Kemur öllum lýðræðisþjóðum við.

Rússland á að baki langa sögu einræðis og kúgunar. Kannski var stjórnarfarið fyrr á öldum ekki mikið verra en annars staðar í Evrópu einvaldskonunga og sífelldra styrjalda.

En lýðræðisþróunin í vestanverðri Evrópu fór alveg fram hjá þessari fjölmennustu þjóð álfunnar, því að alræði Bolshevíka- og síðan kommúnistaflokks þeirra Lenins, Stalíns og arftaka þeirra var ekkert skárra en alræði keisaranna á undan þeim. 

Raunar má segja að offors Stalíns hafi drepið að minnsta kosti tíu milljónir manna en líklega talsvert fleiri. 

Stalín gerði líka gróf mistök fyrsta hálfa ár stríðsins við Þjóðverja, þar sem hundruðum þúsund mannslífa var fórnað að óþörfu, en slíkt er oftast ekki fært beint á afbrotareikning harðstjóra. 

Hann og hershöfðingjar hans bættu það að hluta til upp þegar leið á styrjöldina og Hitler hélt áfram að gera sín axarsköft. 

Vonir Gorbatsjofs um frjálslyndan og lýðræðissinnaðan kommúnistaflokk voru andvana fæddar og í kjölfarið kom óreiða Jeltsíntímabilsins sem ekki sér fyrir endann á hvað varðar spillinguna, sem aldrei virðist ætla að minnka hjá þessari hrjáðu þjóð. 

Það, hvað kommúnistaflokkurinn fær mikið fylgi sýnir að eitthvað verulega mikið er að hjá hinum flokkunum. Bæði í Rússlandi og í Austur-Þýskalandi sýndu skoðanakannanir að furðu stór hluti þjóðanna saknaði þess öryggis, sem að hluta til var einkenni hinna stöðnuðu og hrörnandi þjóðfélaga. 

Það er svo sem ekkert óvanalegt að það kosti langvinnar fæðingarhríðir og barnasjúkdóma að stökkva úr aldagamalli harðstjórn yfir í vestrænt lýðræði og Rússar eru enn komnir frekar skammt á veg á þeirri þrautagöngu.

Ef heimskreppa er að skella yfir mun það geta haft áhrif þarna austur frá til hins verra rétt eins og gerðist í Þýskalandi í heimskreppunni. Enginn veit hvort einhver rússneskur Hitler eigi eftir að spretta upp og sækja inn í valdatóm, sem skapast ef völd og áhrif Pútíns dvína og hann missir stjórn á atburðarásinni. 

Þróunin í Rússlandi kemur öllum lýðræðisþjóðum við, einkum Evrópuþjóðum, sem hafa átt sér þann draum að sjá myndast samfelldan hóp lýðræðisríkja sem nái allt frá Atlantshafi yfir endilanga Evrasíu til Kyrrahafsins. 

 


mbl.is Gríðarlegur fjöldi mótmælenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir óþægilega á 1929 - 1930.

Við lifum á tímum vaxandi óvissu, samdráttar og óróa og óþægilega margt minnir á upphaf heimskreppunnar miklu sem hófst síðla haust 1929 og stóð fram að heimsstyrjöldinni síðari og varð reyndar öllu dýpst hér á landi 1939.

Við sjáum á þessum drottinsdegi, 10. desember, vaxandi óróa í Rússlandi, vanmáttug viðbrögð leiðtoga Evrópu við aðsteðjandi háska og síðast, en í raun og veru ekki síst, vanmátt leiðtoga Bandaríkjanna til að takast á við efnahagslega banvænan fjárlagahalla þar í landi.

Ofan á allt er ekki vitað hvenær allt getur farið í bál og brand í Miðausturlöndum ef Íranir sýna kjarnorkuvígtennur. 

Að vísu vita menn miklu meira núna en 1930 um eðli efnahagsmála og hagstjórnaraðferðir, en samt er allt of margt á huldu um þá flóknu atburðarás sem getur farið af stað ef bankahrun verður í Evrópu. 

Þá er hætt við að litlu geti skipt hvar menn eru staddir í heiminum því að efnahagskerfi heimsins er samofið um allar heimsálfur og öldurnar frá hruni í Evrópu fara um allan heim, líka til Íslands um okkar bankakerfi og efnahagslíf, og valda miklum usla ef allt fer á versta veg.

 


mbl.is ,,Það brakar og brestur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband