Af hverju Indónesía, Eþíópía og Ísland ?

Eþíópíubúar eru meðal fátækustu og vanþróuðustu þjóða heims.  Þeir eru 200 sinnum fleiri en við en með álíka stórt hagkerfi.

Landið býr yfir mikilli vatnsorku og jafnvel jarðvarma en hryggjarstykki þjóðfélagsins eru ótal strákofaþorp þar sem reykirnar stíga upp um þökin, því að þjóðin er í fátæktargildru og nýtur ekki trausts vegna lélegs stjórnarfars. Sultur er landlægur á stórum svæðum. 

Aðeins eru innan við tíu litlar flugvélar í þessu víðlenda landi. Í borginni Arba Minch stendur stór flugvöllur með stórri mannlausri marmaraflugstöð en aðeins ein flugvél lendir þar á dag. 

Í landinu er einræði stjórnar sem hefur hag að því að vera þæg við Bandaríkin og fá þaðan hernaðaraðstoð til að lemja á ræningjum og uppreisnarseggjum í nágrannalandinu Sómalíu ef það þykir ógnun við "stöðugleika" í Eþíópíu. 

Á einu sviði standa Eþíópíubúar þó jafnfætis öðrum þjóðum. Flugfélag Eþíópíu er þjóðarstolt þessarar merkilegu þjóðar, sem tók kristni 700 árum á undan Íslendingum, þótt trúarbrögðin sé blandaðri nú.

Flugfélagið, þotur þess og alþjóðlegur rekstur og flugvöllurinn og flugstöðin í Addis Ababa standast allar þær hörðu samkeppniskröfur, sem gerðar eru í nútíma farþegaflugi.

Sú var tíðin að eitt helsta flaggskip Íslendinga og þjóðarstolt Íslendinga var flugfélagið Loftleiðir og síðar Icelandair. 

Umsvif, árnangur og orðstír voru miklu meiri en búast hefði mátt við hjá slíkri örþjóð sem við erum. 

Umsvif Indónesíu í flugmálum eru ævintýraleg og í jafn mikilli mótsögn við þjóðfélagsgerðina þar og í Eþíópíu. 

Ofantalin þrjú dæmi sýna að flugið getur opnað glugga fyrir þjóðir sem ekki eiga þess kost að opna marga aðra glugga til þess að komast á bekk með þeim þjóðum sem lengst hafa náð, ýmist vegna fátæktar eða smæðar. 

Það er líklega vegna þess að flugið er eitthvert alþjóðlegasta fyrirbrigði sem hugsast getur, og möguleikarnir ótrúlegir á öld nets og samskiptatækni. 

Íslenskt dæmi um það var flugfélagið Atlanta sem í byrjun var rekið úr eldhúskróki í Mosfellsbæ þar sem bókhaldið var stundum innan um uppvaskið! 


mbl.is Stærsta pöntun sögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðum að lifa með Hörpu.

Ég sá núna um daginn Hörpu í fyrsta sinn í rökkrinu með lýsingunni góðu. Það var rosalega flott að sjá og allt annað en floppið þegar kveikt var á henni í fyrst sinn.

Húsið er magnað og gæti þess vegna verið aðalhúsið í milljónaborg hvar sem er í heiminum. 

En það er einmitt meinið. Alveg eins og bankahallirnar, sem hér risu og ráðgert var að reisa í framhaldinu áttu að getað sómt sér í hverri af helstu fjármálaborgum heimsins. 

Harpa hefði líka getað verið með geðveikislega flotta lýsingu, hannaða af einum af fremstu listamönnum heims, án þess að vera svona rosalega stór og dýr. 

Hún hefði getað gert það sama og Ólafshöllin í Þrándheimi, sem býður upp á alla möguleika á flutningi og nautn hvers kyns tónlistar og Harpa og er meira að segja með alla tilskilda aðstöðu til óperuflutnings, sem Harpa er ekki með. 

Harpa ásamt Höfðatorgi og álíka framkvæmdum í 2002-2007-andanum verða minnismerki um ris og hrun græðgisæðisins, sem einn af erlendu fyrirlesurunum á nýlegu málþingi um fyrirbærið lýsti sem mestu múggeggjun, sem orðið hefði í vestrænum samfélögum í áratugi. 

En við verðum að lifa með Hörpu og gera eins gott úr henni og við getum.

Við verðum líka að lifa með Höfðatorgi og öllu hinu, sem fylgdi dansinum í kringum gullkálfinn, sem sprakk og reyndist hafa verið pappírskálfur. 

Hún og allt hitt eiga eftir að hlíta lýsingunni "botnlaus hít" sem við og næstu kynslóðir verðum að moka í  svo lengi sem þessi minnismerki eiga eftir að standa. 

Það verður á kostnað listarinnar og listsköpunarinnar, því miður, því að hægt hefði verið að reisa mun minni, ódýrari og jafn fallega Hörpu, sem ekki sogaði til sín svo stóran hluta af því fé sem fer í listir og menningu. 

 


mbl.is Harpa botnlaus hít
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhver fleiri "ný verðmæti" ?

Ég hef ekki séð alla setningarræðu Bjarna Benediktssonar en þeir fjölmiðlar, sem fjalla um hana þessa stundina stökkva allir á setninguna: "Verðum að skapa ný verðmæti".

Á meðan ég sé ekki önnur "ný verðmæti" nefnd er kannski rétt að skoða nánar þetta "nýja" bjargráð Sjálfstæðisflokksins. 

"Nýju verðmætin" felast í meiri orkusölu, segir formaðurinn, væntanlega til fleiri álvera, og kemur mér á óvart að stóriðjustefna Sjálfstæðisflokksins feli eitthvað nýtt í sér.

Hún hefur verið alveg óbreytt í bráðum hálfa öld og upp á síðkastið er "hin nýja sýn" versnað ef eitthvað er.

Henni var fylgt eftir af vaxandi þunga af "Davíð Oddssyni, farsælasta forsætisráðherra síðari tíma", svo að notuð séu orð núverandi formanns. 

Þessi ábyrgðarlausa græðgisstefna á kostnað verðmæta framtíðarinnar náði nýjum hæðum með tvöföldun stóriðjunnar á örfáum árum með þeirri framtíðarsýn að hún yrði minnst fjórfölduð á sem skemmstum tíma.

Græðgisstefnan fólst í því að margfalda stóriðjuna og bankakerfið og leiddi að vísu til Hrunsins mikla í boði stefnu "farsælasta forsætisráðherra siðari tíma" en það er algert aukaatriði. 

Það er líka aukaatriði að jafnvel þótt allar helstu náttúruperlur landsins verði virkjaðar fyrir stóriðjuna mun það aðeins skapa 2% vinnuaflsins atvinnu, og jafnvel þótt talin séu með öll möguleg "afleidd störf" getur þessi tala ekki farið hærra en í 8%. 

Einnig er aukaatriði að með því að halda áfram þeirri ágengu orkuvinnslu, sem vísindamenn reikna með með að klári jarðvarmaforða landsins á 50 árum, rænir núlifandi kynslóð þessum verðmætum frá komandi kynslóðum og gengur freklega gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga um sjálfbæra þróun. 

Það er algert aukaatriði í augum formannsins að við ljúgum að okkur og öllum öðrum að þetta sé "græn, hrein og endurnýjanleg orka."  

Í skoðanakönnun um hug fólks til þjóðgarðs á miðhálendinu kom í ljós að meira en 40% þeirra, sem spurðir voru og töldu sig jafnframt myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, voru hlynntir þjóðgarði en aðeins 26% á móti. 

Þess má geta að tugir vikjanakosta eru enn í pottinum á miðhálendinu þannig að þjóðgarður sem tengdi t.d. saman Hofsjökul, Kerlingarfjöll, Þjórsárverafriðland, norðanverðan Sprengisand, Vatnajökul og Suðurjökla um Friðland að Fjallabaki, myndi koma mörgum af þessum hugmyndum í verndarflokk, sem ég vil reyndar kalla verndarnýtingarflokk. 

Jafnvel þótt menn myndu segja að ekki megi draga of miklar ályktanir af svörunum í þessari skoðanakönnun er ljóst, að hinir almennu stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir eru ekki á sama róli og virkjanafíklarnir.

Eitt er þó hægt að segja þeim stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins til tekna, sem fram komu í þessari skoðanakönnun.

Annar flokkur, Framsóknarflokkurinn, virðist samkvæmt þessari könnun minna hlynntari friðun og meira virkjana- og stóriðjusinnaður. 

Myndi Eysteinn heitinn Jónsson, sá mikli áhugamaður um náttúruvernd, líklega láta segja sér það þrisvar ef hann væri ofar moldu. 

Og fróðlegt væri að vita hvað Birgir Kjaran heitinn hefði haft um hin "nýju verðmæti", les stóriðjustefna, að segja ef hann hefði verið ofar moldu og heyrt tóninn í núverandi formanni flokksins, sem ber sama nafn og forsætisráðherra Birgis á hans tíð.  

 

 

 


mbl.is Verðum að skapa ný verðmæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skítt með sjúklingana ?

Ekki hafa enn verið færð rök fyrir því að það sé betra fyrir sjúklingana, sem hafa verið að Sogni, að þeir séu þar hendur en á Kleppi.

Þvert á móti er það álit þeirra, sem ættu að þekkja best til þessara mála, að það sé betra fyrir þá að vera á Réttargeðdeild á Kleppsspítala. 

Hér er ekki aðeins um að ræða lækna og sjúkrahúsfólk, sem annast þessa sjúklinga, heldur einnig samtök og einstaklinga, sem láta sig málefni geðsjúkra varða,svo sem Geðhjálp. 

Erfitt er að ganga fram hjá jafn einróma áliti og komið hefur fram hjá þessu fólki sem bæði vegna starfskyldna sinna og tengsla við sjúklingana ætti að vita hvað það er að segja. 

Ef í ofanálag sparast peningar innan heilbrigðiskerfisins vegna flutningsins þegar til lengri tíma er litið ætti það að koma til góða kerfinu í heild og þeim sem þurfa á þjónustu þess að halda. 

Á sínum tíma mótmæltu heimamenn því harðlega þegar heilbrigðisyfirvöld þess tíma töldu sig tilneydd að hafa Réttargeðdeildina að Sogni vegna sérkennilegs andófs ráðamanna á Kleppi, sem ekki náðist samstarf við. Sá tími er löngu liðinn. 

Þess vegna er svolítið skondið að aftur skuli mótmælt þegar létta á af heimamönnum því oki sem þeir mótmæltu fyrir næstum 20 árum. 

Rétt er þó að taka það fram að mótmælin nú eru á rökum reist hvað varðar hagsmuni heimamanna og sýna að mótmælin fyrir 20 árum voru á misskilningi byggð.

Mótmælin nú væru réttmæt ef ekkert sparaðist við flutninginn og um væri að ræða flutning á dauðum hlutum. 

En sjúklingar eru lifandi fólk og sé það rétt að það sé betra fyrir það að vera á geðdeild á Kleppsspítala en austur í Ölfusi, og að þar að auki felist í því sparnaður, væru það svik við sjúklinga og tilgang heilbrigðiskerfisins að láta byggðasjónarmið ein ráða. 

Síðan bætist það við að í nútíma samfélagi er svæðið vestan frá Borgarfirði austur að Þjórsá orðið eitt atvinnusvæði sem fellur ekki lengur undir skilgreininguna "landsbyggð" eða dreifbýli. 


mbl.is Mótmæla lokun Sogns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. nóvember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband