23.2.2011 | 18:37
Íslendingar búa örugglega best.
Fyrir rúmum áratug barst athyglisverð skýrla inn á borð Reykjavíkurborgar þar sem bornar voru saman 16 borgir á Norðurlöndum á margvíslegan hátt. Ekkert var fjallað um þessa skýrslu enda stemmdi sumt af því sem í henni stóð ekki við ýmislegt, sem haft hefur verið uppi í borgarmálum Reykjavíkur.
Til dæmis leiddi skýrslan í ljós að þær þessara borga, sem eru á stærð við Reykjavík eru álíka dreifbýlar og sumar jafnvel dreifbýlli. Það stangast á við þá fullyrðingu að Reykjavík sé margfalt dreifbýlli en gengur og gerist.
Sú lífseiga fullyrðing byggist á því að bera Reykjavík saman við milljónaborgir í Evrópu, helst stærstu höfuðborgirnar.
Ef taka á mið af þessari skýrslu sést að það er ekki séríslenskt vandamál að borgir séu dreifbýlar og erfitt að þétta byggð heldur er það alþjóðlegt viðfangsefni að hamla gegn því að byggð þenjist út.
Annað kom berlega í ljós í þessari skýrslu. Það var hve rýmra var að meðaltali um hvern borgarbúa í Reykjavík en í nokkurri hinna norrænu borganna. Rysjótt veðurfar á Íslandi, einkum svalt veðurfar á sumrin, á áreiðanlega sinn þátt í því hve íslenska heimilið er mikilvægt fyrir okkur, en þó eru sumar norrænu borgirnar jafn norðarlega og Reykjavík með jafndimmt skammdegi og kaldari vetrarmánuði.
Ég hef skoðað sérstaklega meirihluta þessara borga og þá hefur komið í ljós að almenningssamgöngum er yfirleitt heldur betur sinnt í þeim en gerist hér á höfuðborgarsvæðinu, líka í þeim borgum, sem eru dreifbýlli en Reykjavík.
Norrænu borgirnar sem ég skoðaði voru Álaborg, Óðinsvé, Kaupmannahöfn, Osló, Bergen, Þrándheimur, Tromsö, Málmey, Gautaborg, Stokkhólmur, Sundsvall, Umeaa, Skellefteaa, Luleo, Aabo og Helsinki.
![]() |
Einn af hverjum sex í Evrópu býr þröngt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.2.2011 | 10:07
Sumarhöfn um sinn.
Það á ekki að koma neinum á óvart þótt Landeyjahöfn verði aðeins notuð að sumri til á næstu árum.
Aðeins 15 kílómetra frá höfninni er mesti vindastaður landsins og einn sá mesti á jörðinni að vetrarlagi.
Vikum og mánuðum saman sjáum við "eðlilegt ástand" á Norður-Atlantshafi þegar lægðir og lægðakerfi koma hvert á fætur öðru norður eftir vestanverðu Atlantshafi og bera rok og rigningu norður fyrir Ísland.
Meðalástand í janúar er það, að fyrir suðvestan Ísland er lægsti meðalloftþrýstingur á jörðinni og fyrir norðan landið yfir Grænlandi er önnur mesta hæð heims. Saman búa þessi kerfi til mesta vindbelging á jörðinni.
Þessu ástandi linnir ekki fyrr en í apríl-maí. Þá hefjast vorleysingar og Markarfljót og árnar austar á ströndinni skila líka aurburði til sjávar.
Augljóslega er enginn friður fyrir aurburði í Landeyjahöfn fyrr en komið fram á sumar. Þá er mesti ferðamannastraumurinn milli lands og Eyja og mest ástæða til að nota höfnina.
Nær væri að auka mokstur þá en draga úr vonlausum mokstri á veturna.
Að lokum: Landeyjahöfn opnar hvorki eitt né neitt. Hins vegar opnast Landeyjahöfn ef sanddæluskip geta opnað hana. Fyrirsögn þessarar fréttar er rökleysa. Rökrétt fyrirsögn er: "Óvíst er hvenær Landeyjahöfn opnast." Hvenær ætlar fjölmiðlafólk að læra jafn einfaldan hlut?
![]() |
Óvíst hvenær Landeyjahöfn opnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.2.2011 | 01:10
Jafn bilaður og Hitler.
Adolf Hitler trúði á það að hann væri snillingur á öllum sviðum og þegar bandamenn sóttu inn í Þýskaland bæði úr austri og vestri var það efst í huga hans að berjast til síðasta blóðdropa þótt allir sæu að það myndi leiða milljónir manna í dauðann og valda yfirgengilegri eyðileggingu.
Á síðustu vikunum æpti han að þýska þjóðin hefði brugðist sér og ætti skilið að farast í vítislogum styrjaldarinnar, aðeins tvennt kæmi til greina: Sigur á síðustu stundu eða að Þýskaland og þýska þjóðin myndi farast og verða kramin undir hælum bolséviskra villimanna af óæðri kynþætti.
Hitler, eins og Gaddafí, sagði að ekkert annað kæmi til greina en að hann yrði í hópi þeirra sem berðist til síðasta blóðdropa og hlyti píslarvætti fyrir.
Síðustu vikurnar í stríðinu stýrði Hitler ímynduðum hersveitum gegn óvinunum og lifði í firrtum sýndarveruleika. Þegar Roosevelt Bandaríkjaforseti dó þremur vikum fyrir stríðslok hrópaði Göbbels upp í neðanjarðarbyrgi Foringjans: "Þetta eru straumhvörfin í stríðinu!"
Gaddafí afgreiðir sendiráðsfólk Lýbíu um allan heim og þúsundir mótmælenda og hersveita, sem hafa snúist gegn honum, sem eiturlyfjafíkla og vesalinga sem eigi ekkert betra skilið en að vera drepnir.
Hann hrópar: "Lýbía hefur notið einstakrar virðingar á alþjóðavettvangi! Ég er mikilmenni!
Annað er eftir því og heimurinn horfir og hlustar á bullið í vitfirringnum í ótta og viðbjóði.
Æði Hitlers kostaði milljónir manna lífið bara síðustu mánuði stríðs, sem var löngu tapað.
Menn eins og Hitler og Gaddafí safna að sér þýlyndum jámönnum sem þrífast á því að mæra foringjann og segja honum allt sem hann langar til að heyra, burtséð frá hvort það sé satt eða logið. Smám saman er það allt lygi sem hann fær að heyra og sjá.
Þetta samband Foringjans og hinna auðsveipu jámanna hans er ávísun á verstu ófarir og hörmungar, sem hægt er að leiða yfir þjóðir. Þvi miður er ekki annað að sjá en að slíkt ástand ríki í Líbíu.
þ Villuleit í boði Púka
Frétt af mbl.is
Gaddafi fer hvergiErlent | mbl.is | 22.2.2011 | 16:11

Lesa meira
Færsluflokkur
Aðalflokkur:Bloggar Bækur Dægurmál Enski boltinn Evrópumál Ferðalög Fjármál Fjölmiðlar Heilbrigðismál Heimspeki Íþróttir Kjaramál Kvikmyndir Lífstíll Ljóð Löggæsla Mannréttindi Matur og drykkur Menning og listir Menntun og skóli Pepsi-deildin Samgöngur Sjónvarp Spaugilegt Spil og leikir Stjórnmál og samfélag Sveitarstjórnarkosningar Tónlist Trúmál Trúmál og siðferði Tölvur og tækni Umhverfismál Utanríkismál/alþjóðamál Vefurinn Viðskipti og fjármál Vinir og fjölskylda Vísindi og fræði
Athugasemdir
Leyfa athugasemdir við færsluí daga frá birtingu
![]() |
Gaddafi fer hvergi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)