17.12.2011 | 21:09
Kanarnir voru tæpir 1960 og 2000.
Nokkuð almenn virðist sú skoðun að kosningasvindl hafi verið stundað í rússnesku þingkosningunum en helst deilt um hve stórfellt kosningamisferlið hafi verið.
Stundi skiptir það ekki öllu máli hvað snertir úrslitin, hve stórfelld svindlið er, heldur hitt hve afdrifaríkarnar afleiðingarnar verða.
Tvívegis voru úrslit í bandarískum forsetakosningum svo tvísýn, þegar upp komu ásakanir um kosningasvindl, að tiltölulega örfá atkvæði gátu ráðið úrslitum.
1960 var munurinn á Kennedy og Nixon aðeins 0,2% í Illinois þar sem einhver valdamesti borgarstjóri í sögu Bandaríkjanna, Richard Daley í stórborginni Chicago, þótti vera í vafasömu sambandi við glæpasamtök og bralla ýmislegt vafasamt.
Daley var eindreginn stuðningsmaður Kennedys og voru uppi háværar raddir um að hann hafi hnikað hinum afar tvísýnu úrslitum nægilega mikið til svo að Kennedy ynni afar tæpan sigur.
Annar gríðarlega valdamikill maður, Lyndon B. Johnson, var líka grunaður um að hafa neytt bragða í hinu fjölmenna ríki Texas til þess að Kennedy ynni þar afar nauman sigur.
Víða voru úrslit mjög tvísýn og má sem dæmi nefna að á Hawai snerust afar tvísýn úrslit Kennedy í vil við endurtalningu.
Mjög var þrýst á Nixon að láta endurtelja og fara ofan í kjölinn á þessum ásökunum, en þremur dögum eftir kosningarnar ákvað hann að láta kyrrt liggja.
Enn muna menn hinar ákaflegu tvísýnu forsetakosningar 2000 þegar Bush marði sigur og fékk þó færri atkvæði í heild heldur en Al Gore.
Farsinn í kringum kosningarnar á Florida þar sem Jeff Bush, ríkisstjóri, bróðir Bush lék stórt hlutverk, er enn í minni og varpaði skugga á sigur Bush og bandarískt lýðræði.
Þessi meintu kosningasvik voru að umfangi að vísu margfalt minni en hin rússnesku, aðeins brot, en engu að síður gátu þau hafa verið afdrifarík, - en það sannaðist aldrei.
![]() |
Medvedev hefur engar áhyggjur af gagnrýni Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.12.2011 | 19:08
Of seint? Offramboð ?
Ekki er greint frá því hvers vegna tónleikum Kristjáns Jóhannssonar hefur verið aflýst, hvort það hafi verið vegna óvæntra atvika, veikinda eða af öðrum tæknilegum ástæðum, en hafi það verið vegna ónógrar sölu aðgöngumiða má vel finna eðlilega skýringu á því, sem sé þá, að á aðventu þar sem framboð á slíku hefur slegið öll met.
Þegar svo er, er hætta á því að þegar nær dregur jólum verði um offramboð að ræða, einkum þegar búið er að vera að selja á aðra tónleika mánuðum saman.
Strax í september var byrjað að selja miða á tónleika Frostrósa og tónleika Björgvins Halldórssonar og í gangi var mjög vel skipulögð auglýsingaherferð.
Sennilega hefur aldrei verið eins mikið um stóra hljómleika á aðventunni og nú.
Í gangi voru allir fyrirséðu árlegu tónleikarnir, - Bubbi, KK og Ellen, Sigga Beinteins, Helga Möller að ógleymdum öllum reglubundni aðventukvöldum í kirkjunum, - allt vel kynnt og auglýst fyrirfram.
Síðan kom sumt fram sem alger viðbót við það sem fyrirfram var vitað, svo sem tónleikar þeirra Jógvans og Friðriks Ómars til styrktar Færeyingum, sem fengu góða aðsókn, enda mjög vel að þeim staðið og ekki síður það að launa Færeyingum stuðning þeirra við okkur í Hruninu á myndarlegan hátt.
Mér skilst að tilkoma Hörpunnar með sína stóru sali hafi litlu breytt fyrir tónleikasali eins og Háskólabíó þannig að aðsóknin í heild virðist vaxa í kreppunni, kirkjur og samkomuhús fullsetin dag eftir dag og helgi eftir helgi.
Ein einhvers staðar hljóta mörkin þó að liggja hvað varðar framboð og eftirspurn og erfitt að koma nýr inn og það heldur seint.
En allt um það þarf mikið til að bæta ofan á það sívaxandi framboð á tónleikum sem er á aðventunni.
Þótt Elena Mosuc sé afburða söngkona sem hefði heillað alla upp úr skónum í Hallgrímskirkju, er nafn hennar lítt þekkt meðal almennings hér en allir eru búnir að vita frá því snemma í haust hvaða þekktir innlendir og erlendir flytjendur yrðu í boði hjá Frostrósum og á Jólatónleikum Björgvins.
Vonandi lætur Kristján Jóhannsson ekki þetta eina atvik hafa letjandi áhrif á það góða starf sem hann er að vinna hér á landi í þágu íslensks menningarlífs.
Það væri ekki anda Konnaranna.
![]() |
Tónleikum Kristjáns Jóhannssonar aflýst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.12.2011 | 12:15
Loksins, eftir 161 ár! Þekki svipað sjálfur.
Það var eðlilegt árið 1840 að kvittur um sárasótt kæmi upp vegna veikinda Jóns Sigurðssonar þegar læknisfræðiþekking þess tíma er höfð í huga.
Þegar loksins nú er þessi kvittur kveðinn niður má það furðu gegna hve lífseigur hann hefur verið miðað við það að vitneskjan um aðra og sennilegri orsakir veikindanna í ljósi betri læknisfræðilegrar tækni hefur verið fyrir hendi um áratuga skeið.
Það vill svo til að ég veit um dæmi þess, að meira að segja á síðustu tímum hafi að minnsta kosti eitt svipað tilfelli átt sér stað. Ástæðan er einfaldlega sú að ég átti sjálfur í hlut.
Sumarið 1992 kom í ljós hnúður við nára hjá mér sem læknum virtist geta verið æxli. Var ég því snarlega fluttur á spítala og skorinn upp.
Í ljós kom að greiningin var röng. Ekkert æxli kom í ljós heldur var aðeins um bólgu að ræða á mjög afmörkuðu og litlu svæði. Skurðinum var því lokað og hafin árangursrík meðferð með sýklalyfjum.
Gilda hér ekki aðeins orð Ara fróða um að jafnan skuli hafa það er sannara reynist, heldur ætti einnig að gilda, að leiki vafi á um mál, sé hann túlkaður hlutaðeigandi í vil (in dubio pro reo), ekki hvað síst ef hin skárri möguleiki er mun sennilegri og betri fyrir aðilann en hinn verri og ólíklegri.
![]() |
Var Jón þá ekki með sárasótt? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)