"Árið 2012 - þá og nú",- nýr texti um spádómana 1967.

Í textanum "Árið 2012" sem gerður var fyrir 45 árum og Vilhjálmur Vilhjálmsson söng af snilld í frábærri útsetningu og hljóðfæraleik hljómsveitar Magnúsar Ingimarssonar var mörgu ótrúlegu spáð um árið 2012 en ekkert var minnst á þann möguleika að konur yrðu í meirihluta í ríkisstjórn á því ári.

Heldur ekki á þann möguleika að Jóhann, sonur Vilhjálms, hyggðist hefja söngvaraferil sinn af alvöru einmitt árið 2012 og syngja um það, hvernig spádómarnir gömlu hefðu ræst með því að fara fyrst með upprunalega textann en síðan viðbót sem sýndi hvernig ræst hefði úr því sem spáð var.

Og riðið á vaðið með Óskari Péturssyni, Gunnari Þórðarsyni og mér í Kastljósinu í kvöld, sjá link neðar á síðunni inn á klippta upptöku sem Lára Hanna Einarsdóttir sendi mér.

Textinn var upphaflega gerður fyrir stutt kántrílag, en Villi heitinn var afar hrifinn af bandarískri sveitartónlist - , og því var formið knappt, aðeins hægt að tæpa á fáum atriðum.

Lagið, sem er eftir B. Owens, bauð ekki upp á ártal með fleiri en fimm atkvæðum og 2012 var hæsta ártalið sem hægt var að nota af viti, því að næst á eftir því í tímalínunni kemur ártalið 3001.

Grunnhugsunin að baki textans var sú að 2012 yrði komin á bylting hins smáa í tölvutækninni og sjálfvirknin yfirgengileg, langt umfram það sem við gátum ímyndað okkur 1967.

Munum, að 1967 var tölvubyltingin ekki gengin í garð. Háskólinn var að fá eina tölvu sem var svo fyrirferðarmikil, að hún fyllti heilt herbergi og gat ekki leyst nema brot af því sem lítill farsími eða örtölva eða tölvukubbur gerir nú.

Maður varð því að leita að einhverju smáu, sem þá var til, til að túlka spádóminn, eins og kemur fram í hendingunni um útvarpsstjórann 2012: "....yfirmaður hans var lítill vasatransistor", -

- og:  "forsætisráðherrann var gamall IBM."  

Heildarhugsunin var sú að vinnsla mála í framtíðarþjóðfélaginu yrði kominn í sjálvirkni tækninnar: -

"...vélar unnu störfin og enginn gerði neitt."

Í seinni hluta nýju gerðarinnar er þetta afgreitt svona: "...því tölvur vinna störfin og hugsa fyrir menn"

Í nýju viðbótinni er útvarpsstjórinn afgreiddur svona: "...öllu nú i lífi´hans stjórnar snjallsíminn svo smár."

Og forsætisráðherrann svona: "...forsætisráðfrúin er spánný Macintosh."

Tölvubyltingin er nefnilega langstærsta breytingin milli 1967 og 2012. Ef allir tölvustýrðir hlutir og verkefni hættu á sama tíma í landinu, myndi þjóðlífið allt stöðvar, jafnt innan sem utan dyra.

Í textanum 1967 var gantast með það að á veitingastað yrði boðið upp á eitthvað annað en áfengi.

Þá datt manni helst í hug sprauta en árið 2012 tekur morgunstund að fara til Hollands þar sem hass er leyft.

Um fjölgun mannkynsins var því spáð að ný tækni gæti gert gömlu aðferðina úrelta: "...við notum pillur nú til dags."

En pillutæknin og aðrar fjölgunaraðferðir 2012 eru komnar fram úr spádómunum 1965 með klónun og tæknifrjóvgun.

Látum þetta nægja um nýja textann sem var fluttur í Kastljósinu og má skoða á ruv.is. Þegar ég sagði frá að eitthvað svona stæði til í haust var hvatt til þess að gert yrði myndband um málið og það hefur nú verið gert.

Myndin á síðunni er af tveimur bílum, sem voru til taks við myndbandið og voru upp á sitt besta fyrir 1967.  Þess má geta að 1967 endaði textinn svona:

"...Gömlu dagana gefðu mér, -

en sá draumur  -

og ég er ánægður með lífið eins og það er."

Svona er lagið sungið núna og hægt að bera saman spádóma og veruleika.  PC300019

Þess má geta að ég las nýlega í tæknitímariti um þann möguleika, að eftir fimmtíu ár verði komin tækni til að safna saman helíum 3 á tunglinu og flytja 100 tonn til jarðarinnar á ári, en það myndi fullnægja orkuþörf mannkynsins.  Í dag væri því hægt að spá 45 ár fram í tímann: "...Þeir tunglið höfðu sópað allt og tæmt í hólf og gólf".

Sunginn texti er feitletraður en talaður texti með grönnu letri. Flutninginn á laginu í Kastljósi í kvöld má finna hér http://www.youtube.com/watch?v=wKJxtvwYwHo

 

ÁRIÐ 2012 - ÞÁ OG NÚ. 

 

Fyrir næstum hálfri öld velti ég vöngum yfir því hvernig lífið og tilveran yrðu árið 2012 og svona hljómaði spádómurinn:

Mig dreymdi´að ég væri uppi árið 2012.

Þeir tunglið höfðu malbikað og steypt í hólf.

En veröldin var skrýtin - það var allt orðið breytt,

því vélar unnu störfin og enginn gerir neitt.

 

 

 Og ekki hafði neitt að gera útvarpsstjóri vor

þvi yfirmaður hans var lítill vasatransistor

og þingmennirnir okkar voru ei með fúlle fem,

því forsætisráðfrúin er spánný Macintosh.

 

 

Gömlu dagana gefðu mér ! 

Þá gat ég verið einn með  þér.

Nú tæknin geggjuð orðin er.

Gömlu dagana gefðu mér !

 

 

Ég álpaðist á bíó þar með ungri stúlkukind

en ekki hélt ég út að horfa´á kaboj-röntgenmynd.

Ég dapur fór á barinn og um doble bað af stút

en er dóninn tók upp sprautu, þá flýtti ég mér út.

 

 

Gömlu dagana gefðu mér!

Þá gat ég verið einn með þér.

Nú tæknin geggjð orðin er.

Gömlu dagana gefðu mér!

 

 

Mig dreymdi ég væri giftur þeirri sömu sem ég er.

Hún sagði: "Ó, mér leiðist þetta barnaleysi hér."

Ég gerðist nokkuð bráður og vildi bæta úr því strax.

"Nei, bíddu", sagði hún, góði, "við notum pillur nú til dags."

 

 

Þá fannst manni þetta ógnarlangt frammi í framtíðinni, en skyldu þessir spádómar hafa ræst á einn eða annan hátt?  Skoðum það:

 

Nú er runnið upp hér árið 2012

en tunglið hvorki malbikað né steypt í hólf og gólf.

En tilveran er skrýtin og tryllingsleg í senn

því tölvur vinna störfin og hugsa fyrir menn.

 

 

Og ekki hefur margt að gera útvarpsstjórinn knár

því öllu nú í lífi´hans stjórnar snjallsíminn svo smár

og þingmenn ei með fúlle fem nú fíflast hér í kross

því forsætisráðfrúin er spánnýr Macintosh.

 

 

Er  álpast ég til Hollands á einni morgunstund

æra mig þar tækninýjundar á flesta lund.

Ég dapur fer á barinn og um doble bið af stút

en er dóninn býður hassköggul, þá flýti ég mér út.

 

 

Pillutækni vísindanna mögnuð orðin er:

Enginn vandi´að nota klónun til að fjölga sér.

Tæknifrjóvgun  stórkostleg er stunduð hér í dag:

Staðgöngumæðrum verður bráðum löggilt fag.

 

 

Gömlu dagana gefðu mér !

Þá gat ég verið einn með þér.

Nú tæknin geggjuð orðin er.

Til gömlu daganna gef mér far

fljótt til baka.

Ég yrði ánægður með lífið eins og það var.

 PC300019

 


Öflugar, ungar konur, loksins !

Mér finnst gott til þess að vita að aukin háskólamenntun kvenna sé að skila sér út í stjórn þjóðfélagsins. 

Á tímabili virtist sem þessi aukna menntun skilaði sér ekki að ráði út í þjóðlífið og að menntun allra þessara kvenna nýttist ekki sem skyldi.

Biðin eftir fullkomnu jafnrétti og samvinnu kynjanna í gegnum allt þjóðfélagið hefur verið löng en vonandi er að loksins sé nú að verða breyting á því.

Kannski hefur Hrunið áttt þátt í þessu, því að í einhverri mestu herferð fjárglæfra sem sagan kann frá að geina voru valda- og fégráðugir ungir og miðaldra menn í framvarðasveitinni og voru stráfelldir á sumum stöðum vígstöðvanna í þessari peningastyrjöld eða flúðu úr landi. 

Á undanförnum misserum hef ég tekið eftir því að ungar og öflugar konur eru að hasla sér völl í stjórnmálum, skeleggar og frambærilegar.

Ég nefni sem dæmi bæjarstjórana í Hveragerðisbæ og í Vogum, sem mér fannst standa sig vel á fundum þar sem þær hafa tekið til máls.

Ég hlakka til að sjá fleiri slíkar stíga fram.


mbl.is Fleiri konur ráðherrar en karlar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endar hún með vísu K.N. ?

Sinead O'Connor er enn ekki það gömul að það geti verið tímabært að huga að því hvernig það sé að vera ofan í líkkistu.  Efast reyndar um að hún geti ímyndað sér það.

Til er þó dæmi um það að "lík" hafi vaknað í líkkistu, og margir eru "dauð"hræddir við að verða kviksettir.

En ef O´Connor heldur áfram á svipuðum nótum til efri ára er hugsanlegt að hún geti á endasprettinum tekið undir með K.N. sem orti:

 

Bráðum kveð ég fólk og Frón

og fer í mína kistu

rétt að segja sama flón

sem ég var í fyrstu.


mbl.is Leið eins og í líkkistu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband