Gagn og gaman í fullri alvöru.

Það var gaman að vera viðstaddur og leggja lið keppni slökkviliðsmanna og lögreglumanna í íshokkí í dag í upphafi mottumars- átaks Krabbameinsfélags Íslands.

Gaman og alvara blönduðust saman í þessari athöfn því ávarp Rúnars "mottumanns", þess er sigraði í keppninni í fyrra, snart alla. Þegar hann var að leggja sitt af mörkum í fyrra barðist bróðir hans við krabbamein og varð að játa sig sigraðan. 

Það er til mikils að vinna. Á hverju ári missum við allt að hundrað karlmenn, sem hefði verið hægt að bjarga ef þeir hefðu verið meira vakandi og óhræddari við að gera ráðstafanir þegar fyrstu einkennin gerðu vart við sig.

Átakið gerir mikið gagn, en þó að djúp alvara búi undir, er líka hægt að fá gleði út úr baráttunni, einkum ef hún gerir gagn. Leikgleðin og lífsgleðin, sem lögreglumenn og slökkviliðsmenn sýndu í dag, var hreint yndislegur sólargeisli í dimmu skammdegisins.

 


mbl.is Mottur á allra vörum í mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og Grettir.

Verið er að líkja hruni ferils Tiger Woods við hrun ferils Mike Tyson. Sá sem þetta gerir þekkir ekki feril Grettis Ásmundssonar, en um hann var sagt að sitthvað er gæfa og gervileiki.

Ég var að skoða heimildarmynd um George Foreman, sem árið 1973 stóð á hæsta tindinum í keppninni um eftirsóttasta titil íþróttanna, heimsmeistaratitilinn í þungavigt í hnefaleikum, hafði hreinlega valtað yfir besta hnefaleikara heims á þeim tíma, Joe Frazier. 

Foreman var talinn viss um að geta haldið sessi sínum í áratug ef hann vildi, en síðan tapaði hann óvænt fyrir Muhammad Ali og líf hans hrundi.

Samt var hans heitasta ósk að vinna titilinn aftur en Foreman lýsir því í viðtali í myndinni hvernig röng sjálfsmynd hans og siðferðiskennd urðu til þess að þegar hann á leið sinni til að endurheimta titilinn tapaði aftur, þá varð áfallið svo svakalegt, bæði líkamlega og andlega, að hann missti vitið í "black-out" ástandi í búningsherberginu eftir leikinn.  

Hann fékk vitrun í þessu ástandi, sem hann líkir við dauðann, - kross birtist í myrkrinu, og hann gerðist prédikari í tíu ár. Þá var hann fjárþurfi og fór út í hnefaleikana aftur, gerbreyttur maður.

Það var hlegið að honum, 38 ára gömlum fituhlunki, enda hafði enginn áður vogað sér að koma aftur svona gamall eftir tíu ára hlé. Átta árum síðar hampaði hann titlinum 46 ára gamall, níu árum eldri en nokkur meistari á undan honum. Allt byggðist þetta á andlegu og siðferðilegu hliðinni, þótt líkamlegt atgervi hjálpaði auðvitað til.

Mike Tyson missti þjálfara sinn, sem hafði gengið honum í föðurstað og missti gersamlega stjórn á lífi sínu áður en hann tapaði fyrir James Buster Douglas. Það eru óvæntustu úrslit sögunnar, veðmálin stóðu 42:1 fyrir bardagann.

"Mikill ógæfumaður ert þú" sagði Noregskonungur við Gretti þegar honum mistókst vegna skapsmuna að hreinsa sig af áburði um að hafa brennt menn inni í fjallakofa. 

George Foreman þurfti tíu ár til að ná áttum. Tyson virðist ekki hafa getað það og ekki gat Grettir það.

Spurningin er hvort Tiger Woods geti það sem Foreman tókst. 


mbl.is Líkti Tiger Woods við Mike Tyson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Feimnismálið mikla, rányrkjan.

Rányrkja þykir ljótt orð í íslensku og er á undanhaldi, þótt allir viti hvað það þýðir. Það er helst að það sé notað í sambandi við veiðar ef það á annað borð sést eða heyrist.

Þegar fjallað er um hina "endurnýjanlegu orku", jarðvarmann, heyrist orðið rányrkja aldrei nefnt, heldur er hugtakið falið inni í miðjum greinum um orkunýtinguna með löngum setningum, eða þá að notuð eru orð eins og "ágeng orkunýting" eða "ofnýting", sem eru út af fyrir sig ágæt orð en fara einhvern veginn inn um annað eyrað og út um hitt. 

Í umræðunni er rányrkjan líka kaffærð snarlega ef ýjað er að því að hún eigi stað og sagt, að víst sé jarðvarminn endurnýjanleg auðlind, því að það séu þvílík býsn af henni á jörðunni. 

Þess vegna sé það viðurkennd alþjóðleg staðreynd að sú orkunýting sem íslendingar stundi og geri áætlanir um, sé endurnýjanleg nýting. Eru fræðimenn eins og Steán Arnórsson snupraðir ef þeir dirfast að varpa ljósi á sannleikann, sem er sá, að í raun er núverandi nýting jarðvarmans víðast hvar á Reykjanesskaganum rányrkja og ekkert annað. 

Í Ameríku höfðu Indíánar það viðmið, að nýting yrði að vera þannig að hún skerti í engu möguleika sjö kynslóða. Það samsvarar líklega um 200 árum hér á landi. 

Íslendingar eru sennilega sammála um það að væri rányrkja ef við veiddum einhverja fisktegund þannig að hún yrði útdauð eftir 40-50 ár. 

Hins vegar er það talið nægja hvað jarðvarmann snertir, að hann endist á viðkomandi svæði í 50 ár. 

Þannig er það á Heillisheiði og Nesjavöllum og þeir Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson segja, svo vitnað sé beint í nýlega grein þeirra í Morgunblaðinu, að jarðvarmanýting sé endurnýjanleg ef þess er gætt, að þegar í ljós komi að gengið sé á orkugetu svæðisins, sé orkuvinnslan bara minnkuð nægjanlega mikið til þess að hún endist! 

 Í nýjustu grein þeirra félaga telja þeir að Stefán Arnórsson hafi gengið of langt í lýsingu sinni á eðli núverandi nýtingar jarðvarmans og á fréttum Stöðvar 2 var þetta tekið snarlega upp sem vottorð þeirra félaga að víst væru allar áætlanirnar um að stórauka nýtinguna hjá Reykjanesvirkjun pottþéttar og alls ekki um ofnýtingu að ræða. 

Í frétt Stöðvar tvö var þess hins vegar ekki getið að í grein þeirra Ólafs og Guðna segja þeir í lokin að þeir leggi áherslu á að fara með gætni í orkunýtinguna, sem væntanlega þýði það, að þegar í ljós komi að um rányrkju hafi verið að ræða, verði vinnslan bara minnkuð nægjanlega til að jafnvægi komist á. 

Ekkert er rætt um hvað það þýði fyrir samninga um sölu á ákveðnu magni af orku ef í ljós kemur að það þurfi að minnka hana stórlega á samningstímanum. 


mbl.is Hafa áhyggjur af ofnýtingu svæðisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband