Ekki sama að fara upp eða niður.

Í hverfinu þar sem ég á heima, er halli á flestum götum þannig að ekið er upp eða niður. Svona háttar til um marga "botnlanga", aðkeyrslur og stæði í borginni.

Ég hef þurft að vera talsvert á ferðinni í dag og hef ekki lengur tölu á þeim bílum, sem ég hef kippt í.

Flestir bílstjórarnir gera sömu mistökin, svipuð þeim sem ég hef séð hér fyrir utan blokkina sem ég bý í.  (Sjá P.S. hér fyrir neðan sem útskýrir myndina, sem ég hef sett sem viðbót inn á bloggið)

Þeir koma að aflíðandi brekku í nokkurs konar botnlanga niður með blokkinni og ættu reyndar að geta séð það strax að mjög hæpið er að þeir komist niður hana.  Og gleyma því að ef þeir taka áhættuna á því að böðlast niður eftir verður miklu erfiðara að komast upp eftir til baka.

Samt "láta þeir á það reyna" að íslenskum sið og fara af stað en sjá ekki fyrr en um seinan að þeir geta ekki snúið við og þaðan af síður bakkað til baka.

Einn var á voldugum Benz og af því að hann er afturdrifinn er slíkur bíll gersamlega vonlaus ef á að bakka honum upp brekku sem hann átti hvort eð er erfitt með að fara niður.

Framendinn á svona bílum er þyngri en afturendinn og þyngist enn meira miðað við afturendann ef farið er niður brekku.

Annar var á BMW sem líka er afturdrifinn og kemst lítið ef bakkað er upp brekku.

Í dag sá ég einn framdrifinn sem var að reyna að komast áfram upp brekku og spólaði, enda fullur af fólki, og þá verður slíkur bíll jafnvel þyngri að aftan en framan auk þungans sem sest á afturhjólin vegna bratta götunnar.

Í mörgum tilfellum loka þessir bílar leiðinni, vegna þess að ruðningar liggja þétt að henni.

Ein spurning vaknar: Skyldi nokkur ökukennari kenna þetta atriði?

Reglan gæti hljóðað svona:

Forðastu að lenda í sjálfheldu. Ekki aka í tvísýnu færi niður í móti ef þú þarft að aka aftur til baka.

Eða:

Þú átt meiri möguleika að reyna fyrir þér upp í móti en niður í móti því að það er auðveldara að bakka út úr vandræðunum til baka undan halla en á móti halla.  PC300016

 

P. S.  Og sem ég er að setja þessa færslu inn og lít út um gluggann um miðnættið, hefur nákvæmlega þetta ofanskráða gerst á afar óheppilegum stað fyrir mig eins og sést á myndinni sem ég var að taka af þessu.

Gráa bílnum var ekið undan hallanum niður með blokkinni en þegar hann er búinn (áreiðanlega með mestu herkjum´) að snúa honum við til að aka upp eftir aftur, bakkar hann bílnum að Lödunni minni og pikkfestist þar.

Þar með er hann búinn að loka minn bíl inni uppi við bílskúrinn, farinn burtu og skilur bílinn eftir þannig að Ladan er aðþrengd á bak við hann.

Annað hvort hefur hann gefist alveg upp og ætlar að sækja bílinn á morgun eða hann er í heimsókn einhvers staðar í blokkinni, í einhverri af 16 íbúðum við tvo stigaganga.

Af því að spáð er austan hríð í fyrramálið ákvað ég að stökkva út og reyna að smokra Lödunni út úr ógöngunum við bílskúrshurðina meðn veður og snjóalög væru skapleg.

Var nefnilega búinn að moka allt of mikinn snjó í dag miðað við slæmt bak og er búinn með kvótann að því leyti og hugsanlega meira en það (vonandi þó ekki).  Forðast því snjómokstur á morgun og nota bílinn til að þjappa og búa til heppuleg för.  

Þegár mér hafði tekist að smokra Lödunni í betri stöðu, kom hins vegar bílstjórinn ásamt farþegum sínum út úr íbúð hinum megin í blokkinn, og þar með var hægt að leysa þetta mál.

Við bættist enn einn drátturinn, svona aukalega rétt fyrir svefninn, (bíldráttur að sjálfsögðu), að draga þennan bíl upp úr botnlanganum og á auðan sjó.


mbl.is Taka daginn snemma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á styrkingu stjórnarinnar 1989.

Það sem er gerast núna varðandi það að Hreyfingin gangi til liðs við ríkisstjórnina minnir um margt á það sem gerðist haustið 1989 þegar tveir þingmenn Borgaraflokksins gerðust ráðherrar í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem stóð mjög tæpt í þinginu, mun tæpar en stjórnin nú.

Þegar Steingrímur myndaði stjórn sína haustið 1988 stóð hún enn tæpar en ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens hafði gert 1980, svo tæpt, að hún gat þess vegna lent í minnihluta í öllum nefndum þingsins.

Fyrir einstaka hundaheppni unnu stjórnarliðar öll hlutkestin.

Stjórnin reiddi sig á stuðning Stefáns Valgeirssonar sem komst á þing einn síns liðs eftir að Framsóknarmenn í Norðurlandskjördæmi eystra höfðu hafnað honum á kjördæmisþingi.

Stefán átti því harma að hefna en var jafnframt í sigurvímu yfir að hafa komist á þing þrátt fyrir höfnun Framsóknarflokksins.

Sagt er að Steingrímur hafi eytt helmingnum af vinnutíma sínum í það eitt að hafa Stefán góðan, en hann var settur yfir Framkvæmdasjóð og nýtti sér stöðu sína eins og hann gat.

Haustið 1989 gat stjórnin ekki treyst á sömu hundaheppnina og árið áður og ljóst var að staðan yrði einhver hin erfiðasta sem nokkur stjórn hefði haft, jafnvel þótt Steingrímur Hermannsson væri snillingur  í að stýra stjórn og halda stjórnarliðinu saman.

Hann fann þá lausn að fá stuðning frá Borgaraflokknum, sem raunar klofnaði fyrir bragðið.

Albert Guðmundsson var gerður að sendiherra í París og Júlíus Sólnes var gerður að fyrsta umhverfisráðherra Íslands og Óli Þ. Guðbjartsson varð dómsmálaráðherra.

Þetta tryggði stjórninni vinnufrið út kjörtímabilið og stuðningur Stefáns Valgeirssonar var ekki lengur úrslitaatriði eins og verið hafði.

Ef aðeins er litið á atkvæðatölurnar á þingi er staða Hreyfingarinnar ekki eins sterk og staða Borgaraflokksins var 1989 til þess að fá ráðuneyti í sinar hendur eins og Borgaraflokkurinn fékk, því að núverandi stjórn hefur þó eins atkvæðis meirihluta á þingi en 1989 var að hálfu leyti pattstaða á þinginu vegna deildaskiptingar þess, sem þá var.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni. Málin sem nú eru nefnd sem áhugaefni Hreyfingarinnar eru henni mikilvæg og skipta miklu vegna þess að fyrir næstu kosningar verður nokkurs virði fyrir hana að geta lagt fram, hvaða árangri hún hafi náð á kjörtímabilinu.


mbl.is Í viðræðum við ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15 sentimeta snjóþekja hefur bæst við.

Snjókoman í nótt hefur verið talsvertl meiri en spáð var.  P1014220

Þegar úrkomutölur í Reykjavík eru lagðar saman koma út um 15 millimetra úrkoma samtals síðan í gær, en þumalfingursregla er að hver millimetri af úrkomu í form vatns samsvari um einum sentimetra af snjó.

15 sentimetra meðalþykkt snjólag þýðir meira en tvöfalda snjódýpt að meðaltali ef því er bætt við snjóinn sem fyrir var, eða 30 sm plús.  

Meðalhæð undir botn óhlaðinna meðalbíla er um 14 sentimetrar þannig að þetta þýðir erfiða færð fyrir meirihluta bílaflotans.

Margir svokallaðra jepplinga er lítið hærri en þetta og rauna jafn lágir ef þeir eru hlaðnir þannig að vafalaust ofmeta margir getu þeirra bíla.

Ég man ekki eftir neinum desember síðustu rúmu 60 ár þar sem hvít jörð hefur verið í Reykjavík í 29 daga af 31.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir í sínu bloggi að þegar síðast var meir snjór en nú, 1984, hafi verið tími "Subaru og Lada sport jálkanna." P1014219

Ég lifi reyndar í þessum tíma að því leyti að nú get ég gripið í 31 árs gamlan Subaru eða Lada sport, auk 26 árs gamals Suzuki Fox, sem er minnsti jöklajeppi landsins.

Mér finnst þetta bara ágætt meðan frostið er ekki meira en það hefur verið síðustu vikuna.

Úr því það er vetur hvort eð er, mega "jólin vera hvít fyrir mér" svo að tekið sé orðfæri úr vinsælum jólatexta.

 

P. S.  Nú sé ég af bloggsíðu Einars Sveinbjörnssonar að snjódýptin í Reykjavík sé 33 sm að meðaltali. Það er nokkuð nálægt því sem ég giskaði á áðan: 30 plús sm.


mbl.is Þungfært vegna fannfergis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband