarðanir eru teknar undir þrýstingi frá valdalöflum fjármagnsins og þeirra valdhafa sem eru stjórnmálalegur armur þess.
![]() |
Dregur saman með frambjóðendum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.11.2011 | 00:58
Norsku stafkirkjurnar gefa tóninn.
Stafkirkjurnar tvær sem ég hef skoðað í Noregi höfðu meiri áhrif á mig en allar aðrar byggingar þar í landi.
Þær hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn vegna þess að engar aðrar hliðstæðar kirkjur er að finna í Evrópu þótt í flestum löndum sé að finna margfalt stærri steinkirkjur.
Margar frægar kirkjur í Evrópu hafa verið endurbyggðar eða endurreistar frá gruni, flestar vegna þess að þær voru eyðilagðar í stríðinu. Enginn tekur til þess svo framarlega sem þær eru eins og þær voru.
Enginn efi er á því að þegar og ef þarf að endurreisa stafkirkjurnar í Noregi vegna skemmda eða aldurs, verður það gert og gildi þeirra verður ekkert minna fyrir það.
Miðaldakirkjurnar í Skálholti voru endurreistar jafnóðum og þess gerðist þörf og því enginn eðlismunur á því að endurreisa þá stærstu.
Með þvi að kynna sér ágóðann af hliðstæðum húsum erlendis ætti að vera hægt að finna út hvort og hvernig þetta borgaði sig.
Náttúru- og menningartengd ferðaþjónusta er stækkandi hluti af ferðaþjónustu. Fólk kemur ekki til Íslands af því að hér séu betri hótel og bílaleigur en í öðrum löndum, það sýna kannanir.
Sem dæmi um lítið atriði sem verður stórt fyrir erlenda ferðamenn er það, þegar komið er að gröf í Skálholti og sagt: Hér hvílir síðasti kaþólski biskupinn yfir íslenskri þjóðkirkju, og synir hans.
Það finnst erlendum ferðamönnum stórmerkilegt og svara einatt: "Það getur ekki verið; kaþólskur biskup og synir hans!
Ég legg til að áður en ferðamenn framtíðarinnar skoði komandi miðaldakirkju verði þeir fyrst látnir skoða grafir Jóns Arasonar og sona hans. Eftir það muni þeir trúa nánast hverju sem er.
P. S. Athugasemd að fenginni ábendingu í athugsasemd.
Hér skriplaði ég á skötunni og ruglaði saman biskupssetrumm.
Jón og synir hans eru grafnir á Hólum.
Hins vegar er það rétta varðandi Skálholt að þar hvá erlendir ferðamenn þegar þeim er sagt frá aftöku Jóns Arasonar og sona hans, og hef ég ekki ómerkari mann fyrir þessu en Ólaf Sigurðsson, fréttamann, en bæði faðir hans, Sigurður Pálsson, og síðar bróðir hans, Sigurður, voru vígslubiskupar í Skálholtsbiskupsdæmi.
Og ekki ætti undrun erlendra ferðamanna að verða minni við grafirnar á Hólum.
![]() |
Miðaldakirkja rísi í Skálholti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 17.11.2011 kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)