"Stelpurnar okkar! " Húrra!

Maður hélt að þetta væri ómögulegt. Það væri ómögulegt að keppa í heimsmeistarakeppni í hópíþrótt þar sem fjárframlag hvers þjóðfélagsþegns örþjóðar til landsliðsins væri aðeins brot af því sem er hjá margfalt fjölmennari þjóðum.

En "stelpurnar okkar" sýndju hreint einstakan karakter þegar þær á aðeins 12 mínútna kafla í lok fyrri hálfleik breyttu stöðunni úr 4:11 í 13:12 og skoruðu 9 mörk á móti einu. 

Og síðan fylgdu þær þessu eftir með því að vinna glæsilega með sex marka mun lið 250 sinnum fjölmennari þjóðar. Þær skoruðu fjögur mörk gegn engu síðustu sjö mínútur leiksins og það bendir til að þær hafi haft bæði andlega og líkamlega betra úthald en þær þýsku. 

Þegar rýnt er í tölurnar sést að Guðný Jenna markvörður varði 10 skot en þýsku markverðirnr 5. 

Ef þetta hefði verið öfugt hefðu úrslitin líkast til orðið á hinn veginn. 

Ef Guðný Jenna og stelpurnar geta haldið þessari siglingu er hætt við að forráðamenn fyrirtækisins, sem ekki sá sér fært að styðja Guðnýju, en stundum er sagt að markvörðurinn sé hálft handboltaliðið, geti bitið sig í handarbökin fyrir að hafa kastað frá sér eins góðri auglýsingu og stuðningur við markvörðinn hefði gefið og í staðinn fengið einhverja þá lélegustu auglýsingu sem lengi hefur sést. 

Í staðinn situr fyrirtækið uppi með það að hægt verði að segja: Þetta hefði ekkert fyrirtæki gert ef karlalandsliðið hefði átt í hlut, ekki einu sinni þótt "strákarnir okkar" væru með allt á hælunum. 

Nú er bara að stelpurnar falli ekki aftur í Angóla-gryfjuna heldur fylgi þessu eftir! Áram Ísland! 

 

 


mbl.is Glæsilegur sigur á Þjóðverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Viðurkenndur misskilningur"?

Það, að ferðamenn séu varaðir við því að fara til Íslands vegna hættu á eldgosi má flokka undir hugtak sem Baldur Hermannsson skilgreindi fyrir 24 árum sem "viðurkenndan misskilning."

Slíkur misskilningur, "viðurkenndur misskilningur", getur oft orðið afar hvimleiður og svo virðist sem engu skipti hve mikið sé reynt að kveða hann niður, hann færist bara í aukana. 

Hið rétta varðandi þau eldgos á Íslandi, sem hafa valdið truflunum á flugsamgöngum, er það að truflanirnar hafa orðið miklu meiri í öðrum löndum Evrópu en hér á landi og munar þar miklu, Evrópu í óhag. 

Þess vegna væri nær að vara fólk við flugferðum um Evrópu en til Íslands. 

Við Baldur Hermannsson lentum í vandræðum vegna "viðurkennds misskilnings" í einum af spurningaþáttunum "Hvað heldurðu?" sem var "Útsvar" þess tíma. 

Spurt var: "Á hvað horfir Hamlet þegar hann segir: "Að vera eða vera ekki, það er spurningin."?"

Gefið var rétt fyrir svarið: "Hann horfir á hauskúpu.", en það er í raun rangt svar því að Hamlet horfir á hauskúpuna á allt öðrum stað í leikritinu heldur en þegar hann segir: "Að vera eða vera ekki..." 

Úrskurður Baldurs. sem ég gerði engar athugasemdir við á staðnum,  var gagnrýndur, enda réði hann úrslitum í keppninni.  Við fórum vel yfir málið og sáum, að við höfðum komið okkur í hin mestu vandaræði þar sem aðeins var hægt að velja á milli slæmra kosta, því að það myndi valda miklu raski ef úrskurðinum yrði snúið við. En tvö önnur atriði vógu þó þyngra í þeirri niðurstöðu að láta úrskurðinn standa. 

1. Mistökin okkar fólust í því að setja fram spurningu þar sem á ferðinni var fyrirbæri sem kalla mætti "viðurkenndan misskilning" og að vissu leyti ósanngjarnt að ætlast til þess að svarandinn vissi það sem örfáir vissu og nær allir héldu að væri rétt. 

2. Í margri keppninni er dómarinn álitinn vera hluti af vellinum og aðstæðum og því sitja menn oft uppi með það að ekki er talið praktiskt að snúa dómum við. 

Nefna má fleiri atriði af sama toga. Það er til dæmis viðurkenndur misskilningur að frægasta setningin úr kvikmyndinni Casablanca sé "play it again, Sam", en þessi setning er aldrei sögð í myndinni. 

Með árunum hef ég þurft að glíma við tvö dæmi um "viðurkenndan misskilning". img_2247.jpg

Það flokkast til dæmis undir "viðurkenndan misskilning" að fyrsti bíllinn minn, sem ég átti í nær fjögur ár, hafi verið þriggja hjóla bíll. 

Hið rétta er að hann var ekki aðeins fjögurra hjóla bíll, NSU Prinz 30, heldur voru öllu fjögur hjólin yst úti í hornum bílsins sem var mjög óvenjulegt þá. Ég á sams konar bíl og þar geta menn séð þetta sem og á meðfylgjandi mynd, sem ég skýt hér inn til gamans, og er Prinzinn svarti bíllinn fyrir aftan gulan Fiat 500. p1013975.jpg

Annar viðurkenndur misskilningur kemur upp um hver jól þegar lagið "Jólabæn einstæðingsins er sungið á hljómleikum. 

Hann er sá að ljóðið sé allt eftir Gísla á Uppsölum og í sumum tilfellum er það meira að segja prentað í söngdagskrána. Hið rétta er að af 30 ljóðlínum eru 8 eftir Gísla en hinar 22 prjónaði ég við til að úr yrði heillegt ljóð og lag. 

Það var ekki fyrr en Gísli lést að ljóðmæli og hugleiðingar eftir hann fundust í fórum hans og stóð Ólafur nágranni hans á Neðra-Bæ fyrir því að þau voru gefin út í sérstakri bók, sem bar nafnið Eintal.

 Á meðal ljóðmælanna, sem lágu eftir Gísla, voru tvær stökur, hin fyrri prýðileg hringhenda: 

 

Jólin færa frið til manns, - 

fegurð næra hjarta.

Ljósið kæra lausnarans

ljómar skæra, bjarta. 

 

Hin síðari ferskeytlan er svona: 

 

Ljúfi Drottinn, lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni. 

Láttu ætíð ljós frá þér 

ljóma í sálu minni. 

 

Margir halda, þeirra á meðal biskup vor, að að minnsta kosti ein og hálf vísa í viðbót úr "Jólabæn einstæðingsins" hljóti að vera eftir Gísla: 

 

Þegar raunir þjaka mig, - 

þróttur andans dvínar. 

Þegar ég á aðeins þig

einn með sorgir mínar. 

 

Gef mér kærleik, gef mér trú. 

Gef mér skillning hér og nú....

 

En þetta er hluti af því sem ég prjónaði í kringum ferskeytlur Gísla. Ef þessi "prjónaskapur" minn hefði verið eftir Gísla hefði hann að sjálfsögðu fundist við lát hans og birst í bókinni Eintali.

En sá veldur miklu  sem upphafinu veldur. Hefðu stökurnar tvær, sem fundust að Gísla látnum og birtust í bókinni Eintali og lýstu Gísla og hugsununum hans svona vel, aldrei verið birtar, hefði ég aldrei séð þær eða vitað um tilvist þeirra og lagið og "prjónaskapurinn" hefðu aldrei orðið til. 

Það er Gísli sem kveikir eldinn með hinum einföldu en hugnæmu og grípandi ferskeytlum sínum sem fá flug.

Mér finnst hundleiðinlegt að leiðrétta þann "viðurkennda misskilning" sem kemur við hver jól og eftir á að hyggja hefði verið þægilegast að eigna Gísla ljóðið allt strax í byrjun. 

En fjölmiðlamaður á erfitt með og má raunar ekki annað en haft það er sannara reynist og stundum því miður, liggur mér við að segja. 

Ljóðið í heild eins og það varð í endanlegri mynd er hvergi að finna nema í textaheftinu í ferilsalbúminu "Ómar í hálfa öld." 

 


mbl.is Útlendingar varaðir við Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband