26.2.2011 | 10:08
Hið "hreina og ómengaða Ísland".
Á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992 börðu Íslendingar sér á brjóst og létu mikið með það að þar hefðu þeir gerst forgöngumenn fyrir því að förgun sorps yrði tekin föstum tökum í veröldinni.
Þetta gerðist og síðan kom að því að reglur um þetta voru lögfestar í Evrópu og í samræmi við samninga Íslendinga við Evrópuríki var sú stund upprunnin að forysturíkið í umhverfismálum, "hið hreina og ómengaða Ísland" uppfyllti sjálft þær kröfur sem það hafði gengist fyrir að "óhreinu og menguðu löndin" tækju upp.
Þá brá svo við að Íslendingar báru sig illa og voru með hvers kyns mótbárur við þessu og báru við "séríslenskum aðstæðum," og smæð þjóðarinnar.
"Forystuþjóðin" vældi því út undanþágur og enn í dag, 19 árum eftir að "fyrirmyndarþjóðin" hóf upp keyri sitt á hinar "óhreinu" eru Íslendingar með allt niður um sig í sorpbrennslumálum og mörgum öðrum umhverfismálum.
Í Reykjavík, "höfuðborginni með hreinasta og ómengaðasta loftið" fer magn svifryks hvað eftir annað yfir alþjóðleg mörk og loftið í borginni stenst ekki loftgæðakröfur Kaliforníu 40 daga á ári vegna útblásturs frá borholum á Nesjavöllum og á Hellisheiði.
Nýlega hefur komið fram ítrekað hér á blogginu að hvergi í heiminum sé eins auðvelt að henda úrgangi frá skipum og hér og fullyrti reyndur skipstjóri í blaðaviðtali að hér giltu engar reglur um slíkt og þar af leiðandi væri hér allt frjálst og ekkert eftirlit. ,
Um götur okkar og vegi ökum við mest mengandi bílaflota Evrópu, vældum út á sínum tíma "séríslenskt ákvæði" um að mega blása út miklu meiri útblæstri en aðrar þjóðir og stefnum ótrauð að því að tvöfalda þann útblástur.
Blogg mín um frelsi til að henda úrgangi við Ísland hafa engin viðbrögð vakið og þykir slíkt ekki fréttnætt, líklega vegna þess að það gæti varpað skugga á það þegar við gumum af því um veröld víða að vera "forystuþjóð í umhverfismálum með hreint og ómengað land."
P. S. Í athugasemd hér fyrir neðan er fullyrt að ég fari með staðlausa stafi varðandi losun í hafið við Ísland. Í blaðaviðtali um þetta efni við skipstjóra á risaskipi sem segir frá þessu kemur þetta fram sem hans frásögn og hægt er að sjá þetta í leitarreit efst til vinstri á bloggsíðu þessari má slá inn fyrirsögn fyrsta bloggs míns um þetta: "Hvergi eins auðvelt að losa sig við úrgang."
Þar má stækka mynd af viðtalinu með því að smella á hana.
![]() |
Hyggst svipta sorpbrennsluna í Eyjum starfsleyfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
26.2.2011 | 00:01
Stjórnmál eru list hins mögulega.
Það er rétt hjá Ögmundi Jónassyni að það hefði verið eðlilegast og í samræmi við lög og venjur að endurtaka kosningarnar til stjórnlagaþingsins með sömu frambjóðendum. Þetta hefur verið venjan við sveitarstjórnarkosningar. Sjálfum hefði mér liðið best með þessa niðurstöðu og líklegast flestum 25 menninganna.
En stjórnmál eru list hins mögulega og í ljós hefur komið að þetta hefði orðið afar erfitt í framkvæmd þótt ég telji reyndar að það hefði samt verið mögulegt.
Ástæðan er sú að stjórnlagaþing er ekki valdastofnun heldur hlítir svipuðum lögmálum og venjuleg nefnd sem skipuð er af Alþingi. Þingið var frá upphafi fóstur og barn Alþingis og verður það áfram.
Litlu skiptir hvað við 25 segjum eða gerum, það er Alþingi sem ræður för og við erum þolendur að þessu leyti en ekki gerendur rétt eins og 83 þúsund Íslendingar sem fóru á kjörstað í nóvember.
Í ljós hefur komið að mest samstaða er á Alþingi um þá lausn sem samráðshópur um málið hefur lagt til.
Rökstudd andstaða er gegn því að kosið verði samhliða um Icesave og stjórnlagaþing og það kemur ekki til greina.
Uppkosning hefði aldrei getað farið fram fyrr en í maí-júní og varla praktiskt að þingið byrjaði störf fyrr en síðsumars eða í haust.
Í upphafi málsins eftir úrskurð Hæstaréttar vonuðust menn til að svipuð samstaða fengist um það eins og um stjórnlagaþingið í upphafi, en þá var aðeins einn þingmaður sem greiddi atkvæða í móti.
En með yfirlýsingu Bjarna Benediktssonar þess efnis að Sjálfstæðismenn vilji blása þetta starf af og færa það inn í þingið er ljóst að þeir muni leggjast gegn hverri þeirri lausn sem felur í sér annað en að málið fari í hinn gamalkunna árangurslausa farveg sem það hefur verið í í 67 ár.
Af þessu leiðir að andstaða Sjálfstæðismanna er jafnmikil við hvora leiðina sem valin yrði og þar af leiðandi hefur það mestan hljómgrunn að afgreiða málið með skipan stjórnlagaráðs.
Athyglisvert er að það var hugsanlega vegna óhapps sem Hæstiréttur gat úrskurðað eins og hann gerði og hefur Þorkell Helgason bent á það. Í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur sem samþykkt voru um líkt leyti og lögin um stjórnlagaþingið er ákvæði um það að því aðeins sé hægt að ógilda kosningarnar að misferli hafi átt sér stað sem hafi haft áhrif á úrsltin. Slíkt ákvæði var hins vegar ekki sett í lögin um stjórnlagaþing.
Sagt hefur verið að Alþingi megi alls ekki skipa þá í stjórnlagaráð þá sem hlutu mest fylgi í stjórnlagaþingkosningunum. Ef það er svo, vaknar spurningin um það hvort Alþingi megi þá eitthvað frekar skipa aðra í slíkt ráð eða nefnd.
Eða á að líta þannig á úrskurð Hæstaréttar að Alþingi megi yfir höfuð alls ekki skipa nefnd til að endurskoða stjórnarskrána? Eða líta þannig á, að þingið megi gera það, ef það gætir þess að enginn 522 frambjóðenda til þingsins sé í henni?
1851 var kosið í sérstökum kosningum til stjórnlagaþings, sem bar nafnið Þjóðfundur. Þó sat Alþingi í Reykjavík. Ástæðan var sú að þingmönnum væri málið of skylt til þess að þeir ættu auðvelt með að fjalla um málið. Sömu ástæður liggja að baki nú og eru þar að auki byggðar á 67 ára reynslu af mörgum tilraunum Alþingis til þess að framkvæma ætlun sína frá 1944 að gera nýja stjórnarskrá.
Stjórnmál eru list hins mögulega.
![]() |
Atli: Horfi bara í aurana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)