Væri stjórnarskrárbrot víða erlendis.

Nú velta menn vöngum yfir því hvort bóndinn á Efri-Engidal í Skutulsfirði eigi rétt á skaðabótum og þá á hendur hverjum. Einnig velta menn vöngum yfir því hvort eða hver ákvæði laga fjalli um svona tilfelli.

Í stjórnarskrám margra annarra landa er rétturinn til heilnæms og óspjallaðs umhverfis stjórnarskrárvarinn og væri því ekki  um neitt vafamála að ræða ef slíkt ákvæði væri hér á landi og í tengslum við slíkt ákvæði væru ákvæði sérlaga sem tryggðu að þessi krafa stjórnarskrárinnar væri virt á öllum sviðum.


mbl.is Díoxínmengað kjöt fór á markað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var mikið!

Ég hef verið að blogga aftur og aftur um nauðsyn þess að Íslendingar taki upp hætti siðaðra þjóða í umferðinni og hafa mér einkum verið hugleikin nokkur atriði eins og ónóg notkun stefnuljósa og algert hirðuleysi og tillitsleysi varðandi hegðun ökumanna við þrengingar á vegum og skiptingum umferðar á milli akreina.

Hringtorgin eru ekki verstu staðirnir heldur T-gatnamót og gatnamót með fleirum en einni akrein. 

Alræmd gatnamót eru gatnamót Grensásvegar og Fellsmúla, þar sem ökumenn, sem koma niður Fellsmúla halda oft umferðarteppu í gíslingu, - bílum, sem koma upp úr Skeifunni og ætla að beygja til suðurs inn á Grensásveg. 

Bílstjórarnir, sem koma niður Fellsmúlann og ætla til hægri, gefa yfirleitt ekki stefnuljós og þegar þeir gefa þau, þora bílstjórar, sem koma úr Skeifunni, samt ekki að beygja, vegna þess að stundum þjösnast bílstjórarnir sem koma niður Fellsmúlann inn á innri akreinina á Grensásveginum, og vegna þess hvað þetta er algengt hika menn við að treysta því að ekið sé á siðmenntaðan  og hagkvæman hátt. 

Ef það á nú loks að gera gangskör í þessum málum er það vel.  Raunar er hegðun ökumanna við þrengingar á götum eða þar sem tvær akreinar verða að einni, sérkapítuli, - og má til dæmis ég þakka fyrir að hafa ekki verið drepinn eða stórslasaður í slysi af völdum hinnar landlægu villimennsku á stað, þar sem akreinar runnu saman.


mbl.is Meirihluti gaf ekki stefnuljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...en jörðin var lengi flöt.

Eitt það athyglisverðasta við feril mannkynsins er það hvað einfaldar staðreyndir hafa lengi verið hulin mönnum þótt ótal atriði sýndu þær ljóslega.

Árþúsundum saman stóðu menn í þeirri trú að jörðin væri flöt þótt margt benti til hins gagnstæða.

Varðandi sólina hefur hins vegar verið gagnstætt uppi á teningnum að því leyti að menn virðast ekki hafa þorað að fullyrða um það að hún væri hnöttótt fyrr en fyrir því lægju alveg pottþéttar óhrekjanlegar sannanir eins og nú hafa verið fundnar.

En hvað benti til þess að jörðin væri ekki flöt?  Jú, þetta geta Reykvíkingar séð með því að fara niður að sjó og horfa í góðu veðri yfir Faxaflóa í átt til Snæfellsjökuls. 

Þá sést efri hluti Snæfellsjökuls en bunga hafsins hylur neðri hlutann. 

Ef síðan er gengið upp á Öskjuhlíð og farið upp í Perluna, sést meira af jöklinum og minna er hulið af bungu hafsins. 

 Enn betur sést þetta ef farið er frá fjöru upp á fjall á borð við Esjuna. Þá kemur allur jökullinn í ljós.

Sama gerist þegar farið er upp á Snæfellsjökul. Niðri við sjó sést aðeins efsti hluti Esjunnar yfir flóann en fjallið allt þegar komið er upp á tindinn.

Fornmenn gátu siglt fram og til baka yfir flóann og séð þetta sama gerast , hvernig fjöllin risu smám saman úr sæ þegar komið var nær þeim.

Samt var það svo gróið viðhorf í öllum trúarbrögðum og almennri heimssýn þessara alda og árþúsunda að hið augljósa var mönnum hulið. 

Því miður á þetta ekki bara við um það hvort jörðin sé flöt. Í mörgum málum myndast svo gróin trú á ákveðna hluti að ekkert virðist geta haggað henni. 


mbl.is Sólin er hnöttótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband