Dýrmæt og dásamleg menningarhefð.

Nú, þegar jólahátíðin er gengin í garð, er það ánægjulegt íhugunarefni hvernig íslensk þjóð hefur spilað úr því að lífga upp á þann tíma ársins þegar myrkur og kuldi ríkja hér á landi og veður eru verst og vályndust.

Mestu skiptir hátíðleiki og friður jóladaganna með boðskap kristilegs kærleika en einnig er athyglisvert hvernig þær sjö vikur, sem líða frá upphafi aðventu fram á þrettándann, eru nýttarhér á landi til að kveikja birtu og yl ytra og innra og huga að andlegum verðmætum. 

Tæpan mánuð af þessum tíma er dögunum raðað niður á jólasveinana þrettán, fyrst þrettán dagar sem þeir eru að tínast til byggða og síðan aðrir þrettán dagar sem þeir eru að tínast til fjalla á ný. 

Inn í þetta koma áramótin með almennustu flugeldasýningu veraldar, álfum, tröllum, álfabrennum og jólatrésskemmtunum í bak og fyrir.

Þótt þessar skemmtanir sé ekki eins margar og stórar og áður var hefur dagskrá fjölmiðlanna gert miklu meira en að bæta það upp. 

Það er athyglisvert að enda þótt mér teljist til að um fjórar milljónir manna eigi heima í byggðum Norður-Evrópu sem liggja jafn norðarlega eða norðar en Ísland, hefur hvergi myndast eins fjölbreytt og gjöful menningarhefð um fagnaðarerindi og gleðigjafa vetrarhátíðanna og hér á landi.

Auk Jesúbarnsins og sögunnar hugljúfu af því og boðskap jólanna, hefur myndast fjölskrúðug flóra sagnanna um jólasveinana, Grýlu, Leppalúða, álfana og tröllin sem er óendanlegur brunnur fyrir listamenn, -skáld, myndlistarmenn og tónlistarmenn, tónskáld, textahöfunda, kórana alla og hljómsveitir á borð við Baggalút.

Gleðilega jólahátíð! 

 


mbl.is Kertasníkir í Þjóðminjasafninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband