3.12.2011 | 21:46
Sex ára ánægjuleg búseta á Rauðalæk.
Það var gott að vera íbúi við Rauðalæk á árunum 1966-72, á miðhæð Rauðalækjar 12.
Stærsti kosturi götunnar lá ekki í augum uppi og varð fljótlega úr sögunni.
Hann var sá, að frá Rauðalæk var hægt að aka alveg hindrunarlaust, án þess að þurfa að stansa við eitt einasta umferðarljós, alveg niður í gamla miðbæinn, en á þessum tíma voru allar helstu stofnanir og fyrirtæki borgarinnar þar.
Við hófum búskap okkar í lítilli íbúð á 12. hæð á Austurbrún 2 og söknuðum auðvitað hins stórkostlega útsýnis þegar fjölskyldan stækkaði og við urðum að flytja "niður á jörðina."
Það eina sem sást frá Rauðalæk 12. var Snæfellsjökull á milli tveggja húsa hinum megin við götuna, og bar jökulinn í ruslatunnurnar þar.
Eftirminnilegasti viðburðurinn var það að vakna við það einn morguninn að leigubílstjóri hefði verið myrtur í bíl sínum við Bugðulæk í aðeins nokkurra húsa fjarlægð.
Það var í annað sinn ævi minni sem morð var framið svo skammt frá heimili mínu, því að árið 1948 var kona stungin til bana í bragga við austurenda Stórholts þar sem bernskuheimili mitt var frá 1945.
Á efri hæð Rauðalækjar 12 bjuggu sæmdarhjónin Iðunn og Árni Kristjánsson. Þegar sjötta barn okkar og þriðja dóttir fæddist tæpu hálfu ári eftir að við fluttum þaðan á Háaleitisbraut 55 var búið að "yngja upp" með þremur nöfnum og þessi nafngift því "út í loftið" eins og kallað er.
Ég var og er afar hrifinn af íslenska foreldranafnasiðnum og vildi stuðla að viðgangi hans, meðal annars með því að við legðum okkar af mörkum til að sporna við þeirri hættu að tveggja nafna siðurinn veikti foreldranafna siðinn, þ. e. að föður/móðurnafnið félli í skuggann af millinafninu.
Þess vegna heita öll börn okkar aðeins einu nafni.
Mér fannst fornu goðanöfnin falleg og nafnið Iðunn varð því fyrir valinu á fyrstu dóttur okkar sem ekki bar ömmunafn.
Ég hef átt heima við margar götur, Lindargötu, Samtún, Stórholt, Austurbrún, Sörlaskjól, Rauðalæk, Háaleitisbraut, Sólheima og Neðstaleiti.
Lengst hef ég búið við Háaleitisbraut, en af þessum götum ber "gatan mín", Stórholtið af að öllu leyti, bæði hvað snertir húsakost og fyrstu íbúana, sem bjuggu þar og voru hreint út sagt stórbrotið fólk.
Stórholtið tengdist með lítilli þvergötu við Meðalholt og leiðin inn í vesturenda Stórholts lá um neðsta hluta Meðalholtsins inn í Stórholtið fyrstu árin, af því að Stórholtið var aflokað af hermannabröggum að vestanverðu.
Þess vegna má segja að neðsti hluti Meðalholts hafi verið hluti af Stórholtinu á þessum árum.
Ekki þarf annað en að nefna nokkur nöfn þess fólks og afkomenda þeirra, sem bjuggu á þessari götulínu til þess að varpa ljósi á það, við hvað ég á:
Pétur Pétursson þulur, Ragnheiður Ásta Pétursdóttir þulur, Bjarni Böðvarsson og Ragnar Bjarnason, tónlistarmenn, Kristján Kristjánsson og Pétur Kristjánsson, tónlistarmenn, Ámundi Ámundason umboðsmaður, Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, Helena Eyjólfsdóttir söngkona, Gunnar V. Andrésson ljósmyndari, Hafsteinn miðill, Jón Ragnarsson rallkappi, Gunnar Eyþórsson fréttamaður, Kristín Ólafsdóttir söngkona og borgarfulltrúi, Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndagerðarmaður...o. s. frv.
![]() |
Gatan mín: Falleg gata í Laugardal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.12.2011 | 15:37
Var Rudolf Hess líka geðveikur?
Mörkin milli þess að vera heill á geði eða ekki verða líklega seint dregin með einhverri ákveðinni línu.
Í kvikmyndinni Catch 22 var hæðst að því að geðveikir menn mættu ekki gegna herþjónustu en samt væri það skilyrði fyrir að taka að sér ákveðnar hernaðaraðgerðir að vera brjálaður.
Þegar Rudolf Hess, staðgengill Hitlers, tók tveggja hreyfla Messerschmitt orrustu- og sprengjuflugvél traustataki og flaug á henni yfir til Skotlands 10 maí 1941 til þess að reyna að koma á friðarviðræðum milli Breta og Þjóðverja ríkti tveggja daga þögn í Berlín um þetta vandræðamál.
Þá var gefin út yfirlýsing þar um að Hess væri ekki heill á geði og þjáðist af ofskynjunum.
Sumir töldu ólíklegt að Hess hefði einn og óstuddur getað tekið flugvélina og flogið henni, og að hann hlyti að hafa haft stuðning á bak við tjöldin til þessa leiðangurs, því að það hefði orðið mjög dýrmætt fyrir Þjóðverja að ná friði við Breta áður en þeir létu til skarar skríða gefn Sovétríkjunum sex vikum síðar.
Á hitt verður að líta að Hess var staðgengill sjálfs Hitlers og gat því leyft sér margt sem öðrum leyfðist ekki.
Miðað við margt af því sem Hitler og skósveinar hans aðhöfðust í stríðinu verður að telja að uppátæki Hess hafi verið öllu skynsamlegra en margt af því sem félagar hans í æðstu stjórn nasista gerðu, þótt mat hans á hugarfari Breta væri kolrangt.
Enginn þeirra, sem síðar stóðu frammi fyrir stríðsglæpadómstólnum í Nurnberg var dæmdur ósakhæfur og höfðu þó framið sams konar glæpi og Anders Behring Breivik.
Sumir þeirra beindust gegn saklausum almenningi eins og til dæmis dráp allra þorpsbúa í Lidice til að hefna drápsins á Heydrich.
Hugsanlega er það praktiskt séð skárra að Breivik verði vistaður tryggilaga ævilangt sem geðsjúklingur heldur en að honum verði sleppt úr fangelsi eftir að hafa tekið út hámarks fangeglsisrefsningu.
Árásin á Guernica 1937 og á Belgrad 1941 voru ekkert annað en stríðsglæpir brjálæðinga og svipað má segja um árásina á Dresden 1945 og sumar árásirnar á japanskar borgir á því ári.
Ein af aðferðum Stalíns var að loka óæskilega menn inni á geðveikrahælum. Ástæðan var likast itl sú að þegar litið væri á hina "fullkomnu" stjórnarskrá Sovétríkjanna þar sem tryggt var algert jafnrétti allra gat það ekki skoðast annað en geðveiki að bera brigður á stjórnarfarið sem þessi stjórnarskrá og lög landsins sögðu fyrir um.
Ef Helgi Pjeturs, höfundur svonefndar fjarhrifakenningar, sem sumum þótti slík fjarstæða að jaðraði við bilun, hefði komið fram með þá kenningu snemma á síðustu öld að til væru svarthol út í geimnum og að hugsanlegt væri að með því að fara inn í eitt slíkt og koma út úr því hinum megin gæti maður drepið langömmu sína, hefði hann líkast til verið talinn genginn af göflunum.
Þó man ég ekki betur en að í einum af þáttum sínum um stjörnufræði hafi Carl Sagan leikið sér að ýmsum tilgátum varðandi svartholin.
![]() |
Breivik ósáttur við greiningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)