Á réttri leið.

Sjá má merki þess að bandarísku bílaframleiðendurnir Ford og General Motors séu á réttri leið í að bæta framleiðslu sína og þar með sölu og afkomu.

Sú var tíðin fyrstu árin eftir heimsstyrjöldina síðari að bandarískir bílar voru gæðabílar. Það fannst á því að einu að opna og loka dyrum og hreyfa stjórntækin. Vélarnar sem komu á markaðinn á sjötta áratugunum, eins og til dæmis Chevy "small block" 265",voru sumar tímamótavélar. 

Packard var gæðamerki, "standard of the world" frá því fyrir 1930 til 1950 og bílar Chrysler-verksmiðjanna þóttu afar vandaðar á sama tímabili. 

En síðan fóru Kanarnir að slaka á og voru hinir ryðsæknu bílar frá Chrysler frá og með 1957 dæmi um það. 

Evrópskir bílar fóru að sækja inn á bandaríska markaðinn 1956 og upp úr 1970 hófst innrás japanskra bíla. 

Það var ekki fyrr en um 1980 sem formúlan vélin frammi í og drif að aftan fóru að láta undan síga. 

General Motors og Chrysler fóru í gjörgæslu 2008 og útlitið var slæmt. 

Nú sést að Ford er að spjara sig og nýjustu Chevrolet bílarnir virðast vera á allt öðrum gæðaflokki en bílarnir þar á undan. 

Eins dauði getur verið annars brauð. Náttúruhamfarirnar í Japan drógu mátt úr framleiðendum þar og það hjálpaði framleiðendum annarra þjóða. 

Vonandi er Kaninn á réttri leið. Sú var tíðin þegar ég var strákur að þaðan komu bestu bílarnir og úr því að þeir gátu það þá hljóta þeir að geta það nú. 

 


mbl.is Ford boðar arðgreiðslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er auglýsingafé best varið ?

Gaman væri að vita hvort Nýherji og pressan.is hafa ráðgjafa í auglýsingamálum eða markaðsfulltrúa.

Vitað er að Nýherji eyðir fé í auglýsingar og kostun, sem gefur tekjur á móti og einhver hlýtur að sjá um auglýsingamálin á pressunni. 

Þeir sem sjá um þessi mál á þessum tveimur stöðum hljóta nú að eiga erfiða daga, annar aðilinn vegar vegna slæmrar auglýsingar sem nær út fyrir landsteinana, og hinn vegna taps á auglýsingatekjum. 

Það, að segja Guðnýju Jenný Ásmundsdóttur upp vegna þess að hún fór á HM, hlýtur að hafa verið réttlætt af fjárhagsástæðum, en ljóst er að auka auglýsingar þarf til að vega upp það tap, sem hin einstæða uppsögn hlýtur að hafa, beint eða óbeint. 

Ef ráðamenn pressunnar.is hafa talið það "selja" að birta umdeilda mynd og fá þannig aukna athygli og fleiri auglýsendur misreiknuðu þeir sig hrapallega.

Raunar er það umhugsunarefni hver ágóðinn verður þegar upp er staðið þegar fjölmiðlar velta sér sem mest upp úr því sem er talið falla undir hugtakið: "Það selur." 

 


mbl.is Uppsögn Guðnýjar vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vont virðist versna.

Um þessar mundir má finna tvær bækur í íslenskum bókabúðum sem lýsa Rússlandi Pútíns vel. 

Önnur þeirra er bók rússnesku blaðakonunnar Önnu Politkovskaju sem lýsir aðferðunum sem notaðar voru  af óprúttnum aðilinum, oftast tengdum rússnesku mafíunni, til þess að sölsa undir sig og beinlínis ræna stórum og smáum fyrirtækjum, jafnvel risafyrirtækjum í orkugeiranum, jafnt tengdum olíu, gasi eða rafmagni.

Hin bókin er bók Ingimars H. Ingimarssonar og Þorfinns Ómarssonar um þann heim sem íslenskir útrásarmenn komust inn í þegar þeir hösluðu sér völl í Rússlandi.

Þegar þessar bækur eru lesnar saman sést að aðferðirnar eru hinar sömu sem þátttakendur í þessu klækjaspili verða að beita ef þeir ætla að ná árangri. 

Sá vinnur, sem sýnir mestu spillinguna, refskapinn, óheilindin, svikin og prettina. Í mörgum tilfellum, sem Anna Politkovskaja lýsir, gegnsýrir spillingin alla þætti rússneskrar þjóðfélagsskipunar, framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald.

Stundum ræður úrslitum að ryðja keppinautum eða óþægilegum vitorðsmönnum úr vegi á hvern þann hátt sem dugar, jafnvel með morðum, - eða hótunum um dauða eða limlestingar.

Í mörgum tilfellum er það einn maður, sem skiptir um bandamenn af einhverjum ástæðum, sem ræður úrslitum, og þetta fyrirbæri kemur fyrir í báðum bókunum. 

Með því að lesa bók Önnu Politkovskaja á undan bók Ingimars og Þorfinns skilur maður betur það sem lýst er í þeirra bók. 

Anna Politkovskaja varð sjálf fórnarlamb morðinga árið 2006 og hafði unnið það til saka að hafa upplýst of mörg mál auk þess sem hún gagnrýndi Pútín harkalega. Morð hennar hefur ekki verið upplýst og verður líklega aldrei upplýst frekar en mörg slík mál á liðnum árum. 

Við lestur bókanna sést að ringulreiðin við valdatöku fyllibyttunnar Jeltsíns varð gróðrastía glæpa og spillingar, "ormarnir komu upp þegar jörðin þiðnaði." 

Jeltsín fær væntanlega tvískiptan dóm sögunnar, annars vegar sem maðurinn sem af miklu hugrekki og myndugleika hratt samsæri kommúnista og leiddi rússnesku frelsisbyltinguna í kjölfar aðgerða Gorbatsjovs, og hins vegar sem sá maður, sem mesta ábyrgð ber á því ástandi spillingar og glæpa sem ríkt hefur síðar í Rússlandi. 

Kannski var gagnrýni Önnu Politkovskaja á Pútin ekki fyllilega sanngjörn að því leyti að líkast til kemst enginn rússneskur ráðamaður upp með það að ráðast gegn þeim öflum, sem raunverulega ráða í Rússlandi. 

Morðið á Önnu sendi skýr skilaboð. 

Nú virðist vont vera að versna. Ef tölurnar, sem samtök um eftirlit með kosningum hafa birt, eru réttar, töldu aðeins um 15% Rússa geta varið það fyrir sjálfum sér að kjósa flokk Pútíns. 

Það hefur löngum ríkt ákveðin tregða erlendis við breytingum í landi eins og Rússlandi, - menn telja sig vita hvað þeir hafa, - en ekki vita hvað geti tekið við ef Pútín hrökklast frá völdum.

Rússland býr einfaldlega yfir kjarnorkuvopnum sem geta eytt öllu mannkyni og því ekki sama hver er með fingurinn á þeim gikk. 

En það hljóta að vera takmörk fyrir því hve lengi vont getur versnað varðandi illa fengin völd Pútíns og klíku hans.

 


mbl.is Segja flokk Pútíns hafa fengið 30% atkvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband