Getum við lært af Egyptum?

Það vakti strax athygli konunnar minnar hvernig mótmælendur stóðu í röðum á Frelsistorginu í Kairó og hve friðsamleg mótmælin voru.

Yfirvegun, stilling og samheldni mótmælenda hefur vakið athygli víða um lönd og með eindæmum, að með þessari sjálfstjórn kom það vel í ljós, að ofbeldi var aðeins beitt af hálfu stuðningsmanna Mubaraks, lögreglunni og hermönnum en mótmælendur héldu stillingu sinni allan tíman. 

Með þessu tókst þeim að koma í veg fyrir herinn og yfirvöld fengju afsökun fyrir því að beita valdi og fara fram með ofbeldi gagnvart friðsömum múgnum. 

Einnig var ljóst að erfiðara yrði fyrir hermenn að beita vopnavaldi gegn svo mörgu vopnlausu fólki og samlöndum sínum.

Ég held að við Íslendingar ættum að spyrja okkur, hvort við getum eitthvað af þessu lært. Vesturlandabúar hafa löngum litið niður á þjóðir Afríku og Asíu en áttum okkur ekki alltaf á því að margar þeirra búa að fornri og gróinni siðmenningu.

Styrkur og árangur Gandhis, Martins Luther Kings og egypsku byltingarinnar byggðist ekki á beitingu vopna og grófs ofbeldis, heldur á afli hins stóra, friðsama fjölda sem beitti borgaralegu andófi af stillingu, ögun og yfirvegun.
mbl.is „Stórt og mikilvægt skref“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herinn ræður úrslitum.

Aðgerðir eða aðgerðaleysi egypska hersins ge ta ráðið úrslitum um framvindu byltingarinnar í Egyptalandi.

Margir hafa átt von á því að svipað myndi gerast og í ótal svipuð skipti áður í sögunni, svo sem á Torgi hins himneska friðar í Peking 1989. 

Sagnir fara hins vegar af því að hugsanlega sé egypski herinn, sem á að vera undir stjórn Mubaraks, ekki einhuga í afstöðu sinni og sagan vitnar líka um það að þegar á hólminn var komið, hafi herir snúist gegn yfirboðurum sínum. 

Rússneska hernum var skipað að bæla niður mótþróa gegn kommúnistaleiðtogunum, sem rændu völdum af Gorbasjof, en þegar Jeltsín stökk upp á skriðdrekann gerði hann það í krafti þess að hermennirnir myndu ekki skjóta á eigin landa.

Þegar Napóleon sneri til Frakklands úr útlegð á eyjunni Elbu, voru hersveitir sendar þess að handtaka hann, en hermennirnir snerust þess í stað í lið með honum og fylgdu honum í sigurgöngu til Parísar. 

Herinn í Egyptalandi hefur átt um tvo kosti að velja , harðlínukostinn að láta sverfa til stáls og bæla niður uppreisnina með tilheyrandi blóðbaði, eða bíða enn um sinn og sjá hverju fram yndi.

Meðan herinn aðhefst ekki vinnur tíminn með mótmælendum, því að þeim fer sífellt fjölgandi eins og fréttir um milljónar til tveggja milljóna mannsöfnuð á mótmælendafundum bera með sér.

Staða Mubaraks fer að minna á stöðu Chausescus í Rúmeníu, en eftirminnilegt er þegar fjöldafundur, sem hann hélt til þess að styrkja stöðu sína, snerist gegn honum og hann flýði í þyrlu af vettvangi.

Að vísu er líklegt að egypski herinn muni um sinn verja Mubarak sjálfan, en hve lengi það ástand helst er erfitt að segja til um.

Tími hans hlýtur að vera liðinn og  æ betur sést, að best hefði verið ef hann hefði áttað sig á því fyrr.

 

P. S.  Einni og hálfri klukkustund eftir að þessi pistill var ritaður var tilkynnt að Mubarak hefði látið af völdum og herinn tekið við með varaforsetann í forsæti.

Með þessu ná mótmælendur fram fyrstu og helstu kröfu sinni hvað varðar afsögn Mubaraks, en nú þarf herinn heldur betur að spýta í lófana um lýðræðisumbætur, því að mótmælendur sætta sig ekki við annað en að herinn dragi sig til hlés og lýðræðislega kosin stjórnvöld taki við. 


mbl.is Milljón Egypta mótmælir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir geta breytt sögunni.

Ein mynd getur sagt meira en 1000 orð. Þessi sannindi eru sígild og dæmi eru um ljósmyndir sem hafa breytt sögunni, ef svo má segja.

Frægust slíkra mynda er líklega sú sem tekin var af brenndu fólki, sem flýði brennandi þorp í Vietnamstríðinu eftir napalm eldsprengjuárás Bandaríkjahers.

Fremst hljóp nakin stúlka með andlit afmyndað af skelfingu og mynd hennar greyptist í hug milljóna manna, sem sáu í henni táknmynd villimennsku stríðsins. 

Það má deila um hvort þessi mynd ein og sér hefði breytt gangi stríðsins, en þegar hún var lögð við aðrar eftirminnilegar myndir, svo sem af brennandi munknum í Saigon nokkrum árum áður, má segja að hún hafi verið kornið sem fyllti mælinn.

Á sama hátt og þessi ljósmynd vitnaði sterkt gegn hernaði varð frægasta myndin, sem tekin var í stríði Bandaríkjamanna og Japana af hermönnum, sem reisa bandaríska fánann á Iwo Jima, hvatningartákn fyrir Bandaríkjamenn að stefna til sigurs í því stríði. 

Myndin af logandi vítinu í Perluhöfn 7. desember 1941 með herskipið Arizona hálfsokkið og brennandi í forgrunni, vakti á sama hátt gríðarlega sterkar tilfinningar í Bandaríkjunum og hvatti þjóðina til að halda ótrauð út í þann hildarleik, sem styrjöldin var. 

Myndir af Bretakonungi og Winston Churchill að skoða rústir eftir loftárás á Londin í septmember 1940 stöppuðu stálinu í bresku þjóðina og mynd af líkum ríkisarfahjóna Austurríkis á líkbörum eftir að þau voru myrt í Sarajevo 28. júní 1914 vöktu mikla reiði og hefndarhug í Austurríki. 

Hér heima vitnuðu myndir af breskum hermönnum með vélbyssu í Kirkjustræti hernámsdaginn 10. maí 1940 um afdrifaríkasta atburð liðinnar aldar á Íslandi.

Aðrar myndir sögðu meiri sögu af miklum atburðum en þúsundir orða.

Ég hygg að ljósmynd 20. aldarinnar hafi Finnbogi Rútur Valdimarsson tekið við Straumsfjörð á Mýrum af líkum 38 drukknaðra skipverja af franska rannsóknarskipinu Pourqois pas? þar sem þeim hefur verið raðað í röð, hlið við hlið, með skipstjórann fremstan í röðinni. 

Eftirminnileg er líka myndin af minningarathöfn, sem fram fór á línuskipinu Fróða í Reykjavíkurhöfn, þar sem kistur fallinna skipverja stóðu á þilfari, sundurskotnu eftir árás þýsks kafbáts.

Hún varð nokkurs konar táknmynd fyrir þær miklu mannfórnir  á hafinu, sem Íslendingar urðu að færa á stríðsárunum.

 


mbl.is Bieber tók fréttaljósmynd ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband